Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar

This page is powered by Blogger. Isn't yours?
miðvikudagur, nóvember 19, 2008
 
Núna er Aujan mín orðin doktor. Þvílíkt og annað eins sem vörnin hennar gékk vel. Ég hef nú farið á margar doktorsvarnir og fannst Auður bera af, hún var afslöppuð og heimilisleg (tók úr sér spennurnar og sveiflaði þeim í kringum sig og setti þær stundum upp í sig) og svaraði alveg ótrúlega vel, auk þess sem hún spurði andmælandann sinn einnar spurningar varðandi hans grein (þetta er fyrsta skiptið sem ég verð vitni af því að verjandinn snúi svona líka vörn í sókn). Vörnin tók um 2 tíma og 40 mínútur og leiddist mér alls ekkert.
Eftir kampavínsdrykkju drógum við alla hungruðu Íslendingana á hamborgarastað háskólans og síðan heim að hvíla okkur fyrir partýið um kvöldið. Allir íslensku gestirnir voru virkjaðir í að skreyta salinn og leggja á borð og var bara mjög góð stemning um kvöldið ef frá er talin undarleg lykt sem gaus upp af og til þegar eldhúsið var opnað en skv. starfsmönnum salarins þá sprakk klóakrör tveimur dögum áður. Sem betur fer keyptum við ekki mat af salnum svo litlar líkur voru á matareitrun. Allt gékk eins og í sögu, maturinn var glymrandi góður og eftirmaturinn sömuleiðis. Ræðurnar voru alveg frábærar; Auður amma lofaði Aujuna sína og þakkaði Svíunum fyrir að sjá um okkur þessi ár; andmælandinn hennar Auðar þakkaði fyrir að hafa verið beðinn að eiga þátt í að útskrifa svona kláran stúdent (þetta er í fyrsta sinn sem ég hef séð að andmælandi haldi ræðu); Pär, prófessorinn hennar Auðar, var með hálfgerða leiksýningu þar sem hann lýsti Auði með hjálp af dúkku og alls konar fylgihlutum sem hann hengdi á hana; og svo var sjálf móðir nýdoktorsins, Anna Kristín, með lofræðu aldarinnar, en að sjálfsögðu var allt satt sem þar fór fram. Ég hafði nú hugsað mér að halda ræðu sjálf (var samt ekki búin að útbúa neitt) en eftir þessa stórkostlegu ræðu hjá tengdamóður minni þá hætti ég snarlega við.
Veislan stóð frá kl. 18 til klukkan 1 um nóttina en þá fóru ungu Íslendingarnir í eftirpartý í 18 fm íbúð sem við Auður fengum að láni hjá barnapíunni okkar. Óléttu kellurnar (Hlín og ég) létu sig ekki vanta í gleðskapinn en lognuðust hægt og sígandi útaf á vindsænginni um 4 leytið.
Kíkið endilega á myndir frá útskriftardeginum og nokkrar myndir af Önnu Eir .

Læt fylgja með orð gærdagsins.
"Vond lykt mamma. Du ska þvo din rass og inte prumpa meira." Sagði Anna Eir eftir að Emelía mamma hennar hafði prumpað inni í herberginu hennar þegar hún var að fara að sofa.