Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
laugardagur, ágúst 25, 2007
 
Þá er ég búin að selja stofuborðið okkar fyrir 30 dollara og rúmið + eldhúsborð og 4 stóla á 280 dollara. Svo sannarlega betra en ekki neitt. Ég stóð reyndar í smá púli við að taka rúmið í sundur, bera það upp með fólkinu (það býr í sama húsi) og setja það saman aftur, en ég hafði svo sem ekkert annað að gera og þetta var helvíti gott tímakaup.
Það ætlar einn að koma í fyrramálið og kíkja á sófann okkar. Þá er nú bara svona smotterí eftir og auðvitað allt barnadótið, sem enginn virðist þurfa.
Og núna sef ég bara á vindsænginni okkar, að vísu soldið heppnari en Auður og Anna Eir þegar þær komu hingað því vindsængin er full af lofti :)

Aujan mín er svo klár að hún komst inn í einhvern rosalegann kristalstrúktúrskúrs (þetta er afar undarlegt orð!) í Cold Spring Harbor Laboratory í New York 15. – 30. október. Já, við Anna Eir verðum þá bara tvær saman í rúmar tvær vikur. Ég vorkenni samt meira Aujunni minni að vera aleinni í Ameríku. Þessi kúrs er rándýr en Auður var búin að fá styrk fyrir helmingi gjaldsins og er gisting og matur innifalinn. Ég held að hún sé að reyna að véla hinn helminginn út úr prófessornum sínum.
Sem betur fer ætla mamma og pabbi að vera í heimsókn hjá okkur Önnu Eir 18. – 21. október. Þau voru meira að segja búin að ákveða það áður en ég sagði þeim að við yrðum aleinar heima.
Öllum öðrum er að sjálfsögðu velkomið að koma í heimsókn þegar Auður er í burtu (og þegar Auður er heima) en við Anna Eir munum samt alveg bjarga okkur; hún verður í leikskólanum á daginn og ég í vinnunni og svo reynum við að gera eitthvað skemmtilegt saman þess á milli.


fimmtudagur, ágúst 23, 2007
 
Það hefur sína kosti að hafa klósettin svona eins og þau eru hérna í Bandaríkjunum; bása með hurð sem hylur nægilega mikið. Ég hef tekið eftir því nokkrum sinnum að konurnar spjalla við þá sem er í næsta bás og þá á ég ekki við svona kurteisishjal eins og Bandaríkjamenn eru heimsmeistarar í, heldur koma þær kjaftandi inn á klósettin, finna sér bás kjaftandi, setjast kjaftandi og pissa kjaftandi. Þannig geta þær kjaftað allan daginn án þess að verða fyrir truflun. Þvílíkur kostur.

Ég fékk vírus í vinnutölvuna mína í gær. Hann lýsti sér þannig að þegar kveikt var á tölvunni birtist viðvörun þar sem sagði að ég hefði 15 mínútur þar til það slökknaði á tölvunni og svo birtist niðurteljari. Ég hélt nú að þetta væri bara eitthvað grín og reyndi að loka þessu án árangurs og 15 mínútum síðar slökknaði á tölvunni. Það sama kom fyrir einn sem vinnur með mér í seinustu viku. Þetta er hið dularfyllsta mál. Ólíklegt er að okkur hafi borist þetta í tölvupósti því ég fæ engin e-mail sem hann fær.
Allavega, tölvan fór í viðgerð í gær og ég fæ hana seinnipartinn eða á morgun.

Þegar ég kom heim í gær sá ég frekar stóran kakkalakka á elhúsveggnum. Ég þurfti nú að hleypa aðeins kjarki í mig til að drepa þetta kvikindi, ekki af því að ég hafði áhyggjur af því að hann myndi hafa yfirhöndina, heldur af því að mér finnst ferlega ógeðslegt að finna eitthvert kvikindi kremjast undir puttunum á mér, þó ég sé með pappír. Ég ræðst ekki til atlögu fyrr en ég er nánast 100% viss um að kvikindið hafi engann möguleika á að komast úr gildrunni minni og skríða á handleggnum á mér.
Í morgun fjarlægði ég svo álíka stóran kakkalakka af gólfinu í vinnunni. Sá hafði verið þar í 3 daga án þess að neinn veitti því sérstaka athygli nema þá helst ég. Í hvert skipti sem ég gékk fram hjá honum krossbrá mér en alltaf var hann jafn dauður.


 
Mér leiðist ofsalega mikið að vera ein í Ameríku. Ég fer því snemma í vinnuna og kem seint heim. Reyndar eyði ég öllum tímanum í að vinna, ekki slæpast, hef nóg að gera.

Það hefur rignt seinustu 4 daga hérna og það er alveg peysuveður úti. Ég þurfti meira að segja að sofa í fötum í nótt, mér var svo kalt.
Það var ausandi rigning þegar ég fór í vinnuna í gær og fattaði ég ekki fyrr en ég kom í vinnuna að nýja 4 GB USB minnið mitt og gsm síminn minn voru í buxnavasanum mínum, rennblaut en virka samt bæði jafn vel og áður.

Ég hengdi upp auglýsingu í blokkinni og okkar og setti inn auglýsingu á netið í gær, er að reyna að selja öll húsgögnin sem við keyptum á sínum tíma. Ég fékk strax svör á netinu og sá í morgun að nokkrir höfðu rifið af símanúmerið mitt hérna í blokkinni. Ég var því stórhissa að enginn hefði hringt í mig í allan dag, svo fattaði ég að ég hafði skrifað rangt símanúmer!!! Ég hengdi því upp nýja auglýsingu áðan, í lit og allt.