Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, júlí 31, 2007
 
Ég veit ekki hversu margar klósettsenur eru í bandarískum bíómyndum en ég hef allavega séð slatta. Yfirleitt ágætlega stórt herbergi með nokkrum klósettum hlið við hlið, umlukt “veggjum” úr spónarplötu eða einhverju þvíumlíku. Það hentar vel í bíómyndunum að hafa opið niðri á þessum básum svo maður geti séð hvort einhver sé að fela sig á klósettinu. Ég fattaði auðvitað ekki fyrr en ég kom hingað að þetta á ekki bara við almenningsklósettin í bíómyndunum. Allas staðar þarf maður að reyna að kreista út piss eða eitthvað annað meðan maður horfir á ökklana á manneskjunni í næsta bási, básarnir eru nefnilega opnir nánast upp að hné. Ég er oft frekar eirðarlaus á klósettinu, finnst gaman að lesa á meðan ég sit þarna því annars leiðist mér, en ég hef ekkert gaman af því að virða fyrir mér skóna á öðrum, eða velta fyrir mér naglalakkinu á tánum á þeim. Ég hlakka til að kúka í vinnunni minni í Svíþjóð!

Auður og Anna Eir labba oft á móti mér þegar ég hætti í vinnunni á daginn. Í seinustu viku þegar við vorum að labba heim tókum við eftir litlum fugli sem reyndi að ýta sér áfram á vængjunum á gangstéttinni, hann gat ekki labbað og varla hreyft sig. Ég tók hann upp og sá þá að hann var greinilega fótbrotinn og var með ígerð á maganum. Mig langaði nú soldið að láta hann niður og vona að honum myndi batna en það var nú líklega bara óskhyggja og ákvað ég þá frekar að drepa hann. Ég man ennþá þegar við vorum á Grænó hjá ömmu og afa fyrir allavega 10 árum og eitthvert systkinabarna minna fann særðan fugl sem Össi hennar Kötu frænku aflífaði með því að kippa búknum og hálsinum í sitthvora áttina. Það er greinilegt að margt sem verður á vegi manns getur komið til hjálpar síðar.

Pål fyrrverandi vinnufélagi Auðar kom í heimsókt til okkar áðan og verður eina nótt hjá okkur. Hann er að flytja á vesturströndina í eitt ár, hann fékk nefnilega einhvern rosalegan sænskan vísindastyrk til nokkurra ára og verður að vinna allavega eitt ár utanlands.mánudagur, júlí 30, 2007
 
Seinustu mínúturnar er ég búin að vera að skemmta mér yfir að skoða myndir frá pabba sem hann sendi mér áðan. Það var nefnilega ættarmót Vorsabæjarættarinnar um helgina en sú ætt var eitt sinn voldug á Skeiðunum. Eins og vanalega þá missum við af öllu fjörinu á Íslandi og því voru myndirnar kærkomnar. Ég vona að nýja nefndin standi við það að næsta ættarmót verði eftir 3 ár en seinasta mót var fyrir 12 árum sem er allt of langur tími.
Inga föðursystir mín hefur verið ótrúlega dugleg við að setja upp síðu með niðjatali langafa og langömmu ef þið viljið kíkja.

Í gær fórum við allar þrjár í dýragarðinn. Þar sá ég nú fullt af dýrum sem ég hef ekki séð áður en mér þykir nú alltaf soldið gaman að fara í dýragarða, jafnvel bara til að sjá venjuleg húsdýr, en auðvitað er sérstaklega gaman að sýna Önnu Eir öll dýrin. Hitinn var hins vegar alveg að drepa okkur og svitnuðum við alveg eins og grísir. Hvernig fer þetta fólk að því að búa hérna hvert einasta sumar.

Ég kláraði seinustu Harry Potter bókina í vikunni og Auður er alveg að vera búin með hana. Ég rek hana í að lesa við hvert tækifæri sem gefst því ég verð að fá bókina út úr systeminu, verð að fá að tala um hana. Þessi bók var sú lang skemmtilegasta í seríunni, ótrúlega spennandi með fjölmörgum flækjum. Það sem er svo skemmtilegt við bækurnar er að þær eru planaðar frá byrjun til enda, þ.e. afleiðingar einhverra atvika í fyrri bókunum koma oft fram í síðari bókum, fátt gerist alveg óvart. Ekki skemmir fyrir að maður fær svör við ýmsum spurningum sem vöknuðu í eftir lestur sjöttu bókarinnar. Þetta er allt og sumt sem ég mun tjá mig opinberlega um Harry Potter þar sem ég vil ekki spilla fyrir ykkur hinum sem hafið ekki lesið sjöundu bókina. Og þið sem hafið ekki lesið eina einustu Potter bók eða þið sem hafið lesið eina og gáfust svo upp (Byddí!!!), þið eruð algjörir bjálfar og mæli ég eindregið með að þið lesið afganginn.
Uppáhalds karakterinn minn er Severus Snape. Hann er æðislegur í bókunum en ég féll alveg kylliflöt fyrir honum í fyrstu myndinni, Alan Rickman er ótrúlega sannfærandi sem Snape. Ég fæ næstum því gæsahúð að hugsa um hann.


þriðjudagur, júlí 24, 2007
 
Hér eru myndir í Chicagoferðinni sem ég og Aujamamma fórum í fyrir viku


mánudagur, júlí 23, 2007
 
Kristín Ingvars og Angel (Ingvars?) buðu okkur í mat á laugardaginn. Kristín var svo óskaplega elskuleg að bæði ná í okkur og keyra okkur heim. Þau búa í New Jersey fylki sem er hérna skammt frá, í sætu húsi með risa garði að hætti Bandaríkjanna. Auðvitað fengum við frábæran grillmat (veðrið býður svo sannarlega upp á það hérna) og eftirmat. Þetta var fyrsta skiptið sem við hittum Angel og ég veit satt að segja ekki hvernig Kristín var búin að lýsa okkur fyrir honum, líklega sem tveimur valkyrjum af magninu af kjöti að dæma.
Við nutum veðursins í smá stund í bakgarðinum meðan Angel var að grilla og var það nóg til að ég var bitin af einhverju kvikindi. Ég klóraði mér soldið í gær og í nótt sem varð til þess að núna er bitið stokkbólgið á stærð við lófann á mér. Ég ráðfærði mig við heimamenn hvað ég ætti nú að gera og þorði ekki annað en að hringja í Kristínu líka því heimamennirnir höfðu aldrei séð annað eins. Það er alveg ótrúlegt hvað við getum bólgnað af litlum bitum þegar það sér varla á Skandinövunum eða Bandaríkjamönnunum í þessu tilviki. Þetta er ein af þeim ástæðum sem er best að búa á Íslandi, engin brjáluð skordýr. Ég er allavega búin að bera cortizone á þetta og verð bara að bíða og sjá hvort þetta lagist ekki.

Við fórum út að borða á mexicanskum stað þegar við vorum í New Jersey City um daginn. Þjónustustúlkan var ung að aldri og soldið skondin, hress og óalvarleg. Hún komast að því að við vorum íslenskar og varð himinlifandi: “For real?”. Við játtum því. Svo var eitthvað annað sem fékk hana til að hrópa “For real”. Ég rétti þá fram vinstri hendina og sagði að hún mætti koma við mig. Stúlkan fraus soldið, horfði á hendina á mér eins og það væri eitthvað ógeðslegt á henni og spurði svo hvað hefði komið fyrir mig. Þá fattaði ég að það var eitthvað ógeðslegt á hendinni á mér, örið mitt. Það böggar mig ekkert. Aujan mín er nefnilega búin að segja í svo mörg ár að það sé kúl og ég trúi öllu sem hún segir :)
Ég sagði stelpunni að ég hefði fengið á mig sýru og Auður bætti við að við værum efnafræðingar og auðvitað kom “For real!!!”. Ég má greinlega þakka fyrir að hafa ekki fengið sýru í andlitið því þá fengi ég ábyggilega oft augngotur.


föstudagur, júlí 20, 2007
 
Ég vil þakka öllum fyrir fallegu kveðjurnar sem ég fékk á árlegu tímamótunum mínum á þriðjudaginn. Þann dag komu stelpurnar mínar frá Chicacorauninni. Auður segir ykkur kannski síðar frá því.

Við ákváðum að fara út að borða um kvöldið, á ítölskum veitingastað sem bandaríski prófessorinn minn var búinn að mæla með. Kokkunum fórst vel úr hendi að búa til eggja- og mjólkurlaust pasta handa Önnu Eir, sem hún spændi í sig. Eftir það var friðurinn úti og við gátum alls ekki notið þess að borða. Eftir heilmikið basl gátum við fengið hana til að borða papríku og gafst okkur örlítill tími til að halda áfram með matinn en svo var bara borðað í hollum. Börn á þessum aldri hafa enga þolinmæði. Þegar eitthvað er leiðinlegt þá er það leiðinlegt. Dúkurinn og gólfið var frekar subbulegt eftir Önnu Eir en þjónarnir voru alltaf svo elskulegir og snérust í kringum okkur.

Eins og ég sagði ykkur í seinustu viku þá gáfu Auður og Anna Eir mér rosa kúl, grænan íþróttagalla í afmælisgjöf. Á þriðjudaginn bættust svo við opnir Ecco skór og Klear action tannhvítukitt. Ég hef alltaf verið svo heilluð af þessum tannhvítumeðferðum sem eru auglýstar í sjónvarpinu. Ég var hins vegar aldrei á leiðinni að þora að kaupa mér svona þó að ég sjái nú að tennurnar mínar eru farnar að gulna með árunum. Auglýsingarnar hljóma alltaf: “Bara tvær mínútur”, bla, bla, bla. Já, maður lýsir á tennurnar bara í tvær mínútur en maður þarf fyrst að pennsla hverja og eina tönn sem maður ætlar að aflita og svo á maður að að gera þetta 20 sinnum til að klára eina meðferð. Maður á víst að sjá mun eftir 10 skipti. Ég er búin með 12 skipti og við Auður erum ekki vissar hvort það sé munur þó að maður sé með eitthvert litaspjald til að bera saman. Maður sér til dæmis engan mun á stigi 2-7 á þessu litaspjaldi. Allavega, þið verðið bara að dæma um þetta sjálf þegar ég kem til Íslands. Maður fær ekki pappírshvítar tennur af þessum meðferðum enda er það frekar ónáttúrulegt en við sjáum hvað setur.
Það versta við þetta allt saman er að þeir mæla með því að maður drekki ekki eða borði ekki eitthvað ákveðið 24 klst eftir hverja meðferð en þetta eru hlutir sem lita tennurnar eins og t.d. kaffi og kók. Í fyrradag, daginn eftir fyrstu tannhvítunarmeðferðina mína var ég með hausverk frá kl. 15 og þangað til ég fór að sofa. Ég vil alls ekki trúa að það hafi verið fráhvarfseinkenni frá kóki en ég hef fengið þetta áður þegar ég drakk ekki kók einn dag. Núna er ég ekki búin að drekka kók í 3 daga því ég er í tannhvítumeðferð daglega. Ég er ekki með hausverk en mig langar stöðugt í kók. Ætla að ljúka þessari meðferð sem fyrst svo ég geti fengið mér besta drykk í heimi!


miðvikudagur, júlí 18, 2007

sunnudagur, júlí 15, 2007
 
Ég var að enda við að drepa fyrsta kakkalakkann minn í íbúðinni okkar. Ég elti hann um stofuna og lamdi hann margoft með tómri jógúrtdós þar til að hann hvarf. Ég hélt að hann hefði komist undan en þá lá hann bara kraminn og hreyfingarlaus á eldhúsgólfinu. Hann fékk útför að hætti sjómanna.

Ég fór í all rosalega verslunarferð í dag. Ég fór í The Gallery til að skipta íþróttapeysunni, sem Auður og Anna Eir gáfu mér, í stærra númer. Ég fríkaði smá út í þessu molli, þræddi búðirnar en það sem meira er þá keypti ég alveg helling. Við höfum nokkrum sinnum farið í moll hérna í Philadelphia en ekki gefist kostur að versla mikið eða lengi því Anna Eir dregur soldið úr okkur orkuna. Dagurinn í dag og á morgun (já, ég ætla aftur á morgun) eru því kjörnir til að versla.
Ég fór beint úr mollinu með alla pokana í bíó. Ég var fyrir löngu búin að ákveða að fara í bíó í dag en varð soldið vonsvikin þegar þeir voru hættir að sýna Ocean’s thirteen og ekki byrjaðir að sýna Hairspray eða Bourne sem varð til þess að ég sá teiknimyndina Ratatouille. Myndin var fín með glettnum köflum eins og teiknimyndir eru oft því það verður að höfða til fullorðna fólksins svo það nenni að fara með krökkunum sínum í bíó.

Ég keypti mér skó í New York um daginn í annarri af búðunum sem við fórum inn í þá helgina. Búðin var með hrikalega hárri rappmúsík og einungis svörtu afgreiðslufólki. Ég var svo sem ekkert hissa á því, höfum oft séð hversu undarlega skipt þjóðfélag þetta er. Ég fékk afgreiðslu af einhverri stúlku sem náði í alla skóna fyrir mig en hvarf svo. Ég ákvað svo að kaupa eitt parið og var að leggja af stað að afgreiðsluborðinu þegar einn strákanna sem vann þarna spurði mig hvort hann gæti aðstoðað mig. Ég sagði eins og var að ég ætlaði að taka eitt parið. Hann spurði þá hver hefði aðstoðað mig.
Ég: "Einhver stúlka."
Hann: "Einhver stúlka?"
Ég: "Já, einhver stúlka."
Hann: "Hvernig leit hún út?"
Ég: "Hvernig leit hún út?". Þarna stóð ég eins og álfur og glápti á strákinn því hann vissi ekki að hann hafði rambað á mig sem get ekki lýst fólki því ég man einfaldlega ekki hvernig það leit út og hvaða máli skipti það svo hvernig hún leit út. Ég ákvað að vera rosalega fyndin, hallaði mér soldið að stráknum og sagði með örlítið lægri röddu eins og það væri hálfgert leyndarmál: "Svört". Allt afgreiðslufólkið í búðinni var svart svo mér fannst augljóst að þetta væri fyndin en gagnslaus vísbending. Honum stökk ekki bros á vör.
Hann: "Hvernig hár var hún með".
Ég meina það, var drengurinn ekki búinn að átta sig á við hvers konar manneskju hann var að tala. Nú auðvitað varð ég að svara því eina sem ég vissi aftur: "Ehh, svart". Honum fannst þetta ekki heldur fyndið og hélt áfram að spyrja mig.
Hann: "Var það sítt eða stutt".
Ég: "Ekki hugmynd".
Hann: "Miðlungssítt".
Ég: "Ekki hugmynd". "Ég tek yfirleitt ekki eftir fólki þannig séð". Ég var orðin leið á þessum spurningum og antíhúmorista og ætlaði að fara en stóðst ekki freistinguna að spyrja hann af hverju hann vildi vita hver hefði aðstoðað mig. Mig grunaði kannski að fólkið fengi einhverja prósentu ef viðskiptavinurinn keypti það sem þeir hefðu sótt fyrir þá.
Hann: "Hún á að setja skóna (sem ég keypti ekki) á sinn stað".
Ég meina, kommon. Í stað þess að drattast með skóna sjálfur eða spyrja sjálfur fólkið sem hann vann með hver hefði aðstoðað mig þá stendur hann í þriðju gráðu yfirheyrslu á viðskiptavini.

Þegar ég fór í bíó í gær þá rétti ég stúlku miðann minn inni í bíósalnum. Þessi stúlka, sem var svört, hefur það að atvinnu að fylgja fólki til sætis. Hún tók við miðanum mínum, horfði á mig og sagði: "Varst þú ekki hérna áðan". Ég svaraði auðvitað bara kurteisislega: "Nei", en langaði meira að segja: "Það hlýtur að hafa verið einhver önnur hvít kona!". Kannski lítur hvítt fólk allt eins út fyrir svörtum eða þessi stúlka er jafn ómannglögg og ég. Hún hefur allavega myrkrið í bíósalnum sér til varnar.


laugardagur, júlí 14, 2007
 
Stelpurnar mínar fóru til Chicaco í dag. Þar verða þær í fjóra daga hjá Marie sem var skiptinemi heima hjá Auði þegar hún var 16. Ég var því í vinnunni til rúmlega 18 og hefði verið lengur ef ég hefði ekki verið búin að kaupa bíómiða á Harry Potter kl. 18:30. Sætin eru númeruð hérna eins og í Svíþjóð og því ætti ekki að vera nein ástæða fyrir átök þegar maður fer í bíó nema þá helst þegar þeir passa sig ekki á að hafa pylsurnar sínar tilbúnar fyrir kvöldsýningarnar þegar hungaðir gestirnir birtast. Pylsur áttu að vera kvöldmaturinn minn en í staðinn varð ég að seðja hungrið með poppi og m&m. Á heimleiðinni eftir sýninguna varð ég því að koma við á Grískum stað þar sem ég keypti mér einhvers konar pítu með frönskum inní, ætli þeir séu eitthvað skyldir Akureyringum þessir!!
Myndin var alveg ágæt, svona eins og hinar myndirnar, eiginlega ekki fyrir minn aldurshóp en alveg hægt að hafa gaman af ef maður er Potter aðdáandi. Og svo er seinasta bókin væntanleg bráðum.

Ég ætlaði að vera að vinna um helgina fyrst stelpurnar mínar eru fjarri en það ekkert að gera í vinnunni svo ég hef ákveðið að versla og fara meira í bíó. Það er alltaf jafn leiðinlegt að koma heim í tómt bú.
Ég á afmæli næsta þriðjudag og fékk því smá gjöf í gær frá Auði og Önnu Eir svo ég gæti farið og skipt um helgina ef það passaði ekki. Fékk bol sem passaði og rosa kúl íþróttagalla en þarf því miður að skipta peysunni í stærri; Auður heldur að ég sé eitthvert písl.

Þessa dagana er Gay & lesbian Film festival í Philadelphia. Það er ein íslensk stuttmynd til sýnis sem Auði dauðlangaði að sjá íslenska stuttmynd en missir af þar sem hún er í Chicaco. Það var því hjartansmál hjá Auði að ég færi og sæi myndina fyrir hana, svo ég á miða í bíó kl. 12 að hádegi á sunnudaginn. Ég held ég hafi ekki farið svona snemma í bíó fyrir utan þegar menntaskólinn minn (MK) fór kl. 9 á Tyllidögum fyrir allmörgum árum.

Aujan mín keypti sér vax um daginn til að vaxa á sér lappirnar. Auður bar vaxið á sig, lagði pappír á og kippti af, lagði pappír á og kippti af, lagði pappír á og, já, þið skiljið hvað ég á við. Af og til heyrði ég kæft óp en þegar ég spurði hvort þetta væri vont þá neitaði hún alltaf (“allavega ekki eins vont og maður heldur”). Ég ákvað því að gera eins og Aujan mín svo ég slyppi nú að raka á mér skankana í svona eins og 4-6 vikur. Það er ekki hlaupið að því að vaxa sig, maður verður fyrst að safna hárum á lappirnar, nógu löngum en ekki of löngum! Þegar loksins kom að því þá held ég að ég hafi lagt pappír fjórum sinnum á og kippt og þá var mér nóg boðið, sársaukinn var alveg ógurlegur og sveið mig á eftir. Verst þótti mér þó að hafa ekki getað staðið það út að vaxa á mér lappirnar eins og Aujan mín. Málið er að af og til í gegnum árin hef ég boðið Auði aðstoð mína í að fjarlægja bólur og fílapensla og hefur hún þegið það fáein skipti (ekki nærri því eins oft og ég vildi). Oft höfum við þurft að hætta í miðjum klíðum því Auður var orðin bálvond og vændi mig um að vera harkalegan sadista þegar það var í raun bara hún sem var með of lágan sársaukaþröskuld (að mér fannst). Mér brá því heldur í brún þegar Aujan mín gat vaxað á sér báðar lappirnar með minniháttar öskrum og táraflóði meðan ég gat einungis kippt eins og 10 hárum (sá ekki högg á vatni!). Og það sem meira er, Auður vaxaði sig aftur í vikunni. Þegar ég hugsa málið aðeins betur og sætti mig við eigin aumingjaskap þá get ég ekki annað en glaðst yfir því að vera gift annarri eins hetju og Aujunni minni.


þriðjudagur, júlí 10, 2007
 
Við fórum sem sagt til New York borgar (NYC) á föstudaginn og komum til baka á sunnudeginum. Lestarferðin til NYC tók 3 tíma og skiptum við þrisvar um lest en lestarferðin til baka tók bara 1.5 tíma og þurftum við aldrei að skipta enda var sú ferð rúmlega þrisvar sinnum dýrari en við létum það eftir þreyttum ferðalöngunum. Kristín Ingvars, sem er okkar “insider” hér í Bandaríkjunum, benti okkur á best væri að fá sér hótel í New Jersey borg því hótelin í New York væru svo skítug. Við erum fínar konur og gerðum því eins og Kristín sagði og urðum sko ekki fyrir vonbrigðum. Hótelið var alveg æði, herbergið var rosalega hreint og fínt með stærsta örbylgjuofni sem ég hef séð, ísskáp, hellum og sjónvarpi. Hótelið heitir Candelwood Suites og mælum við eindregið með því.
Föstudagurinn fór bara í að koma okkur á hótelið, svæfa Önnu Eir, fá okkur að borða og ná í strætómiðana okkar. Við keyptum okkur nefnilega 48 tíma strætómiða með leiðsögumanni um NYC. Í New York vorum við spurðar til vegar og gátum við leiðbeint viðkomandi. Við lítum greinilega út fyrir að vera heimsborgarar. Þegar við náðum í strætómiðana hittum við leiðsögumann sem vildi endilega vita hvaðan við vorum. Hann var Bandarískur að ég held en fór með á staðnum nokkrar línur á íslensku úr júróvisjónlaginu sem Daníel Ágúst söng fyrir okkar hönd fyrir allmörgum árum. Framburðurinn var alveg magnað góður. Hann sagðist ekki kunna íslensku en kynni sænsku og töluðum við því restina á sænsku sem hann var helvíti góður í. Sumir eru greinilega með meðfædda tungumálahæfileika.
Laugardaginn og sunnudaginn ferðuðumst við um NYC í strætó eins og barnið leyfði en mikill tími fór í að gefa Önnu Eir að borða og láta hana sofa lúrinn sinn. Við ætluðum að sigla að Frelsistyttunni og skoða hana eitt skipti fyrir öll en hættum snarlega við þegar við sáum röðina. Ég hef aldrei séð eins langa röð og áætlaður tími í henni var 1 klst og 15 mín. Við létum okkur því nægja að horfa á Frelsisstyttuna frá höfninni. Í staðinn fórum við upp í Empire State bygginguna alla leið upp á 86. hæð (320 m) og horfðum yfir New York. Það er alveg frábært útsýni þaðan og mjög skemmtilegt að geta kíkt aðeins yfir fyrst við höfðum ekki tíma til að skoða meira en Manhattan.
Við gáfum okkur smá tíma til að slaka á, fórum í picnic í Central park og svaf Anna Eir lúrinn sinn þar.
Það er alveg þess virði að fara til NYC og sjá með eigin augum mannmergðina, alla leigubílana og húsin. Við erum allavega til í að fara aftur en helst barnlausar svo það sé hægt að slaka svolítið meira á, versla og dunda sér.


mánudagur, júlí 09, 2007
 
jæja, þá erum við aftur komnar frá new york. Þar var heitt og troðið en áhugavert og flott. Skemmtilegast fannst okkur að fara í Empire State building og sjá yfir borgina og að tsjilla í Central park. Set inn myndir á eftir.


fimmtudagur, júlí 05, 2007
 
Jæja, nokkrar fleiri myndir. Erum að fara til Nýju jórvíkur á morgun og verðum fram yfir helgi þannig að við komum ekkert á skype en von á góðum myndum eftir helgi


miðvikudagur, júlí 04, 2007
 
Mömmurnar eru búnar að kaupa nýja myndavél (hehe) hér eru nýjar myndir


sunnudagur, júlí 01, 2007
 
Þegar við hittum Kristínu Ingvars um daginn þá spurði Auður hvort við gætum farið og skoðað Amish fólkið. Ég var örlítið hissa á þessari spurningu frá Auði, þetta væri frekar eitthvað sem ég myndi segja. Það er ábyggilega soldið gaman að fara og sjá hvar Amish fólkið býr og allt það en sem betur fer þurfum við nú ekki að fara langt til að svala forvitni okkar að hluta. Við fórum á rosalega fínan markað í gær þar sem er seldur alls konar matur, bæði tilbúinn og ferskur. Að því tilefni keyptum við okkur fisk í þriðja skiptið og ætlaði ég nú að láta fiskiævintýrið okkar gott heita ef hann væri ekki góður. Fiskurinn var nýr og góður á bragðið en aðalatriðið var nú samt allt Amish fólkið sem við sáum á markaðinum. Þarna er Amish með fullt af básum þar sem þau selja kjöt og brauð sem þau gera sjálf og svo var einn bás þar sem þau elduðu mat á staðnum. Það er ekki eins og þetta fólk eigi það nú skilið að það sé glápt á það eins og dýr í búri, þau eru afar snyrtileg í fínum gamaldags fötum eins og maður hefur bara séð á og í myndum. Samt var gaman að sjá Amish fólkið og hafði ég strax meiri trú á að allt í borðinu þeirra væri betra og hreinna en allra annarra á markaðinum. Ég ætla að fara einhvern tímann aftur á markaðinn og kaupa eitthvað af Amish fólkinu.

Við höfum sem sagt tvisvar áður keypt fisk hérna og eldað. Ég reyni af og til af veikum mætti að fá stelpurnar mínar til að borða físk því hann er hollur og góður en það er bara einn hængur á, ég verð að elda hann ef ég vil að hann sé á borðum og verður hann aldrei eins góður og mig langar. Í bæði þessi skipti var fiskurinn eitthvað skrýtinn á bragðið og var það ekki útaf eldamennskunni minni. Í fyrra skiptið lyktaði ég af fiskinum. Umm, fersk og góð fiskilykt og varð ég því fyrir miklum vonbrigðum þegar við fundum myglubragð af honum. Anna Eir borðaði myglufiskinn með bestu lyst (létum hana ekki borða meira eftir að við föttuðum að það var myglubragð af honum) en vildi hins vegar ekki smakka góða þorskinn í gær.
Seinna skiptið keyptum við fisk í finni búð en varð ég vonsvikin þegar ég fann kæsta lykt af fiskinum. Fiskurinn var með frekar staðbundið kæst bragð svo við gátum borðað hluta af honum en hentum hinum hlutanum. Þennan fisk borðaði litla prinsessan líka.
Ég ætla því ekki að hafa áhyggjur af eldamennskunni minni héðan í frá :)