Svíþjóðarferð

Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.

Niðurteljarar





























































This page is powered by Blogger. Isn't yours?
þriðjudagur, desember 11, 2007
 
Þá er það desemberfærslan. Við ætlum að kaupa okkur tölvu í janúar svo við getum bloggað heima, það gengur ekki að geta ekki sagt ykkur frá því sem gerist hjá okkur.
Heitustu fréttirnar eru þær að Aujan mín stóðst munnlega lífefnaprófið sitt í morgun, að sjálfsögðu. Hún er búin að vera að læra fyrir það í 4 vikur enda er þetta ábyggilega stærsta próf sem hún hefur nokkurn tímann tekið og stóð það yfir í 3 tíma. Við ætlum því að fara í bíó í kvöld á "The golden compass" og erum búnar að fá Maarja til að passa Önnu Eir.

Anna Eir er hætt að gráta þegar við skiljum hana eftir á leikskólanumhætti, hætti fyrir 2 vikum. Hún er orðin soldið dugleg að tala sænsku og enn duglegri að tala íslensku, koma stöðugt ný orð hjá henni og erum við alltaf jafn hissa. Buxnaslys eru nánast útdauð og förum við meira að segja með koppinn í bæinn til að pissa í á almenningsklósettum.

Á laugardagsmorgun komu nágrannastrákarnir, Oskar og Alton, til okkar og bjuggu til piparkökur. Og á sunnudeginum fórum við Anna Eir í bæinn að versla og skruppum stutt að föndra hjá Íslendingafélaginu.

Ætla alltaf að setja inn áætlun jólanna okkar hérna inn. Get allavega sagt ykkur að við Anna Eir komum næsta sunnudag, 16. des.. Mamma og pabbi munu sækja okkur á flugvöllinn og fara með okkur upp í Vorsabæ en þar ætlum við Anna Eir að gista tvær nætur. Svo förum við á Selfoss 18. des og gistum eina nótt á Grænó og förum til Reykjavíkur miðvikudaginn 19. des til að hitta Aujuna okkar sem kemur þann dag frá Stokkhólmi.
Við munum gista hjá Magga og Heiðrúnu 19. des til ca. 29. des, svo verðum við hjá mömmu og pabba til ca. 5. jan og restina hjá Önnu Kristínu og Þorvarði en við förum til Svíþjóðar 8. jan..


mánudagur, nóvember 19, 2007
 
thetta skrifadi emelia duglega a föstudaginn:

Sæl öll sömul.
Ég skil vel að fólk hafi áhyggjur af okkur en allt er í lagi. Bloggleysið er ekki vegna þess að eitthvað hefur komið upp á hjá okkur fyrir utan það að Explorer 7 hætti allt í einu að virka heima hjá okkur og erum við því með Explorer 6 núna sem neitar að leyfa okkur að blogga. Þetta er sem sagt allt saman Microsoft að kenna að við höfum ekki bloggaði í mánuð því við erum löngu hættar að blogga í vinnunni. Ég veit að þessi afsökun er hrikalega léleg en kannski kaupa hana einhverjir.
Hvað hefur nú gerst seinasta mánuð. Jú, við Anna Eir vorum einar heima í tvær og hálfa viku meðan Auður var á kúrsinum í Bandaríkjunum. Það gékk ótrúlega vel hjá okkur, elduðum góðan mat næstum daglega og borðuðum mikinn fisk. Mamma og pabbi voru hjá okkur í fjóra daga, pössuðu Önnu Eir einn dag meðan ég var í vinnunni og gékk allt glymrandi vel. Það létti aðeins á einverunni að vera með gesti. Annars hringdumst við Auður mikið á og var símreikningurinn eftir því.
Anna Eir fékk augnsýkingu í seinustu viku og var Auður heima með hana í 3 daga. Svo fékk hún hita á miðvikudaginn, líklega vegna þess að hún var bólusett í seinustu viku, og var Auður heima í gær og ég í dag. Það er soldið meira umstang að eiga barn en mig hefði grunað en ef engin veikindi eru í gangi þá er þetta lífið tiltölulega einfalt.
Anna Eir grætur enn á hverjum morgni þegar við förum með hana á leikskólann og yfirleitt þegar við náum í hana :) Hún er farin að tala mikið og soltla sænsku: “här borta” (hérna), “där borta” (þarna), “titta” (sjá eða sjáðu), og svo syngur hún oft “Anna är här, pingu är här, mamma är här” og bætir við hinum og þessum inn í lagið eftir þörfum.

Thad eru komnar nyjar myndir a myndahornid


mánudagur, október 15, 2007
 
Þegar við komum heim til Stokkhólms frá Íslandi byrjaði Auður að vinna en ég var heima í sumarfríi með Önnu Eir því hún var í aðlögun í leikskólanum. Það tók Önnu Eir langan tíma að aðlagast og varð hún algjörlega trítilóð þegar ég skildi hana eftir fyrstu skiptin.
Núna byrjar hún oft að mótmæla þegar hún fattar að við erum að fara á leikskólann og fer að hágráta þegar við erum komnar á staðinn en þegar við erum farnar þá gengur voða vel segja kennararnir.
Anna Eir hætti að nota bleiju á nóttunni fyrir rúmum tveimur vikum. Bleijan hafði verið þurr í heila viku á undan og ákváðum við þá bara að hætta þessu, hún er aldrei með bleiju heima og pissa og kúkar bara í koppinn sinn sem henni finnst voðalegt sport enda er henni hrósað í hástert. Núna pissar hún áður en hún fer að sofa og þegar hún vaknar, ekkert mál (yfirleitt allavega, það hafa komið fyrir slys). Meira að segja kallaði hún á Auði um daginn og sagðist þurfa að pissa, um miðja nótt!!!! Og hún á orðið litlar sætar nærbuxur, rosa stór stelpa.

Þórir kom í heimsókn til okkar 21. sept og var fram á 24. á þrítugsafmælisdaginn sinn. Á daginn sýndum við honum soldið Stokkhólm því þetta var fyrsta skiptið sem hann var í Svíþjóð og á kvöldi spiluðum við Sequence. Mér fannst nú eins og Þórir og Auður ynnu saman gegn mér, eyðulögðu bæði mínar raðir en ekki hjá hvoru öðru.
Takk kærlega fyrir komuna Þórir.

Anna tengdó kom í heimsókn til okkar 28. sept til að passa Önnu Eir á laugardeginum því við Auður vorum boðnar í brúðkaup hjá Sue-Li og Tobbe vinnufélögum Auðar. Anna Eir og amma hennar dunduðu sér á laugardeginum og spurði Anna Eir aldrei um okkur, algjörlega sátt við að vera í pössun hjá ömmu. Við fórum aðeins í bæinn í búðarráp á sunnudeginum enda Anna Kristín alveg ný manneskja eftir fótsnyrtinguna sem ég veitti henni.

Nú vil ég segja ykkur sögu af einstaklega bíræfnum gesti. Mín yndislega tengdamóðir hafði gleymt tannburstanum sínum á Íslandi og ætlaði að kaupa sér nýjan en ég bauð henni að fá svokallað gestatannbursta. Við reynum að eiga auka tannbursta ef ske kynni að gestina okkar vantaði, þetta er ávallt nýr tannbursti og ekki sá sami sem við bjóðum öðrum gestum :) Hún samþykkti þetta og gékk allt vel þar til hún fór heim. Þá tók ég eftir því að minn tannbursti var horfinn en gestatannburstinn var eftir. Þar sem við áttum ekki fleiri auka tannbursta neyddist ég auðvitað til að nota gestatannburstann sem tengdamóður minni hafði verið gefinn og áttaði ég mig strax á því að þar hafði verið illilega leikið á mig því þessi tannbursti var alls ekki eins góður og minn. Það liðu nokkrir dagar áður en ég heyrði næst í tengdamóður minni og nefndi ég þá tannburstasvikin. Hún hafði þá ekkert tekið eftir því að hún hefði tekið rangan tannbursta og taldi sig hafa tannburstað sig með þeim stolna heima hjá okkur líka! Núna eigum við bara góða gestatannbursta svo sagan endurtaki sig ekki :)


Við fórum til Uppsala á laugardaginn og við fórum líka seinustu helgi. Í bæði skiptin leigðum við okkur bíl og Aujan mín keyrði eins og herforingi. Seinustu helgi átti Sólveig Birta eins árs afmæli og á laugardaginn héldu Karvel og Arna upp á þrítugsafmælin sín.

Í gærmorgun gerðist afar sorglegur atburður, Aujan mín yfirgaf okkur og kemur ekki fyrr en eftir 2,5 viku aftur. Auður fór á kristalstrúktúrkúrs í Cold Spring Harbor rétt hjá New York. Anna Eir kvaddi mömmu sína eins og að hún væri að skreppa út, fattar auðvitað ekki að hún sér ekki mömmu í marga, marga daga. En við getum kannski spjallað saman á Skype ef Auður kemst í nettengingu með nýja laptoppinn sinn.


þriðjudagur, október 09, 2007
 
Við biðjumst velvirðingar á því að hafa ekki skrifað í langan tíma. Ég veit það er engin afsökun, en við höfum verið alveg andlausar í skrifum en samt alveg á fullu að koma lífinu í rétt horf eftir Ameríkuferðina.

Íslandsferðin var yndisleg. Ég var nú bara í 8 daga en stelpurnar í 3 vikur. Ég var búin að óska mér rigningu og skítaveðurs á Íslandi eftir að hafa verið í steikjandi hita í Ameríku í 3 mánuði, og ósk mín var uppfyllt. Það rigndi hvern einasta dag sem ég var á landinu og mest allan tímann sem stelpurnar voru! Samt kýs ég íslenskt veður fram yfir amerískt.
Að vanda vörðum við tímanum í að heimsækja ættingja og vini. Skruppum tvisvar austur og náðum að heimsækja allar ömmur og afa og fleiri. Við þökkum kærlega fyrir allar veitingar og yndislegheit.

Ég borðaði vanalega pylsur í morgunmat og reyndi að grípa í annan skyndibita á öðrum tímum. Ísland og Ameríka eiga það samaeiginlegt þó að þar er sko góður skyndibiti og margir möguleikar í boði, annað en í Svíþjóð. Því verður maður að gípa tækifærið þegar það gefst.

Auður hélt síðan upp á þrítugs afmælið sitt laugardaginn 8. sept heima hjá mömmu sinni og Þorvarði. Það var ofsalega vel heppnuð veisla, mjög vel mætt úr báðum okkar fjölskyldum og allir vinir sem voru á landinu komu. Við hertókum húsið fram á kvöld og fórum síðan mörg saman niður í bæ og kíktum á tvo staði en við Auður höfum nú ekki verið úti í Reykjavík í mörg ár. Þetta var heljarinnar skemmtun og var Auður afskaplega ánægð með daginn, svo ánægð að hún hélt aftur upp á afmælið sitt vikuna eftir (á afmælisdaginn sinn, 15. sept) í Stokkhólmi fyrir Íslendingakjarnann okkar og stelpur úr vinnunni.

Auður og Anna Eir brölluðu fullt á Íslandi áður en ég kom. Þær voru m.a. í sumarbústaðnum hjá tengdó (Heiðrúnu og Magga) en Maggi var að stíflu sem á að framleiða rafmagn fyrir sumarbústaðinn þeirra.
Þær fóru líka á ættarmót á Mýrunum hjá fjölskyldu Auðar ömmu hennar Auðar.
Anna Eir fékk vanalega að ganga laus í bakgarðinum hjá mömmu og pabba á Álfhólsvegi og tína sér jarðaber, rifsber og rífa upp gulrætur. Þetta hefur verið hið mesta ævintýri fyrir hana því hún tínir öll ber af trjánum hérna fyrir utan hjá okkur. Við höfum ekki hugmynd um hvaða ber þetta eru og bönnum henni því að borða þau en hún tínir og tínir þrátt fyrir það.

9. sept fórum við svo í skírnarveislu. Dóttir Kötu og Ara var skírð Ásta Kristín eftir ömmum sínum. Ásta eftir mömmu hans Ara og Kristín eftir Önnu Kristínu mömmu Kötu.

Við setjum inn myndir bráðlega.


mánudagur, september 17, 2007
 
Jæja, loksins komnar myndir frá íslandi. Kíkið á þær hér. Von á fleiri myndum sem Eiríkur tók.


miðvikudagur, ágúst 29, 2007
 
Hér er mynd af frænkunum. Fleiri íslandsmyndir síðar


sunnudagur, ágúst 26, 2007
 
Heyrði loksins aðeins í Aujunni minni í dag. Prófessorinn hennar ætlar að borga hinn helminginn af námskeiðinu í New York og flugmiðann, svo allt er klárt og klappað.

Ég skemmti mér áðan við að horfa á viðtölin sem tekin voru við ættingja okkar og vini fyrir brúðkaupið okkar. Er ekki nærri búin með allt því ég er að horfa á óklippta efnið. Þetta er afar skemmtilegt og hlýnar mér um hjartarætur að heyra allan lofsönginn um mig/okkur, þetta er algjört egóbúst.

Elska ykkur öll.


laugardagur, ágúst 25, 2007
 
Þá er ég búin að selja stofuborðið okkar fyrir 30 dollara og rúmið + eldhúsborð og 4 stóla á 280 dollara. Svo sannarlega betra en ekki neitt. Ég stóð reyndar í smá púli við að taka rúmið í sundur, bera það upp með fólkinu (það býr í sama húsi) og setja það saman aftur, en ég hafði svo sem ekkert annað að gera og þetta var helvíti gott tímakaup.
Það ætlar einn að koma í fyrramálið og kíkja á sófann okkar. Þá er nú bara svona smotterí eftir og auðvitað allt barnadótið, sem enginn virðist þurfa.
Og núna sef ég bara á vindsænginni okkar, að vísu soldið heppnari en Auður og Anna Eir þegar þær komu hingað því vindsængin er full af lofti :)

Aujan mín er svo klár að hún komst inn í einhvern rosalegann kristalstrúktúrskúrs (þetta er afar undarlegt orð!) í Cold Spring Harbor Laboratory í New York 15. – 30. október. Já, við Anna Eir verðum þá bara tvær saman í rúmar tvær vikur. Ég vorkenni samt meira Aujunni minni að vera aleinni í Ameríku. Þessi kúrs er rándýr en Auður var búin að fá styrk fyrir helmingi gjaldsins og er gisting og matur innifalinn. Ég held að hún sé að reyna að véla hinn helminginn út úr prófessornum sínum.
Sem betur fer ætla mamma og pabbi að vera í heimsókn hjá okkur Önnu Eir 18. – 21. október. Þau voru meira að segja búin að ákveða það áður en ég sagði þeim að við yrðum aleinar heima.
Öllum öðrum er að sjálfsögðu velkomið að koma í heimsókn þegar Auður er í burtu (og þegar Auður er heima) en við Anna Eir munum samt alveg bjarga okkur; hún verður í leikskólanum á daginn og ég í vinnunni og svo reynum við að gera eitthvað skemmtilegt saman þess á milli.


fimmtudagur, ágúst 23, 2007
 
Það hefur sína kosti að hafa klósettin svona eins og þau eru hérna í Bandaríkjunum; bása með hurð sem hylur nægilega mikið. Ég hef tekið eftir því nokkrum sinnum að konurnar spjalla við þá sem er í næsta bás og þá á ég ekki við svona kurteisishjal eins og Bandaríkjamenn eru heimsmeistarar í, heldur koma þær kjaftandi inn á klósettin, finna sér bás kjaftandi, setjast kjaftandi og pissa kjaftandi. Þannig geta þær kjaftað allan daginn án þess að verða fyrir truflun. Þvílíkur kostur.

Ég fékk vírus í vinnutölvuna mína í gær. Hann lýsti sér þannig að þegar kveikt var á tölvunni birtist viðvörun þar sem sagði að ég hefði 15 mínútur þar til það slökknaði á tölvunni og svo birtist niðurteljari. Ég hélt nú að þetta væri bara eitthvað grín og reyndi að loka þessu án árangurs og 15 mínútum síðar slökknaði á tölvunni. Það sama kom fyrir einn sem vinnur með mér í seinustu viku. Þetta er hið dularfyllsta mál. Ólíklegt er að okkur hafi borist þetta í tölvupósti því ég fæ engin e-mail sem hann fær.
Allavega, tölvan fór í viðgerð í gær og ég fæ hana seinnipartinn eða á morgun.

Þegar ég kom heim í gær sá ég frekar stóran kakkalakka á elhúsveggnum. Ég þurfti nú að hleypa aðeins kjarki í mig til að drepa þetta kvikindi, ekki af því að ég hafði áhyggjur af því að hann myndi hafa yfirhöndina, heldur af því að mér finnst ferlega ógeðslegt að finna eitthvert kvikindi kremjast undir puttunum á mér, þó ég sé með pappír. Ég ræðst ekki til atlögu fyrr en ég er nánast 100% viss um að kvikindið hafi engann möguleika á að komast úr gildrunni minni og skríða á handleggnum á mér.
Í morgun fjarlægði ég svo álíka stóran kakkalakka af gólfinu í vinnunni. Sá hafði verið þar í 3 daga án þess að neinn veitti því sérstaka athygli nema þá helst ég. Í hvert skipti sem ég gékk fram hjá honum krossbrá mér en alltaf var hann jafn dauður.


 
Mér leiðist ofsalega mikið að vera ein í Ameríku. Ég fer því snemma í vinnuna og kem seint heim. Reyndar eyði ég öllum tímanum í að vinna, ekki slæpast, hef nóg að gera.

Það hefur rignt seinustu 4 daga hérna og það er alveg peysuveður úti. Ég þurfti meira að segja að sofa í fötum í nótt, mér var svo kalt.
Það var ausandi rigning þegar ég fór í vinnuna í gær og fattaði ég ekki fyrr en ég kom í vinnuna að nýja 4 GB USB minnið mitt og gsm síminn minn voru í buxnavasanum mínum, rennblaut en virka samt bæði jafn vel og áður.

Ég hengdi upp auglýsingu í blokkinni og okkar og setti inn auglýsingu á netið í gær, er að reyna að selja öll húsgögnin sem við keyptum á sínum tíma. Ég fékk strax svör á netinu og sá í morgun að nokkrir höfðu rifið af símanúmerið mitt hérna í blokkinni. Ég var því stórhissa að enginn hefði hringt í mig í allan dag, svo fattaði ég að ég hafði skrifað rangt símanúmer!!! Ég hengdi því upp nýja auglýsingu áðan, í lit og allt.


laugardagur, ágúst 18, 2007
 
Einar Elí fór til Íslands í gær hlaðinn wakeboarddóti fyrir vin sinn. Ég vona að hann hafi komist í gegnum tollinn með þetta allt saman. Takk fyrir skemmtilegan tíma í Ameríku, Einar, það var rosa fínt að hafa þig.

Stelpurnar mína fóru líka í gær. Aujan mín er búin að vera að pakka í tvo daga. Ég náði í allt sem hún átti að taka með og hún pakkaði því niður á sinn einstaka hátt (hún kemur öllu fyrir sem hún ætlar sér að taka!). Við Anna Eir fórum með lestinni á flugvöllinn (því það er enginn barnastóll í leigubílum) en Auður tók leigubíl með allar töskurnar og barnavagninn. Mér þótti auðvitað ósköp leiðinlegt að skilja við þær og var því rosalega fegin að heyra í þeim kl. 5 í morgun þegar þær voru komnar í sænsku íbúðina okkar. Anna Eir svaf allan tímann í fluvélinni, 8 klst og 20 mín, og einhver stúlka var svo almennileg að færa sig svo þær Auður fengu tvö sæti. Ferðin heim gékk því mun betur en hingað.
Auður og Anna Eir fara svo til Íslands á mánudagsmorgun. Verið því tilbúin með þumalinn á gsm-unum ykkar.

Já, og það hefur enn eitt barnið bæst við. Hún Ásdís Rún Hrannar og Georgsdóttir fæddist á þriðjudaginn. Til hamingju öll sömul.

Svo vil ég nú bara segja ykkur frá yndislegu fjölskyldunni minni. Pabbi sá aumur á mér eftir seinasta bloggið mitt þar sem ég tók fram að ég kæmi 2. sept og enginn væri búinn að bjóðast til að sækja mig. Fékk e-mail í morgun þar sem í stóð: "Gerðu ráð fyrir því að það verði mættur trukkur að sækja þig á Keflavíkurflugvöll kl. 17.00 - 2. september – pappi".
Já, svona er ég nú heppin.


miðvikudagur, ágúst 15, 2007
 
Plön Íslandsferðarinnar

20. ágúst (mán): Auður og Anna Eir lenda á Keflavíkurflugvelli kl. 08:45. Foreldrar
Emelíu sækja þær.

20. – 22. (mán-mið): Auður og Anna Eir gista hjá mömmu Auðar og Þorvarði.

22. (mið): Auður, Anna Eir og Hrefna amma bruna upp í sumarbústað Heiðrúnar og pabba Auðar.

25. (lau): Auður og Anna Eir fara á ættarmót hjá fjölskyldunni hennar Auðar ömmu.

29. – 30. (mið-fim): Auður og Anna Eir fara austur í heimsóknir. Gististaður óákveðinn.

2. sept (sun): Emelía lendir á Keflavíkurflugvelli kl. 17:00. Það hefur enn ekki verið rifist mikið um að sækja hana :)

3. -10. (mán-mán): Bækistöðvar okkar verða Álfhólsvegurinn.

8. (lau): Stórafmæli Auðar.

9. (sun): Verðum staddar í skírn hjá KötuogAradóttur á heimili mömmu Auðar og Þorvarðar.

10. (mán): Við höldum allar þrjár saman heim til Svíþjóðar kl. 09.25.



Við minnum á íslenska gsm símanúmerið okkar, 663 86 32. Við viljum endilega hitta ykkur sem fyrst svo verið ekki feimin við að hringja í okkur.



Afmæli Auðar
Aujan mín verður þrítug 15. september og verður haldið upp á það 8. september heima hjá mömmu hennar og Þorvarði á Brekkulæk 4 í Reykjavík. Við stöndum ekki í því að senda út boðskort eða hringja í alla, þetta verður bara eins og í fyrra varðandi mitt afmæli, ef við þekkjum þig og þú hefur áhuga á að koma þá bara mætirðu.
Það verður bara kaffiboð, sem byrjar kl. 15, en ekkert partý. Við Auður erum samt að sjálfsögðu tilbúnar að kíkja út á lífið með þeim sem vilja og hafa Sigga og Gilli partýdýr þegar skráð sig á listann.
Ég sagði “bara kaffiboð” en það verða samt auðvitað rosalega góðar veitingar í boði.
Við viljum auðvitað sjá sem flesta svo láttu ekki standa á þér!


þriðjudagur, ágúst 14, 2007
 
Núna eru bara 6 dagar þar til Anna Eir og Auður fara til Íslands og bara 3 dagar þar til þær fara frá mér. Það verður ábyggilega hundleiðinlegt að hanga ein hérna.

Í dag var tveggja ára brúðkaupsafmæli okkar Auðar. Við fórum ekki út að borða, maður nær ekki beint að slaka á með Önnu Eir. Í staðinn bjó Auður til góðan mat handa okkur hinum.

Anna móðursystir mín kom í heimsókn til okkar seinasta sunnudag. Hún var stödd í New York með Andra, Lindu og Karen, og skrapp yfir til okkar. Við röltum aðeins um bæinn og versluðum auðvitað og svo náðum við að pranga 19 kg ferðatösku inn á Önnu, allt dót sem hefði hvort eð er þurft að fara til Íslands. Þetta bjargaði okkur alveg því við erum búnar að kaupa slatta af fötum hérna. Takk kærlega fyrir komuna Anna, það var æði að fá þig!

Á laugardaginn fórum við Auður og Anna Eir með Kristínu í verslunarmiðstöð í New Jersey City. Alltaf gaman að skoða nýjar búðir, þrátt fyrir að þetta séu svo sem sömu verslunarkeðjurnar út um allt og alltaf sér maður eitthvað nýtt að kaupa. Við getum hins vegar ekki keypt mikið meira held ég, án þess að vera með yfirvikt í flugvélina.
Angel eldaði síðan ofsalega góðan fiskirétt handa okkur með túnfiski, sverðfiski og hákarli; allt svona fiskitegundir með kjötáferð. Ég ætla einhvern tímann að reyna að elda þetta.

Á sunnudaginn leigðum við okkur öll saman bíl (Einar líka) og keyrðum til Washington borgar. Þar sem það tók okkur rúma 2 tíma að keyra þangað og 3.5 tíma til baka (lentum í umferðarteppu) án stoppa þá eyddum við nú litlum tíma í borginni sjálfri. Við keyrðum framhjá þinghúsinu, löbbuðum hjá hvíta húsinu og kíktum á steinturninn (Washington minnismerkið) og fleira sem var fyrir neðan hvíta húsið. Meiri tíma höfðum við ekki en þetta var alveg nóg fyrir okkur. Það var steikjandi hiti og því vorum við öll fegin að fara heim, það er bara soldið sport að hafa komið til höfuðborgarinnar. Það var reyndar frekar kúl að þrjár herflugvélar flugu beint yfir hausnum á okkur þegar við vorum hjá steinturninum. Þær stefndu allar á hvíta húsið en fyrstu tvær flugu síðan í sitthvora áttina. Sú þriðja lenti í garðinum í hvíta húsinu. Forsetinn hefur að öllum líkindum verið að koma heim. Við vorum svo agndofa yfir þessu að við gleymdum að taka videó af forsetaþyrlunni. Þið verðið því bara að trúa okkur.


miðvikudagur, ágúst 08, 2007

sunnudagur, ágúst 05, 2007
 
Við erum búnar að eignast litla frænku! Kötu og Aradóttir er loksins fædd. Þið fáið að sjá myndir síðar, öllum heilsast vel. Mamma varð fimmtug í dag og fékk barnabarn í afmælisgjöf. Til hamingju Kata og Ari og Anna Amma.


fimmtudagur, ágúst 02, 2007
 
Nýjar myndir. 41°C i dag, getum ekki hugsað.


þriðjudagur, júlí 31, 2007
 
Ég veit ekki hversu margar klósettsenur eru í bandarískum bíómyndum en ég hef allavega séð slatta. Yfirleitt ágætlega stórt herbergi með nokkrum klósettum hlið við hlið, umlukt “veggjum” úr spónarplötu eða einhverju þvíumlíku. Það hentar vel í bíómyndunum að hafa opið niðri á þessum básum svo maður geti séð hvort einhver sé að fela sig á klósettinu. Ég fattaði auðvitað ekki fyrr en ég kom hingað að þetta á ekki bara við almenningsklósettin í bíómyndunum. Allas staðar þarf maður að reyna að kreista út piss eða eitthvað annað meðan maður horfir á ökklana á manneskjunni í næsta bási, básarnir eru nefnilega opnir nánast upp að hné. Ég er oft frekar eirðarlaus á klósettinu, finnst gaman að lesa á meðan ég sit þarna því annars leiðist mér, en ég hef ekkert gaman af því að virða fyrir mér skóna á öðrum, eða velta fyrir mér naglalakkinu á tánum á þeim. Ég hlakka til að kúka í vinnunni minni í Svíþjóð!

Auður og Anna Eir labba oft á móti mér þegar ég hætti í vinnunni á daginn. Í seinustu viku þegar við vorum að labba heim tókum við eftir litlum fugli sem reyndi að ýta sér áfram á vængjunum á gangstéttinni, hann gat ekki labbað og varla hreyft sig. Ég tók hann upp og sá þá að hann var greinilega fótbrotinn og var með ígerð á maganum. Mig langaði nú soldið að láta hann niður og vona að honum myndi batna en það var nú líklega bara óskhyggja og ákvað ég þá frekar að drepa hann. Ég man ennþá þegar við vorum á Grænó hjá ömmu og afa fyrir allavega 10 árum og eitthvert systkinabarna minna fann særðan fugl sem Össi hennar Kötu frænku aflífaði með því að kippa búknum og hálsinum í sitthvora áttina. Það er greinilegt að margt sem verður á vegi manns getur komið til hjálpar síðar.

Pål fyrrverandi vinnufélagi Auðar kom í heimsókt til okkar áðan og verður eina nótt hjá okkur. Hann er að flytja á vesturströndina í eitt ár, hann fékk nefnilega einhvern rosalegan sænskan vísindastyrk til nokkurra ára og verður að vinna allavega eitt ár utanlands.



mánudagur, júlí 30, 2007
 
Seinustu mínúturnar er ég búin að vera að skemmta mér yfir að skoða myndir frá pabba sem hann sendi mér áðan. Það var nefnilega ættarmót Vorsabæjarættarinnar um helgina en sú ætt var eitt sinn voldug á Skeiðunum. Eins og vanalega þá missum við af öllu fjörinu á Íslandi og því voru myndirnar kærkomnar. Ég vona að nýja nefndin standi við það að næsta ættarmót verði eftir 3 ár en seinasta mót var fyrir 12 árum sem er allt of langur tími.
Inga föðursystir mín hefur verið ótrúlega dugleg við að setja upp síðu með niðjatali langafa og langömmu ef þið viljið kíkja.

Í gær fórum við allar þrjár í dýragarðinn. Þar sá ég nú fullt af dýrum sem ég hef ekki séð áður en mér þykir nú alltaf soldið gaman að fara í dýragarða, jafnvel bara til að sjá venjuleg húsdýr, en auðvitað er sérstaklega gaman að sýna Önnu Eir öll dýrin. Hitinn var hins vegar alveg að drepa okkur og svitnuðum við alveg eins og grísir. Hvernig fer þetta fólk að því að búa hérna hvert einasta sumar.

Ég kláraði seinustu Harry Potter bókina í vikunni og Auður er alveg að vera búin með hana. Ég rek hana í að lesa við hvert tækifæri sem gefst því ég verð að fá bókina út úr systeminu, verð að fá að tala um hana. Þessi bók var sú lang skemmtilegasta í seríunni, ótrúlega spennandi með fjölmörgum flækjum. Það sem er svo skemmtilegt við bækurnar er að þær eru planaðar frá byrjun til enda, þ.e. afleiðingar einhverra atvika í fyrri bókunum koma oft fram í síðari bókum, fátt gerist alveg óvart. Ekki skemmir fyrir að maður fær svör við ýmsum spurningum sem vöknuðu í eftir lestur sjöttu bókarinnar. Þetta er allt og sumt sem ég mun tjá mig opinberlega um Harry Potter þar sem ég vil ekki spilla fyrir ykkur hinum sem hafið ekki lesið sjöundu bókina. Og þið sem hafið ekki lesið eina einustu Potter bók eða þið sem hafið lesið eina og gáfust svo upp (Byddí!!!), þið eruð algjörir bjálfar og mæli ég eindregið með að þið lesið afganginn.
Uppáhalds karakterinn minn er Severus Snape. Hann er æðislegur í bókunum en ég féll alveg kylliflöt fyrir honum í fyrstu myndinni, Alan Rickman er ótrúlega sannfærandi sem Snape. Ég fæ næstum því gæsahúð að hugsa um hann.


þriðjudagur, júlí 24, 2007
 
Hér eru myndir í Chicagoferðinni sem ég og Aujamamma fórum í fyrir viku


mánudagur, júlí 23, 2007
 
Kristín Ingvars og Angel (Ingvars?) buðu okkur í mat á laugardaginn. Kristín var svo óskaplega elskuleg að bæði ná í okkur og keyra okkur heim. Þau búa í New Jersey fylki sem er hérna skammt frá, í sætu húsi með risa garði að hætti Bandaríkjanna. Auðvitað fengum við frábæran grillmat (veðrið býður svo sannarlega upp á það hérna) og eftirmat. Þetta var fyrsta skiptið sem við hittum Angel og ég veit satt að segja ekki hvernig Kristín var búin að lýsa okkur fyrir honum, líklega sem tveimur valkyrjum af magninu af kjöti að dæma.
Við nutum veðursins í smá stund í bakgarðinum meðan Angel var að grilla og var það nóg til að ég var bitin af einhverju kvikindi. Ég klóraði mér soldið í gær og í nótt sem varð til þess að núna er bitið stokkbólgið á stærð við lófann á mér. Ég ráðfærði mig við heimamenn hvað ég ætti nú að gera og þorði ekki annað en að hringja í Kristínu líka því heimamennirnir höfðu aldrei séð annað eins. Það er alveg ótrúlegt hvað við getum bólgnað af litlum bitum þegar það sér varla á Skandinövunum eða Bandaríkjamönnunum í þessu tilviki. Þetta er ein af þeim ástæðum sem er best að búa á Íslandi, engin brjáluð skordýr. Ég er allavega búin að bera cortizone á þetta og verð bara að bíða og sjá hvort þetta lagist ekki.

Við fórum út að borða á mexicanskum stað þegar við vorum í New Jersey City um daginn. Þjónustustúlkan var ung að aldri og soldið skondin, hress og óalvarleg. Hún komast að því að við vorum íslenskar og varð himinlifandi: “For real?”. Við játtum því. Svo var eitthvað annað sem fékk hana til að hrópa “For real”. Ég rétti þá fram vinstri hendina og sagði að hún mætti koma við mig. Stúlkan fraus soldið, horfði á hendina á mér eins og það væri eitthvað ógeðslegt á henni og spurði svo hvað hefði komið fyrir mig. Þá fattaði ég að það var eitthvað ógeðslegt á hendinni á mér, örið mitt. Það böggar mig ekkert. Aujan mín er nefnilega búin að segja í svo mörg ár að það sé kúl og ég trúi öllu sem hún segir :)
Ég sagði stelpunni að ég hefði fengið á mig sýru og Auður bætti við að við værum efnafræðingar og auðvitað kom “For real!!!”. Ég má greinlega þakka fyrir að hafa ekki fengið sýru í andlitið því þá fengi ég ábyggilega oft augngotur.


föstudagur, júlí 20, 2007
 
Ég vil þakka öllum fyrir fallegu kveðjurnar sem ég fékk á árlegu tímamótunum mínum á þriðjudaginn. Þann dag komu stelpurnar mínar frá Chicacorauninni. Auður segir ykkur kannski síðar frá því.

Við ákváðum að fara út að borða um kvöldið, á ítölskum veitingastað sem bandaríski prófessorinn minn var búinn að mæla með. Kokkunum fórst vel úr hendi að búa til eggja- og mjólkurlaust pasta handa Önnu Eir, sem hún spændi í sig. Eftir það var friðurinn úti og við gátum alls ekki notið þess að borða. Eftir heilmikið basl gátum við fengið hana til að borða papríku og gafst okkur örlítill tími til að halda áfram með matinn en svo var bara borðað í hollum. Börn á þessum aldri hafa enga þolinmæði. Þegar eitthvað er leiðinlegt þá er það leiðinlegt. Dúkurinn og gólfið var frekar subbulegt eftir Önnu Eir en þjónarnir voru alltaf svo elskulegir og snérust í kringum okkur.

Eins og ég sagði ykkur í seinustu viku þá gáfu Auður og Anna Eir mér rosa kúl, grænan íþróttagalla í afmælisgjöf. Á þriðjudaginn bættust svo við opnir Ecco skór og Klear action tannhvítukitt. Ég hef alltaf verið svo heilluð af þessum tannhvítumeðferðum sem eru auglýstar í sjónvarpinu. Ég var hins vegar aldrei á leiðinni að þora að kaupa mér svona þó að ég sjái nú að tennurnar mínar eru farnar að gulna með árunum. Auglýsingarnar hljóma alltaf: “Bara tvær mínútur”, bla, bla, bla. Já, maður lýsir á tennurnar bara í tvær mínútur en maður þarf fyrst að pennsla hverja og eina tönn sem maður ætlar að aflita og svo á maður að að gera þetta 20 sinnum til að klára eina meðferð. Maður á víst að sjá mun eftir 10 skipti. Ég er búin með 12 skipti og við Auður erum ekki vissar hvort það sé munur þó að maður sé með eitthvert litaspjald til að bera saman. Maður sér til dæmis engan mun á stigi 2-7 á þessu litaspjaldi. Allavega, þið verðið bara að dæma um þetta sjálf þegar ég kem til Íslands. Maður fær ekki pappírshvítar tennur af þessum meðferðum enda er það frekar ónáttúrulegt en við sjáum hvað setur.
Það versta við þetta allt saman er að þeir mæla með því að maður drekki ekki eða borði ekki eitthvað ákveðið 24 klst eftir hverja meðferð en þetta eru hlutir sem lita tennurnar eins og t.d. kaffi og kók. Í fyrradag, daginn eftir fyrstu tannhvítunarmeðferðina mína var ég með hausverk frá kl. 15 og þangað til ég fór að sofa. Ég vil alls ekki trúa að það hafi verið fráhvarfseinkenni frá kóki en ég hef fengið þetta áður þegar ég drakk ekki kók einn dag. Núna er ég ekki búin að drekka kók í 3 daga því ég er í tannhvítumeðferð daglega. Ég er ekki með hausverk en mig langar stöðugt í kók. Ætla að ljúka þessari meðferð sem fyrst svo ég geti fengið mér besta drykk í heimi!


miðvikudagur, júlí 18, 2007

sunnudagur, júlí 15, 2007
 
Ég var að enda við að drepa fyrsta kakkalakkann minn í íbúðinni okkar. Ég elti hann um stofuna og lamdi hann margoft með tómri jógúrtdós þar til að hann hvarf. Ég hélt að hann hefði komist undan en þá lá hann bara kraminn og hreyfingarlaus á eldhúsgólfinu. Hann fékk útför að hætti sjómanna.

Ég fór í all rosalega verslunarferð í dag. Ég fór í The Gallery til að skipta íþróttapeysunni, sem Auður og Anna Eir gáfu mér, í stærra númer. Ég fríkaði smá út í þessu molli, þræddi búðirnar en það sem meira er þá keypti ég alveg helling. Við höfum nokkrum sinnum farið í moll hérna í Philadelphia en ekki gefist kostur að versla mikið eða lengi því Anna Eir dregur soldið úr okkur orkuna. Dagurinn í dag og á morgun (já, ég ætla aftur á morgun) eru því kjörnir til að versla.
Ég fór beint úr mollinu með alla pokana í bíó. Ég var fyrir löngu búin að ákveða að fara í bíó í dag en varð soldið vonsvikin þegar þeir voru hættir að sýna Ocean’s thirteen og ekki byrjaðir að sýna Hairspray eða Bourne sem varð til þess að ég sá teiknimyndina Ratatouille. Myndin var fín með glettnum köflum eins og teiknimyndir eru oft því það verður að höfða til fullorðna fólksins svo það nenni að fara með krökkunum sínum í bíó.

Ég keypti mér skó í New York um daginn í annarri af búðunum sem við fórum inn í þá helgina. Búðin var með hrikalega hárri rappmúsík og einungis svörtu afgreiðslufólki. Ég var svo sem ekkert hissa á því, höfum oft séð hversu undarlega skipt þjóðfélag þetta er. Ég fékk afgreiðslu af einhverri stúlku sem náði í alla skóna fyrir mig en hvarf svo. Ég ákvað svo að kaupa eitt parið og var að leggja af stað að afgreiðsluborðinu þegar einn strákanna sem vann þarna spurði mig hvort hann gæti aðstoðað mig. Ég sagði eins og var að ég ætlaði að taka eitt parið. Hann spurði þá hver hefði aðstoðað mig.
Ég: "Einhver stúlka."
Hann: "Einhver stúlka?"
Ég: "Já, einhver stúlka."
Hann: "Hvernig leit hún út?"
Ég: "Hvernig leit hún út?". Þarna stóð ég eins og álfur og glápti á strákinn því hann vissi ekki að hann hafði rambað á mig sem get ekki lýst fólki því ég man einfaldlega ekki hvernig það leit út og hvaða máli skipti það svo hvernig hún leit út. Ég ákvað að vera rosalega fyndin, hallaði mér soldið að stráknum og sagði með örlítið lægri röddu eins og það væri hálfgert leyndarmál: "Svört". Allt afgreiðslufólkið í búðinni var svart svo mér fannst augljóst að þetta væri fyndin en gagnslaus vísbending. Honum stökk ekki bros á vör.
Hann: "Hvernig hár var hún með".
Ég meina það, var drengurinn ekki búinn að átta sig á við hvers konar manneskju hann var að tala. Nú auðvitað varð ég að svara því eina sem ég vissi aftur: "Ehh, svart". Honum fannst þetta ekki heldur fyndið og hélt áfram að spyrja mig.
Hann: "Var það sítt eða stutt".
Ég: "Ekki hugmynd".
Hann: "Miðlungssítt".
Ég: "Ekki hugmynd". "Ég tek yfirleitt ekki eftir fólki þannig séð". Ég var orðin leið á þessum spurningum og antíhúmorista og ætlaði að fara en stóðst ekki freistinguna að spyrja hann af hverju hann vildi vita hver hefði aðstoðað mig. Mig grunaði kannski að fólkið fengi einhverja prósentu ef viðskiptavinurinn keypti það sem þeir hefðu sótt fyrir þá.
Hann: "Hún á að setja skóna (sem ég keypti ekki) á sinn stað".
Ég meina, kommon. Í stað þess að drattast með skóna sjálfur eða spyrja sjálfur fólkið sem hann vann með hver hefði aðstoðað mig þá stendur hann í þriðju gráðu yfirheyrslu á viðskiptavini.

Þegar ég fór í bíó í gær þá rétti ég stúlku miðann minn inni í bíósalnum. Þessi stúlka, sem var svört, hefur það að atvinnu að fylgja fólki til sætis. Hún tók við miðanum mínum, horfði á mig og sagði: "Varst þú ekki hérna áðan". Ég svaraði auðvitað bara kurteisislega: "Nei", en langaði meira að segja: "Það hlýtur að hafa verið einhver önnur hvít kona!". Kannski lítur hvítt fólk allt eins út fyrir svörtum eða þessi stúlka er jafn ómannglögg og ég. Hún hefur allavega myrkrið í bíósalnum sér til varnar.


laugardagur, júlí 14, 2007
 
Stelpurnar mínar fóru til Chicaco í dag. Þar verða þær í fjóra daga hjá Marie sem var skiptinemi heima hjá Auði þegar hún var 16. Ég var því í vinnunni til rúmlega 18 og hefði verið lengur ef ég hefði ekki verið búin að kaupa bíómiða á Harry Potter kl. 18:30. Sætin eru númeruð hérna eins og í Svíþjóð og því ætti ekki að vera nein ástæða fyrir átök þegar maður fer í bíó nema þá helst þegar þeir passa sig ekki á að hafa pylsurnar sínar tilbúnar fyrir kvöldsýningarnar þegar hungaðir gestirnir birtast. Pylsur áttu að vera kvöldmaturinn minn en í staðinn varð ég að seðja hungrið með poppi og m&m. Á heimleiðinni eftir sýninguna varð ég því að koma við á Grískum stað þar sem ég keypti mér einhvers konar pítu með frönskum inní, ætli þeir séu eitthvað skyldir Akureyringum þessir!!
Myndin var alveg ágæt, svona eins og hinar myndirnar, eiginlega ekki fyrir minn aldurshóp en alveg hægt að hafa gaman af ef maður er Potter aðdáandi. Og svo er seinasta bókin væntanleg bráðum.

Ég ætlaði að vera að vinna um helgina fyrst stelpurnar mínar eru fjarri en það ekkert að gera í vinnunni svo ég hef ákveðið að versla og fara meira í bíó. Það er alltaf jafn leiðinlegt að koma heim í tómt bú.
Ég á afmæli næsta þriðjudag og fékk því smá gjöf í gær frá Auði og Önnu Eir svo ég gæti farið og skipt um helgina ef það passaði ekki. Fékk bol sem passaði og rosa kúl íþróttagalla en þarf því miður að skipta peysunni í stærri; Auður heldur að ég sé eitthvert písl.

Þessa dagana er Gay & lesbian Film festival í Philadelphia. Það er ein íslensk stuttmynd til sýnis sem Auði dauðlangaði að sjá íslenska stuttmynd en missir af þar sem hún er í Chicaco. Það var því hjartansmál hjá Auði að ég færi og sæi myndina fyrir hana, svo ég á miða í bíó kl. 12 að hádegi á sunnudaginn. Ég held ég hafi ekki farið svona snemma í bíó fyrir utan þegar menntaskólinn minn (MK) fór kl. 9 á Tyllidögum fyrir allmörgum árum.

Aujan mín keypti sér vax um daginn til að vaxa á sér lappirnar. Auður bar vaxið á sig, lagði pappír á og kippti af, lagði pappír á og kippti af, lagði pappír á og, já, þið skiljið hvað ég á við. Af og til heyrði ég kæft óp en þegar ég spurði hvort þetta væri vont þá neitaði hún alltaf (“allavega ekki eins vont og maður heldur”). Ég ákvað því að gera eins og Aujan mín svo ég slyppi nú að raka á mér skankana í svona eins og 4-6 vikur. Það er ekki hlaupið að því að vaxa sig, maður verður fyrst að safna hárum á lappirnar, nógu löngum en ekki of löngum! Þegar loksins kom að því þá held ég að ég hafi lagt pappír fjórum sinnum á og kippt og þá var mér nóg boðið, sársaukinn var alveg ógurlegur og sveið mig á eftir. Verst þótti mér þó að hafa ekki getað staðið það út að vaxa á mér lappirnar eins og Aujan mín. Málið er að af og til í gegnum árin hef ég boðið Auði aðstoð mína í að fjarlægja bólur og fílapensla og hefur hún þegið það fáein skipti (ekki nærri því eins oft og ég vildi). Oft höfum við þurft að hætta í miðjum klíðum því Auður var orðin bálvond og vændi mig um að vera harkalegan sadista þegar það var í raun bara hún sem var með of lágan sársaukaþröskuld (að mér fannst). Mér brá því heldur í brún þegar Aujan mín gat vaxað á sér báðar lappirnar með minniháttar öskrum og táraflóði meðan ég gat einungis kippt eins og 10 hárum (sá ekki högg á vatni!). Og það sem meira er, Auður vaxaði sig aftur í vikunni. Þegar ég hugsa málið aðeins betur og sætti mig við eigin aumingjaskap þá get ég ekki annað en glaðst yfir því að vera gift annarri eins hetju og Aujunni minni.


þriðjudagur, júlí 10, 2007
 
Við fórum sem sagt til New York borgar (NYC) á föstudaginn og komum til baka á sunnudeginum. Lestarferðin til NYC tók 3 tíma og skiptum við þrisvar um lest en lestarferðin til baka tók bara 1.5 tíma og þurftum við aldrei að skipta enda var sú ferð rúmlega þrisvar sinnum dýrari en við létum það eftir þreyttum ferðalöngunum. Kristín Ingvars, sem er okkar “insider” hér í Bandaríkjunum, benti okkur á best væri að fá sér hótel í New Jersey borg því hótelin í New York væru svo skítug. Við erum fínar konur og gerðum því eins og Kristín sagði og urðum sko ekki fyrir vonbrigðum. Hótelið var alveg æði, herbergið var rosalega hreint og fínt með stærsta örbylgjuofni sem ég hef séð, ísskáp, hellum og sjónvarpi. Hótelið heitir Candelwood Suites og mælum við eindregið með því.
Föstudagurinn fór bara í að koma okkur á hótelið, svæfa Önnu Eir, fá okkur að borða og ná í strætómiðana okkar. Við keyptum okkur nefnilega 48 tíma strætómiða með leiðsögumanni um NYC. Í New York vorum við spurðar til vegar og gátum við leiðbeint viðkomandi. Við lítum greinilega út fyrir að vera heimsborgarar. Þegar við náðum í strætómiðana hittum við leiðsögumann sem vildi endilega vita hvaðan við vorum. Hann var Bandarískur að ég held en fór með á staðnum nokkrar línur á íslensku úr júróvisjónlaginu sem Daníel Ágúst söng fyrir okkar hönd fyrir allmörgum árum. Framburðurinn var alveg magnað góður. Hann sagðist ekki kunna íslensku en kynni sænsku og töluðum við því restina á sænsku sem hann var helvíti góður í. Sumir eru greinilega með meðfædda tungumálahæfileika.
Laugardaginn og sunnudaginn ferðuðumst við um NYC í strætó eins og barnið leyfði en mikill tími fór í að gefa Önnu Eir að borða og láta hana sofa lúrinn sinn. Við ætluðum að sigla að Frelsistyttunni og skoða hana eitt skipti fyrir öll en hættum snarlega við þegar við sáum röðina. Ég hef aldrei séð eins langa röð og áætlaður tími í henni var 1 klst og 15 mín. Við létum okkur því nægja að horfa á Frelsisstyttuna frá höfninni. Í staðinn fórum við upp í Empire State bygginguna alla leið upp á 86. hæð (320 m) og horfðum yfir New York. Það er alveg frábært útsýni þaðan og mjög skemmtilegt að geta kíkt aðeins yfir fyrst við höfðum ekki tíma til að skoða meira en Manhattan.
Við gáfum okkur smá tíma til að slaka á, fórum í picnic í Central park og svaf Anna Eir lúrinn sinn þar.
Það er alveg þess virði að fara til NYC og sjá með eigin augum mannmergðina, alla leigubílana og húsin. Við erum allavega til í að fara aftur en helst barnlausar svo það sé hægt að slaka svolítið meira á, versla og dunda sér.


mánudagur, júlí 09, 2007
 
jæja, þá erum við aftur komnar frá new york. Þar var heitt og troðið en áhugavert og flott. Skemmtilegast fannst okkur að fara í Empire State building og sjá yfir borgina og að tsjilla í Central park. Set inn myndir á eftir.


fimmtudagur, júlí 05, 2007
 
Jæja, nokkrar fleiri myndir. Erum að fara til Nýju jórvíkur á morgun og verðum fram yfir helgi þannig að við komum ekkert á skype en von á góðum myndum eftir helgi


miðvikudagur, júlí 04, 2007
 
Mömmurnar eru búnar að kaupa nýja myndavél (hehe) hér eru nýjar myndir


sunnudagur, júlí 01, 2007
 
Þegar við hittum Kristínu Ingvars um daginn þá spurði Auður hvort við gætum farið og skoðað Amish fólkið. Ég var örlítið hissa á þessari spurningu frá Auði, þetta væri frekar eitthvað sem ég myndi segja. Það er ábyggilega soldið gaman að fara og sjá hvar Amish fólkið býr og allt það en sem betur fer þurfum við nú ekki að fara langt til að svala forvitni okkar að hluta. Við fórum á rosalega fínan markað í gær þar sem er seldur alls konar matur, bæði tilbúinn og ferskur. Að því tilefni keyptum við okkur fisk í þriðja skiptið og ætlaði ég nú að láta fiskiævintýrið okkar gott heita ef hann væri ekki góður. Fiskurinn var nýr og góður á bragðið en aðalatriðið var nú samt allt Amish fólkið sem við sáum á markaðinum. Þarna er Amish með fullt af básum þar sem þau selja kjöt og brauð sem þau gera sjálf og svo var einn bás þar sem þau elduðu mat á staðnum. Það er ekki eins og þetta fólk eigi það nú skilið að það sé glápt á það eins og dýr í búri, þau eru afar snyrtileg í fínum gamaldags fötum eins og maður hefur bara séð á og í myndum. Samt var gaman að sjá Amish fólkið og hafði ég strax meiri trú á að allt í borðinu þeirra væri betra og hreinna en allra annarra á markaðinum. Ég ætla að fara einhvern tímann aftur á markaðinn og kaupa eitthvað af Amish fólkinu.

Við höfum sem sagt tvisvar áður keypt fisk hérna og eldað. Ég reyni af og til af veikum mætti að fá stelpurnar mínar til að borða físk því hann er hollur og góður en það er bara einn hængur á, ég verð að elda hann ef ég vil að hann sé á borðum og verður hann aldrei eins góður og mig langar. Í bæði þessi skipti var fiskurinn eitthvað skrýtinn á bragðið og var það ekki útaf eldamennskunni minni. Í fyrra skiptið lyktaði ég af fiskinum. Umm, fersk og góð fiskilykt og varð ég því fyrir miklum vonbrigðum þegar við fundum myglubragð af honum. Anna Eir borðaði myglufiskinn með bestu lyst (létum hana ekki borða meira eftir að við föttuðum að það var myglubragð af honum) en vildi hins vegar ekki smakka góða þorskinn í gær.
Seinna skiptið keyptum við fisk í finni búð en varð ég vonsvikin þegar ég fann kæsta lykt af fiskinum. Fiskurinn var með frekar staðbundið kæst bragð svo við gátum borðað hluta af honum en hentum hinum hlutanum. Þennan fisk borðaði litla prinsessan líka.
Ég ætla því ekki að hafa áhyggjur af eldamennskunni minni héðan í frá :)


miðvikudagur, júní 27, 2007
 
Anna Eir er alltaf að bæta við sig nýjum orðum. Hér er smá listi yfir þau nýjustu ef þið skylduð lenda í því að reyna að tala við hana: Bebba (vespa), dúú(skór), úpp (prump), dúda (kúka), auja (auga), æ (hæ), dædæ (bæbæ), úa (húfa), alú (halló), nä (hné), eyja (eyra), búba (bumba), úmmm (flugvél), uvva(róla), dæda (tærnar), deda (drekka)


þriðjudagur, júní 26, 2007
 
Nú lá netið okkar niðri um helgina þannig að við gátum ekkert bloggað eða talað á skype. Á laugardaginn fórum við að skoða “laugardal” philadelphia, fairmount park. Sáum m.a. eldgamla vatnshreinsistöð en allt lífríki í Schulkyll ánni hérna drapst átjánhundruð og eitthvað lítið og kom ekki aftur fyrr en þeir byrjuðu að hreinsa vatnið rétt fyrir aldamótin 1900. Borðuðum á rosa fínum veitingastað í þessari vatnsstöð. Laugardalurinn þeirra var nú frekar skrýtinn, með rosa stórri götu í miðjunni og þvílíkum bílahávaða. Auðvita var verið að fjarlæga tré og gras til að koma fyrir fleiri bílastæðum. Við sáum líka svona little league game þar sem pínulitlir gríslingar voru að spila í búningum og öllu. Þá erum við búnar að sjá base ball leik og eigum skv. prófessornum hennar emelíu að skilja amerískt samfélag eftir það.

Á fimmtudaginn hittum við Kristínu sem var með okkur í HÍ. Hún var rosa hress, nýbúin að gifta sig og allt og við ætlum að bjóða henni bráðum í mat. Vona henni sé sama um að deila með kakkalökkunum.

Eins og sumir vita er myndavélin okkar horfin og var Anna Eir grunuð um að hafa hent henni í ruslafötuna. Nýjar vísbendingar benda þó til þess að hún sé saklaus því snúran til að færa myndirnar yfir í tölvuna er líka horfin. Nú liggja því tveir aðrir undir grun
a) Auja mamma sem er þekkt fyrir að taka mikilvæga og verðmæta hluti og setja þá á s.k. vísan stað þar sem enginn finnur þá aftur, og allra síst hún sjálf. Mömmurnar eru hins vegar búnar að leita út um allt í íbúðinni og myndavélin finnst ekki.
b)Bandarískur Þjófur sem læddist hérna inn og tók myndavélina og snúrna en lét ferðatölvuna, webcam myndavélina videovélina og allt annað verðmætt, vera. Þessi þjófur vinnur í húsinu og hefur lykla að íbúðinni og vildi ekki að það væri augljóst að hann hefði brotist inn og stolið 4 megapixla canon Ixus án hleðslutækis sem ný kostar 120 dollara (7.500 ISK) með hleðslutæki.


föstudagur, júní 22, 2007
 
Jæja, þá eru komnar fleiri myndir, m.a. úr gönguferð okkar Önnu Eirar frá í morgun.


þriðjudagur, júní 19, 2007
 
Í gær fór ég í bæjarferð með mömmum mínum. Það var of heitt til að vera úti svo við fórum í svona kringlu og ég fékk tvö pör af nýjum skóm, sem var ÆÐI! Mömmurnar keyptu líka svona barnaklósettsetu og þegar við komum heim vígði ég hana með því að kúka í klósettið. Auja mamma varð svo glöð að mér dauðbrá. Ég kúkaði samt pínulitlum kúk í morgun í klósettið bara til að gleðja mömmurnar. Við fórum á róluvöllinn í morgun, það var aðeins kaldara en í gær svo við gátum verið þar til 10 án þess að stikna. Núna erum við inni því það er svo heitt og rakt úti . Við fórum í búðina áðan og dóum næstum úr hita á leiðinni. Sem betur fer á að rigna í nótt svo það verður kaldara á morgun, undir 30°C. Kannski förum við Auja mamma í svona risagarð hér nálægt þar sem eru dýr og söfn og svoleiðis.


mánudagur, júní 18, 2007
 
Jæja, þá er ég búin að setja inn nýjar myndir á myndahornið. Aðeins af miðbænum hérna, íbúðinni okkar og gay pride. Kíkið á það hér. Af okkur er annars ágætt að frétta, í síðustu viku var sæmilega kalt, ég þurfti meira að segja að fara í jakka og Anna Eir var oft í peysu. Núna er hins vegar aftur orðið heitt dauðans og þá kemur sér sko vel að vera með loftkælingu. Anna Eir er enn smá jetlögguð og vaknar oftast milli 6 og 7 sem er ágætt því þá getum við farið út á leikvöllinn og leikið aðeins við hina krakkana áður en það verður ólíft vegna hita. Við förum í svona park hérna nálægt þar sem er rosa flottur leikkastali fyrir minni börn, mjög öruggur en þroskandi. Önnu Eir finnst rosa gaman þar, við tökum kannski myndir þegar við förum á morgun.
Um helgina fundum við loksins heilsuvitleysingabúð sem selur alls konar mjólkur- og eggjalaust dót. Það var nefninlega smá sorglegur matur sem Anna litla fékk og tilbreytingalaus því við fundum ekki neitt sem hún mátti borða. Við versluðum rosa mikið í þessari búð sem seldi meðal annars skyr (sem við keyptum gommu af) og íslenskt súkkulaði sem við fundum því miður ekki en munum leita að næst.

Anna Eir þroskast samt ágætlega hér og hún er búin að bæta við sig nokkrum nýjum orðum, meðal annars "dúúú" (skór) og behba (vespa) en þessir tveir hlutir eru í miklu uppáhaldi núna. Ef að við löbbum framhjá skóbúð fær anna tilfelli og æpir dúdúdú og það er nánast ekki hægt að fara með hana inn í skóbúð henni finnst svo gaman. Hún fékk nýja sandala fyrir tveimur vikum (Auja mamma valdi boring brúna sandala þegar Anna Eir var búin að velja sér skjannahvíta með bleikum doppum og mynd af mjallhvít á) og nú sýnir hún ÖLLUM og þá meina ég öllum skóna sína, hundum fólki í lyftu, baba (brabra), afgreiðslufólki, krökkum í margra metra fjarlægð.... öllum. Ef hún er að labba og vill sína skóna lítur hún smá út eins og hún tilheyri "ministry of funny walks" úr monty python því hún lyftir löppinni í hverju skrefi svo fólk/hundar/fuglar/krakkar sjái betur.
Ég las kjaftasögublað við eldhúsborðið um daginn þegar anna eir byrjaði að æpa og aka sér í stólnum og benda á blaðið. Þá var þar mynd af vespunni hennar Gwyneth palthrow sem Önnu fannst æði og nú hangir þessi mynd fyrir ofan rúmið hennar Önnu. Stundum eru mömmurnar dregnar inn í herbergi til að standa upp við vegginn og horfa á vespuna.

Anna hefur líka lært nýtt orð sem hún ber nokkuð rétt fram. Það er bíddú og þetta kyrjar hún stundum "bíddúbíddúbíddúbíddú". Þetta heyrir hún greinilega mjög oft, greyið og getur því sagt það svona vel.


miðvikudagur, júní 13, 2007
 
Á laugardaginn fór Anna Eir í fyrstu klippinguna sína á stofu (ég hef klippt hana nokkrum sinnum). Hún var mjög feimin og þurfti ég að sitja undir henni. Hún fílaði ekki beint að kallinn væri að bleyta á henni hárið og gera eitthvað við það en hún var afar kyrr enda frekar hrædd. Þegar hún var hvað hræddust kúrði hún bara í hálsakotinu á mér en ekkert af þessu stoppaði kallinn, sem var þræl snöggur og góður. Lengi vel var Anna Eir með rosalega skeifu en var of hrædd til að fara að gráta, það var nú frekar fyndið en ég kenndi líka smá í brjóst um hana. Núna er hún allavega rosalega sæt og fín (eins og hún er alltaf) og líður vonandi betur í hitanum. Ég vildi nú reyndar bara raka af henni hárið en Auður var á móti því. Ef Anna Eir væri strákur hefði ég örugglega mátt raka af henni hárið.

Á sunnudeginum fórum við á Gay pride hér í Philadelphia. Við misstum af göngunni því Anna Eir var sofandi og mættum því bara á útisvæðið (Penn’s landing) sem var við höfnina, soldið töff. Hitinn var hins vegar algjörlega að drepa mig. Það var nokkuð pakkað á þessu svæði en samt mun færri en í Stokkhólmi. Fyrir utan var eitthver Jesúlið með mótmæli en lögreglan hélt þeim í skefjum. Mér þótti smá kúl að sjá live hljómsveitina úr The L-word, þessi með þremur konunum sem eru oft að vinna með Kit. Allavega, Anna Eir var alveg að fíla þær í tætlur, dillaði sér heilmikið, sveiflaði höndunum og beygði sig í hnjánum.

Í þessum skrifuðum orðum er nettengingarstrákurinn heima hjá okkur svo við ættum að komast á Skype í dag. Verið tengd!!


þriðjudagur, júní 12, 2007
 
Ég þakka öllum fyrir stuðninginn en ég var í alvöru ekki með neinn dónaskap eða keppnisskap eða neitt við starfsmenn flugvallarins. Ég hefði betur átt að lesa bloggið hennar Auðar áður en ég setti það á síðuna. Við fáum reyndar nettenginu eftir tvo daga og þá getur Auður haldið áfram að setja lygasögur um mig á netinu.

En allavega, ég held bara að ég verði að segja ykkur minn hluta sögunnar.
Nú, litla fjölskyldan mín var hamingjusöm á Arlanda flugvellinum föstudaginn 1. júní. Við vorum í röðinni á góðum tíma svo allt leit vel út þar til kíkt var í passann minn. Ég var víst ekki með “visa” var mér sagt. Ég trúði þessu auðvitað ekki því ég hafði fengið eyðublöð frá Pennsylvania háskóla og borgað eitthvert gjald svo ég hélt að allt væri klappað og klárt, sérstaklega þegar enginn hafði sagt mér annað. Ég þrálátlega spurði flugvallarstarfsmennina hvort það væri engin leið að ég kæmist með (og það er ábyggilega það sem Auður kallaði “dónaskap” í sínu bloggi) en þeir sögðu að ég myndi lenda í vandræðum í bandaríkjunum ef ég væri ekki með visa, v.þ.a. ég mun fá laun hérna og verð lengur en daga (munaði tveimur dögum frá föstudeginum en þar sem ég fór á mánudeginum þá verð í raun styttra en 90 daga.). Ég er reyndar búin að komast að því núna að þeir höfðu ábyggilega hárrétt fyrir sér því ég hef margoft þurft að sýna þetta visa.
Þeir voru mjög vingjarnlegir, bókuðu flugið mitt aftur til laugardagsins og gáfu mér upp símanúmer hjá bandaríska sendiráðinu í Stokkhólmi. Ég hringdi í sendiráðið og komst að því að ég þurfti að fara á netið og kíkja á gátlista sem þar er og kanna hvort ég væri með allt sem ég þyrfti að taka með til þeirra. Klukkan var rúmlega 10 um morguninn þegar ég brunaði í leigubíl frá flugvellinum upp í háskóla til að fá lyklana mína sem ég hafði látið Yang vinnufélaga minn fá (sem hann átti að láta Maarja vinnufélaga minn hafa því hún ætlaði að vökva blómin og svoleiðis) og svo heim. Þar fór ég netið og komst að því að ég var ekki nærri með allt sem þurfti. Ég var með J-1 umsóknina (visa-umsókn fyrir skólafólk), kvittun fyrir einhverju gjaldi sem ég hafði borgað og vottorð frá skattinum (sem við höfðum pantað fyrir löngu því það var bara eitthvað sem við töldum að væri gott fyrir okkur að hafa því þar stendur að Anna Eir sé dóttir okkar beggja) en ég þurfti líka að fylla út eitthvert rosalegt eyðublað á netinu sem var bara hægt að gera á netinu því ég þurfti síðan að fá einhvern barkóða, og svo þurfti ég fylla út tvö önnur eyðublöð, fara í bankann og borga eitthvert annað gjald og láta taka mynd af mér, 5 x 5 cm sem er stærri en venjuleg passamynd. Ég var búin að bera mig aumlega við sendiráðið og segja þeim að fjölskyldan mín væri á leiðinni til Bandaríkjanna og ég þyrfi að fá visa. Ég veit nú ekki hversu erfitt er að komast að hjá þeim en maður verður víst alltaf að panta tíma með einhverjum fyrirvara en ég mátti koma til þeirra fyrir kl. 14. Ég hafði sem sagt 3 tíma til að fylla allt út, fara í bankann og borga, láta taka mynd af mér og fara í sendiráðið. Auðvitað tók ég leigubíl hvert sem ég fór og bað þá vinsamlegast að keyra eins hratt og þeir gætu. Svo hljóp ég um allt því ég mátti engan tíma missa.
Þegar ég kom í bankann voru 13 númer á undan mér og það var bara ein kona á kassanum. 10 mínútum síðar voru 10 númer í mig og var ég alveg að missa mig. Ég kallaði yfir bankann hvort það væri einhver með næsta númer sem væri til í að skipta við mig, ég væri jafnvel til í að borga viðkomandi 100 SEK. Augngoturnar sem ég fékk myndu kannski á öðrum tímum hafa böggað mig en ég hafði ekki tíma fyrir svoleiðis hégóma þarna. Enginn vildi skipta við mig enda reynir maður að forðast geðsjúklinga eins og pláguna í Svíþjóð. Enginn var með næsta númer svo ég hljóp að afgreiðsluborðinu í von um að ég fengi nú afgreiðslu þar sem það skiptir í raun ekki máli hvort ég sé með það númer eða ekki, enginn annar var með það númer. Ég veit ekki af hverju ég hélt virkilega að ég fengi afgreiðslu í Svíþjóð ef ég væri ekki með rétt númer, þó ég hafi reynt að segja afgreiðsludömunni mína hræðilegu sögu. Hvað eftir annað reyndi ég að spyrja afgreiðsludömuna hvort ég mætti ekki koma ef einhver var ekki með númerið og loksins sá hún aumur á mér þegar það voru 5 númer í mig.
Þá var komið að því að hlaupa í myndatöku. Mér var leiðbeint hingað og þangað en aldrei fann ég sjálfsala. Loksins fann ég búð sem tók passamyndir og var mér nokk sama hvernig hárið á mér leit út þegar myndin var tekin, bara að ég horfði fram, væri með hvítan bakgrunn og myndin yrði 5 x 5.
Í öllu fátinu hafði ég gleymt passanum mínum heima og þurfti þá fyrst að bruna þangað og síðan í sendiráðið. Ég mætti loksins í sendiráðið 13 mínútur í 14 og var alveg steinhissa að hafa tekist að gera allt fyrir tilsettan tíma. Konan, sem ég böggaði stöðugt með símhringinum þegar ég var að fylla út eyðublaðið á netinu, hafði ekki mikla trú á því að mér tækist þetta fyrir kl. 14 (þeir hleypa fólki ekki inn eftir kl. 14). Mér var hleypt inn og allt stemmdi meira að segja. Ég beið frá kl. 14 til 16 eftir passanum en því miður. Kerfið þeirra er stundum soldið hægt og fóru upplýsingarnar ekki í gegn. Ég gæti því mætt kl. 8 á mánudeginum og vonað að upplýsingarnar hefðu farið í gegn yfir helgina.
Ég var við það að fara að gráta allan daginn, vorkenndi Auði minni að þurfa að fara í 9 tíma flug með lítið barn með nánast allan farangurinn okkar. Sem betur fer hafði Jim (prófessorinn sem ég er að gera verkefnið hjá) boðist til að sækja okkur á flugvöllinn svo ég vissi að Auður þyrfti ekki að drösla töskunum langt. Og svo þyrfti greyið Aujan mín að vera ein alla helgina án húsgagna, í steikjandi hita í nýrri borg.
Loksins kl. 17 borðaði ég mat, McDonald’s. Ég þurfti að drífa mig heim til að bóka flugið mitt fram á mánudag, hringja í Jim og segja honum að hann þyrfti bara að ná í tvo ferðalanga, ekki þrjá og svo að hringja í þá sem við leigjum íbúðina af og gefa upp nafnið á Auði svo hún fengi nú lyklana. Þetta tók allt saman smá tíma en tókst á endanum og djöfull var ég fegin þegar ég heyrði í Auði í bandaríkjunum. Málið var að síminn hennar Auðar virkar ekki í bandaríkjunum og gat ég bara rétt talað við hana þegar hún var með Jim og þurfti svo að engjast alla helgina og vona að allt væri í lagi hjá þeim. Ég fékk eitt e-mail frá Auði á laugardeginum en gat ekkert talað við hana því það var ekki hægt að hringja út úr bandaríkjunum úr tíkallasímunum sem hún fann. Þetta var versti tími sem ég hef upplifað. Ég brást fjölskyldunni minni algjörlega með því að senda Auði og Önnu Eir aleinar til hættulegu bandaríkjanna og ég var ekki með til að vernda þær. Enda var ég á adrenalíntrippi alla helgina og stöðugt á klósettinu með skitu. Ég hef sjaldan talað eins oft við mömmu og pabba og Hauk, sem voru svo yndisleg að hringja í mig og hlusta á mig. Haukur hringdi nú reyndar til að hlæja að mér!!!
Helginni eyddi ég í að lesa í Neuroscience bók til að rifja upp áður en ég mætti á labið hjá Jim og á kvöldin horfði ég á Grey’s anatomy og House sem ég hafði fengið lánað á netinu.
Vaknaði kl. 6 á mánudeginum og var komin kl. 7:30 fyrir utan sendiráðið. Þar voru fyrir nokkrir í röð. Ég var á lista hjá vörðunum og átti því að geta komist inn. Mér var ekkert heilagt lengur, vildi bara geta komist með fluginu þennan dag til að hitta Auði og Önnu Eir og bað því fólkið á undan mér í röðinni að hleypa mér fyrst því ég þyrfti að ná flugi. Fólk er nú oft yndislegt ef maður bara spyr og auðvitað fékk ég að fara fremst í röðina.
Ég þurfti bara að bíða í korter eftir passanum mínum og var alveg yfir mig ánægð þegar ég sá þetta blessaða visa í passanum; rosa flott litaglatt blað með mynd af mér. Þá var það leigubíll á flugvöllin og var ég komin rúmlega 9 en flugvélin átti að fara 10:20, svo nógur tími. Loksins kom röðin að mér kl. 9:45. Ég var ekki í kerfinu. Ég sagði auðvitað að það stæðist ekki, ég hefði hring í flugfélagið á föstudeginum og þeir hefðu umbókað flugið mitt fram á mánudaginn. Ég fannst í öðru kerfi, var sem sagt með bókun en var ekki í check-in kerfinu þeirra sem þýddi að það væri ekki hægt að checka mig inn. Þetta leystist ekki fyrr en kl. 10:10 og hefði ég hugsanlega misst af fluginu ef það hefði ekki verið seinkun.
Þvílíkur léttir sem það var að vera kominn í flugvélina, þó ég þyrfti að hírast í miðjusæti með lítið blóðflæði til lappanna allt flugið þá var ég svo yfir mig ánægð að vera loksins á leiðinni yfir Atlantshafið og létti ekki adrenalíninu fyrr en ég hitti stelpurnar mínar á flugvellinum.
Eins og Auður nefndi þá fórum við beint af flugvellinum í IKEA og keyptum fullt af innbúi enda íbúðin tóm.
Húsgögin fengum daginn eftir og var kærkomið fyrir stelpurnar að hafa rúm að sofa í. Næstu daga dunduðum við okkar að skrúfa eitt og annað saman, fórum tvisvar í viðbót í IKEA til að kaupa eitthvað sem við gleymdum, keyptum okkur örbylgjuofn og loftræstiapparat. Núna lítur íbúðin okkar sæmilega út og miklu munar að hafa loftræstikerfi. Reyndar keyptum við eitt notað á $60 sem er í stofunni og er alveg rosalega góð, nær að kæla alla stofuna og eldhúsið en er örlítið hávær. Þessi sem ég keypti, glæný á $130 kælir nánast ekki einu sinni svefnherbergið. Maður þarf kannski að vita eitthvað smá um loftkælingu áður en maður hleypur út kaupir eitt stykki.
Við höfum það allavega nokkuð gott núna, fáum nettengingu á morgun og getum þá spjallað við ykkur á Skype. Erum búnar að fara einu sinni á KFC og ég er búin að borða nokkrum sinnum donuts. Hérna er alveg ótrúlega góður “fast food” sem er uppáhalds maturinn minn.

Skrifum meira bráðlega,
ástarkveðjur,
Emelía



Es. Ég ræddi við Auði um umræddan dónaskap minn í gær og hún sagði að hún hefði bara verið að djóka, alveg eins og einhverjum væri meinað að fara til Bandaríkjanna vegan dónaskaps við flugvallarstarfsmennina. Henni fannst samt að stuðningurinn sem ég fékk frá fólki sýndi að fólki finndist ég vera dónaleg en ég vil ekki trúa því.
Þá er þetta komið á hreint (ein með áráttu)!


laugardagur, júní 09, 2007
 
Sjitt franskar kartöflur eins og sviarnir segja. Thetta er nu meira kludrid. Emeliu var sumse neitad um ad fara um bord i flugvelina a fostudaginn af thvi ad hun var med donaskap. Thar ad auki var vegabrefsaritunin sem hun helt ad hun vaeri med enginn vegabrefsaritun heldur svona ”thu hefur uppfyllt oll skilyrdi til ad fa vegabrefsaritun. Emelia er ad fara ad vinna og thvi thurfti hun aritun en vid Anna forum sem turistar. Vid Anna Eir urdum thvi ad fara einar i flugvelina yfir atlandshafid, 9 klst flug og afar oskemmtilegt. US airways flugthjonar eru ekki naerri eins godir vid barnafolk og SAS eda Iceland air flugthjonar og their neitudu ad hjalpa mer ad finna laust saeti til ad hafa fyrir onnu eir. Fifl. Anna Eir var afar stilt naestum alla leid, hun grenjadi bara ca. Sidasta halftimann.
Professorinn hennar emeliu kom sidan og sotti okkur a flugvollinn, ekkert sma godur og keyrdi okkur i GALtomu ibudina okkar. Vagninn hennar Önnu var skilin eftir i stokkholmi og eg fekk lelegustu kerru markadarins ad lani thar til hann skiladi ser Aumingja anna eir var daudthreytt en var samt dregin ut i bud i kerrunni omurlegu i manndrapshita svo vid fengjum eitthvad ad borda. Hun orgadi eins og stunginn gris a leidinni heim svo eg thurfti ad halda a henni, rifnum pappirspoka og styra kerruni alla leidina heim (4 blocks) Vid svafum sidan a fatahrugu og ouppblasinni vindsaeng thar sem vid vorum bara med rafmagnspumpu og USA verdur ad vera ödruvisi med allt, lika rafmagn, svo vid gatum ekki pumpad. Thad var hart.

A laugardagsmorgun voknudum vid klukkan 3 og fengum okkur braud. Tha saum vid fyrsta kakkalakkan sem reyndi ad gaeda ser a braudinu sem eg setti ekki aftur i pokann. Franskar, hvad hann var ógó. Ég kikti inn i einn skapinn og sa tha annan kakkalakka en hann var daudur greyid. Thridji sast sidan i badkarinu lika daudur. Vid uppgotvudum lika ymislegt sem okkur vantadi ur ferdatosku emeliu s.s. skeidar, barnagraut, tölvu, sima, tannbursta, svito, regngalla o.fl. Thad var afar heitt lika thennan dag eftir ad hafa mer til mikillar gledi fundid 4 tikallasima sem ekki virkudu og atu ca. 2 dollar fra mer roltum vid nidur i bae. Thad var skitlangt, (25 blocks) en vid fundum loks tikallasima sem vid gatum hringt ur til ad spyrja um vagninn hennar Önnu. Audvitad var ekki haegt ad hringja til utlanda, ekki einu sinni thegar eg var buin ad finna ut ad thad er 011 ut ur USA en ekki 00. Aftur 2 dollarar etnir. En sem betur fer fundum vid netkaffi thar sem vid gatum latid emeliu vita ad ekki vaeri buid ad kala okkur i drive by shooting enn.
Um kvöldid sofnudum vid badar um 8 ad stadartima en eg var fljotlega vakinn vid ad eitthvad skreid eftir upphandleggnum a mer. Var tha ekki kominn 4 varanlegi ibui ibudarinnar Silfurskotta Pöddudottir. Arg! Var fljot ad drepa kivkindid en gat ekki sofnad tvhi ad eg var svo hraedd um ad fleiri kaemu ad skrida a okkur. Hand (munn) bles i vindsangina og byggdi rum ur ferdatoskum. Fyrir ykkur sem erud ad paela i ad blasa sjalf i vindsaengina ykkar get eg sagt ad thad tekur rumlega einn og halfan tima. Anna eir svaf sidan thvilikt illa a heimatilbuna ruminu thannig ad eg svaf naestum ekkert thessa nott.

Vid tokum ollu bara rolega a sunnudaginn, bordudum a macdonalds og uti a gotu thvi vid vorum ekki med neinn barnastol fyrir onnu eir og hun hleypur um allt med mat (aka kakkalakka adladara) ef hun situr ekki. A manudag fengum vid svo godu frettirnar ad Emelia kaemi eftir hadegi og vid gaetum fengid husgogn, internet, barnastol og onnur nutimathaegindi.
Vid tokum a moti henni a flugvellinum og fengum vagninn aftur sem betur fer. Forum beint med straeto til IKEA og keyptum heilt innbu (mun odyrara en ad leigja) en gleymdum audvitad ad kaupa barnastol sem okkur vantadi mest a eftir rumi. Thegar vid komum loksins heim kl 21:30 vorum vid allar ad drepast ur threytu en svafum mjog vel, loksins sameinadar.


sunnudagur, maí 27, 2007

fimmtudagur, maí 24, 2007
 
Á sunnudaginn var mér batnað af veikinni minni og Arnar Smári og Haukur Freyr komu í heimsókn til mín. Þeir voru höfðu verið á skansen með mömmu sinni og pabba. Mömmurnar mínar bökuðu vöfflur en ég mátti ekki fá því þær voru með eggjum og mjólk. Ég var öll út í útbrotum á laugardaginn og mömmurnar mínar halda að ég sé kannski með ofnæmi fyrir tómötum líka. Þannig að núna má ég ekki borða neitt með mjólk, eggjum eða tómötum á meðan þær eru að prófa þetta.

Í gær fór ég og sótti rosa fínana pakka frá ömmu og afa í kópavogi með fullt af fötum handa mér og nammi handa mömmum mínum. Fötin eru dálítið stór en nú ætla ég bráðum að vera dugleg að borða svo ég stækki í fötin. mömmurnar átu næstum allt nammið í gær, þær voru svo gráðugar.


laugardagur, maí 19, 2007
 
Í gær komum við Auja mamma heim frá Århus þar sem við vorum að heimsækja Möggu Steinu og Hadda. Við höfðum það svakalega gott, röltum um bæinn og skoðuðum hann. Við sáum rosa flottan róló þar sem voru leiktæki en líka páfagaukar, hænur og páfuglar í búrum. Þarna var líka aðstaða fyrir krakkana í hverfinum til að geyma kanínurnar sínar þegar þau eru ekki heima. Svo voru tvær geitur og einn kiðlingur. Við fórum þarna tvisvar það var svo skemmtilegt. Við skoðuðum líka eldgamla kirkju og mjög sérstakt leikhús sem þeir eru með þarna í Århus en því miður fáið þið ekki að sjá neinar myndir því mamma gleymdi að taka myndavélina. Síðasta daginn okkar varð ég veik og þegar við flugum heim átti ég voða bágt. Ég borðaði eiginlega ekki neitt, grenjaði ef mamma setti mig niður eða hreyfði sig of mikið og vildi alls ekki að hún sæti í sætinu. Hitt fólkið í flugvélinni var ekkert að láta pirringinn í ljós og maður sem sat fyrir aftan okkur hjálpaði mömmu með dótið þegar við fórum. Margir horfðu á mömmu, ekki illilega, heldur samúðarfullt. Handleggirnir á mömmu eru orðnir 3 cm lengri eftir ferðina og hún var orðin voða voða þreytt þegar Emó mamma sótti okkur á flugrútuna.
Annars voru svo margir sem hjálpuðu mömmu með dótið okkar þegar hún var ein með mig bæði að fljúga út og heim. Fólk er alls ekki eins miklir asnar og alltaf er verið að tala um.

Ég er enn veik núna og sef mikið og vil vera í fanginu á mömmunum. Ég er með smá hita og hor en ekkert mikið meira sjáanlegt. Mömmurnar halda samt að ég sé með hausverk/beinverki eða eitthvað því ég á svo bágt. Vonandi batnar mér fljótt.


föstudagur, maí 11, 2007
 
Í morgun í öppna förskolan gerði ég hreyfingar við kalli litli könguló! Þetta er rosalegur persónulegur sigur fyrir mig, þrátt fyrir að ég hafi setið eins og steingervingur undir öllum hinum lögunum sem voru sunginn. Þetta er allt að koma hjá mér. Leikskólakennarinn minn hún Barbro kom með kenningu varðandi það að ég held mig svona mikið til hlés í öppna forskolan. Hún heldur því fram að það sé út af því að ég heiti Anna. Dóttir Barbro sem heitir Anna var mjög feiminn og tvær mömmur sem voru í öppna förskolan í morgun og heita Anna voru báðar mjög hlédrægar, önnur sagði að hún hefði meira að segja hoppað úr rólunni á leikvellinum ef það komu önnur börn því hún þorði ekki að róla ef þau skyldu vilja róla. Anna amma sem ég heiti eftir var víst líka feiminn þegar hún var lítil, hún þorði ekki einu sinni að spyrja kennarnann í skólanum hvort hún mætti fara á klósettið. En þetta er allt í lagi. Þeir sem þekkja Önnu ömmu mína vita að þó maður sé feiminn í æsku getur maður samt orðið aðal ráðarinn þegar maður verður stór.

Í fyrradag pissaði ég í koppinn minn, fullt af pissi. Mömmurnar mínar voru þvílíkt stoltar og gláptu heillleingi á pissið mitt. Tvær dotlið skrýtnar. Ég veit ekki hvort ég er nokkuð að pissa meira í þennan kopp ef þær ætla að láta svona. Ég geri það amk ekki þegar eru gestir eða þegar er dregið frá.


miðvikudagur, maí 09, 2007
 
Um helgina fór ég í afmæli til Samuels vinar míns. Hann varð tveggja ára og það kom fullt af fólki í afmælið. Ég eignaðist nýja vinkonu, hana Yvonne sem mömmurnar mínar þekkja líka. Hún hefur oft lýst því yfir að hún fíli ekki börn en ég hlustaði ekkert á það og heillaði hana upp úr skónum. Við fórum snemma úr afmælinu því Börkur bróðir Heiðrúnar ömmu kom í heimsókn um kvöldið. Mömmur mínar grilluðu fyrsta grill ársins í tilefni að því, svínalund og rjómaostfyllta sveppi. namminamm.


mánudagur, maí 07, 2007
 
Í búningsklefanum fyrir ungbarnasund
(sönn saga):

Sonur konu 1: Ein sem talar íslensku eins og þú mamma!
Kona 2: ertu íslensk?
Kona1: Já
Kona 2: Hvað heitirðu?
Kona1: Svala
K2: Ha?
K1: Svala
K2: Ha?
K1:SVALA
K2: Hvað segirðu, það hef ég aldrei heyrt
K1: Svala, eins og fuglinn. hefurðu aldrei heyrt það nafn?
K2: Ha, jú auðvitað? Hvað heitir sonur þinn?
K1: [eitthvert sænskt nafn]
K2: jájá, er pabbi hans sænskur?
K1: já. En hvað heitir dóttir þín
K2: Anna
K1: Það er fallegt, er pabbinn íslenskur?
K2: Það veit ég ekki.
K1: Nei, maður getur auðvitað aldrei verið viss

Svona er það stundum þegar eðlilegar manneskjur hitta furðufugla. Málið var sumsé að emelía er kona 2 og hitti aumingja Svölu þessa í sundi en henni heyrðist hún alltaf segja að hún héti dvala (emelía heyrir oft mjög illa) og svo vafðist henni einhvernvegin tunga um tönn þegar hún ætlaði að fara að útskýra allt með sæðingu í danmörku, að vera lesbísk, tvær mömmur og allt dæmið. Þannig að næst þegar þið lendið í einhverjum furðufulgi, munið að það gæti verið skýring á öllu ruglinu


fimmtudagur, maí 03, 2007
 
hæ allir! Í gær fór ég í öppna förskolan með Auju mömmu að venju og í fyrsta skipti þorði ég að hreyfa mig í söngstundinni. ég dansaði þrisvar í 10 sek. í hvert skipti. Þetta er algjört met því yfirleitt sit ég eins og steini runninn á meðan hinir syngja, þó ég hafi mjög gaman af tónlist og dansi við allan takt sem ég kemst í; tónlist, bílhljóð, fótatak, kaffikvörn og þess háttar.
Annars hef ég það gott, tala stöðugt en mömmur mínar skilja mig sjaldnast. Þó kann ég nokkur orð og uppáhaldsorðið mitt er "nei". Það er afar gagnlegt. Auja mamma er líka þvílíkt ánægð með það því nú þarf hún ekki stöðugt að vera að hlaupa inn í eldhús og ná í mat til að kanna hvort ég vilji hann. Nú getur hún bara spurt. Svarið mitt er yfirleitt nei ef mér er boðin orkuríkur matur en alltaf já (sumsé ekkert svar) við ávöxtum, grænmeti og sérjósi.

Á mánudaginn fórum við til uppsala að sjá fossränningen og til að fara í pikknikk með Arnari Smára, Hauki Frey og Sólveigu Birtu og foreldrum þeirra. Það var rosa gaman en við þurftum að fara snemma því ég átti að mæta í sund um kvöldið.


þriðjudagur, maí 01, 2007

miðvikudagur, apríl 25, 2007
 
Nokkrar myndir frá Eiríki úr heimsókn hans og Huldu. Fleiri myndir síðar


mánudagur, apríl 23, 2007
 
Í morgun reyndi ég að fara með Auju mömmu í öppna förskolan en hann var lokaður. Við róluðum okkur smá í staðinn og fórum síðan heim. Eftir að ég var búin að leggja mig fór ég með Auju mömmu í mörby centrum og verslaði smá, m.a. afmælisgjöf handa Valtý vini mínum en hann verður fjögurra ára á morgun, og síðan fór ég í sund með Emó mömmu. Þar æfði ég mig að kafa á botninn á sundlauginni og sækja dót. Ég er ýkt dugleg!


sunnudagur, apríl 22, 2007
 
Í morgun fóru amma og afi í Kópavogi heim. Það var mjög gaman hjá okkur, við vorum alltaf að leika okkur og gera eitthvað skemmtilegt. Ömmu og afa fannst ég orðin ægilega stór og dugleg enda fer mér fram á hverjum degi. Ég er farin að segja fullt af orðum, þau eru farin að nálgast 10 og ég skil alveg ofsalega mikið. Ég fór með ömmu og afa á skansen og reyndi að ganga frá þeim eins og síðustu gestum með rosalegu labbi. Þeim fannst samt rosa gaman að sjá dýrin og svoleiðis. Bráðum fáum við myndir frá þeim sem við getum sett á netið.

Annars erum við búnar að fá íbúð í Philadelphia, 2ja herbergi nálægt háskólanum sem Emó mamma verður að vinna í. Við förum 1. júní og viljum endilega fá heimsóknir þangað.


miðvikudagur, apríl 18, 2007
 
Hér og hér eru nokkrar myndir m.a. frá heimsókn pabba, ömmu og Heiðrúnar.


 
Loksins loksins! Þið verðið að afsaka þessa löngu bið á bloggi. Ég er búin að vera að rembast við að skrifa grein þegar ég hef fengið frið í tölvunni. Greinin er núna hjá prófessornum þannig að ég hef smá tíma, þar til ég fæ hana í hausinn aftur.

Um helgina fórum við til uppsala í afmæli hjá Hauki Frey. Hann var eins árs, rosa stór strákur. Við gistum hjá Örnu og Karvel eftir afmælið allar þrjár. Veðrið var svakalega gott 20°C og sól svo við grilluðum og höfðum það ægilega kósí. Þegar börnin voru sofnuð rúlluðum við Karvel Örnu og Emelíu upp í síkvens. Team AK rúlar!
Veðrið var gott fram á mánudag, þá vorum við anna eir úti allan daginn að skoða blóm (blehw) og hunda (huh huh) og pöddur (bada) og fugla (baba (eins og brabra)) en í gær kom svo skítakuldi og leiðindi, 8°C. Það var hann Eiríkur tengdó sem tók skítaveðrið með sér hingað og skv. veðurspánni verður það ömó alveg þangað til hann fer aftur til íslands. Hulda tengdó kemur svo á morgun með enn meira skítaveður, +3°C ef spáin stenst. Það er óvíst hvað við finnum okkur til dundurs fyrst verðið á að vera svona leiðinlegt en okkur dettur örugglega eitthvað í hug. Kannski sequence.

set in myndir fljótlega


miðvikudagur, apríl 04, 2007
 
Þá voru amma, afi og langamma að fara heim aftur. Við fylgdum þeim á flugrútuna, það var voða leiðinlegt að kveðja þau. Ég var veik í gær þannig að ég vildi ekkert leika við þau þá, bara kúra hjá mömmu og sofa í fanginu á henni. Alla hina dagana fannst mér þau samt rosa skemmtileg og við vorum alltaf að leika. Við fórum m.a. á skansen að sjá dýrin og ég fékk að sjá fullt af öpum og fiskum sem ég sá ekki síðast. Mér fannst hákarlinn mjög skemmtilegur. Myndir af því síðar. Svo vorum við að leika í sandkassanum og fá okkur kaffi úti þegar veðrið var gott. Ég fékk fullt af afmælispökkum, buxur, pils og peysur frá langömmu og bíl og slæðu og bækur og geisladisk og ég veit ekki hvað frá ömmu og afa og síðan fullt af fötum. Ég er búin að fylla á fatalagerinn minn sem var að verða tómur fyrir mánuði því ég er búin að stækka svo mikið. Í dag ætla ég að taka því rólega af því að ég var slöpp í gær svo ég kemst ekki á kaffihús með Lolu eins og ég hafði hugsað mér. Ætla að hitta hana eftir páska bara.


miðvikudagur, mars 28, 2007
 
Þá er vorið loksins komið hingað. Í gær voru 13°C og í dag heilar 15°C! Ég var úti að leika mér í sandkassanum fullt bæði í gær og í dag. Það er ýkt gaman. Í dag komu Måns og Pål til mín og við fórum niður að höllinni sem er hér rétt hjá. Við Måns áttum að sofa í vögnunum okkar á meðan mamma og Pål fikuðu en við vorum óþekk og vöknuðum um leið og þau voru búin að kaupa sér köku. Við hlupum um allt á útikaffihúsinu og heilluðum gömlu konurnar sem sátu í kringum okkur. Ýkt gaman.
Á föstudaginn koma amma og afi í Kjalarlandi og Hrefna langamma til mín og ætla vera fram að páskum. ég hakka ýkt til!


miðvikudagur, mars 21, 2007
 
Þorvarður kom í morgun og ég nýtti mér það strax, lét hann passa Önnu Eir á meðan ég skaust í klippingu hér í Bergshamra Centrum. Hef aldrei farið í klippingu þar áður en þegar ég kom inn á stofuna voru tvær konur þar inni, önnur í permi og hin í lagningu; aldur beggja ca. 72ja. Hefði átt að snúa við strax og ég sá það. Bað um stutt stutt stutt a lá Ævar. Kippikonan harðneitaði, stutt stutt stutt er líklega bara fyrir stráka svo ég fékk stutt stutt. HG! hvað þetta varð hræðilegt! Klippingin sjálf er þolanleg, amk alveg hægt að gera gott ur þessu með fudge, en stælingin var ferleg! Froða og rúllubursti, toppurinn upp í smá bylgju. Ég leit út eins og 1990, ekki 1990 eins og er kúl í dag heldur Grannar meets bandarísk high school klappstýra. Þorvarður tók mynd af ósköpunum þegar ég kom heim, en þá var rokið aðeins búið að laga mig til. Kíkið á það hér. Ég ætla aldrei aftur að svíkja Patrica sem er rándýr en rosalega flink að klippa, nema náttúrlega fyrir Ævar í Köben sem er bestur.


mánudagur, mars 19, 2007
 
Komnar nýjar myndir. Afsakið svipinn á Auju mömmu á einni þeirra. Hún var búin að skemma svo margar myndir með skrýtum svip að Emó mamma gafst upp á að taka fleiri myndir.


 
Í síðustu viku fórum við mamma til ofnæmislæknisins og hann mældi aftur mjólkur- og eggjaofnæmi hjá mér. Mjólkurofnæmið mitt virtist ekki vera eins alvarlegt og síðast þegar það var kannað og læknirinn hélt kannski að eftir hálft ár yrði það jafnvel farið. Því miður er ég líka komin með eggjaofnæmi og það er ekki eins auðvelt að losna við það. Þannig að nú má ég hvorki borða egg né mjólk, eða nokkuð með egg og mjólk í. mér er svosum alveg sama, ég er vön.

Um helgina var ég bara heima með mömmum mínum. Þær voru að taka til og þvo þvott og svoleiðis. Ég fór að segja nýtt orð, "ittha" sem mömmur mínar halda kannski að þýði þetta. Ég segi það amk þegar ég er að benda á dót sem ég vil að mér sé rétt og þá spyrja mömmurnar alltaf "þetta?"

Á miðvikudag kemur afi á brekulæk til mín í heimsókn. Hann þarf víst eitthvað að skreppa á fund í leiðinni en ég hlakka ægilega til að sjá hann.


föstudagur, mars 16, 2007

 
Hæ og hó! Þá er ég komin aftur úr skíðaferðinni. Ég og mömmur mínar skemmtum okkur ofsalega vel. Við vorum í skála með Örnu, Karvel, Hrönn, Georg, Sigrúnu, Snævari, Arnari Smára, Eiríki, Hauki frey og Sólveigu Birtu. Vá það voru margir! en við vorum öll vinir svona næstum alltaf. Mömmur mínar skíðuðu fullt og stundum var ég í pössun á meðan þær voru á skíðum. Mér fannst það bara fínt þó ég væri oftast með pokerfeisið mitt en skemmtilegasta atvik ferðarinnar var þegar Arna og Karvel voru að passa mig og létu mig renna rosa hratt á snjóþotunni niður þvílíkt langa og bratta brekku. Vei!!!!!

Í fyrradag fór ég svo til uppsala til að heimsækja Karvel, Arnar Smára og Hauk Frey. Við fikuðum (sem er sænska fyrir kaffitíma) í miðbænum, lékum okkur í sandkassanum og löbbuðum ROSALEGA langt. Það var svaka gaman því veðrið var æðislegt, hlýtt og sól og ekkert mikið rok. Ég var svakalega stillt nema smá í gönguferðinni því ég vildi ekki vera í kerrunni. Ég lét Karvel halda fullt á mér því hans strákar voru sofandi í sínum vagni svo hann vantaði barn að leika við.

Í gær fór ég á skansen með Pål og Måns. Skansen er svona árbæjarsafn og húsdýragarðurinn+. Pål plataði mömmu eiginlega til að fara því hún vill ekki fara í dýragarða þar sem dýrin eru oft með svo lélega aðstöðu en á skansen var vel hugsað um dýrin og þau voru með fullt af plássi, kannski fyrir utan flamengofuglana sem voru svona tuttugu í kringum pínulítinn poll. Mér fannst rosa gaman að sjá öll dýrin.

Mamma ætlar að setja inn myndir úr skíðaferðinni á eftir.


föstudagur, mars 02, 2007
 
Ég á afmæli í dag! jibbbíííí´! Ég er eins árs. Auja mamma er 30x eldri en ég, amma á brekkulæk er 50x eldri en ég og Hrefna langamma er 86x eldir en ég. Vá. Auju mömmu finnst þetta ekkert fyndið.
Krakkarnir í öppna förskolan sungu fyrir mig í morgun afmælissöngin á sænsku og þau óskuðu þess að ég yrði hundrað ára. Það er sko mikið. Amma og Afi í kópavogi hringdu í mig eldsnemma í morgun og óskuðu mér til hamingu. Mér fannst rosa gaman að tala við þau eins og venjulega og sendi þeim fingurkoss sem er eitt af nýju trikkunum mínum.

Í gær fórum við í búðina til að versla fyrir skíðaferðina sem við förum í á sunnudaginn. Það tók rosalega langan tíma og ég fékk að borða kæfubrauð í búðinni. Svo labbaði ég rosa langt í nýju kuldaskónum mínum og studdi mig við körfuna með öllum matnum í. Annars er ég búin að vera veik í vikunni og við höfum ekki gert neitt sérstakt síðan sjúklingarnir okkar, amma og afi á brekkulæk, fóru.


miðvikudagur, febrúar 28, 2007

 
Nú eru amma og afi á brekkulæk farin heim aftur. Það var æðislega gaman að hafa þau en því miður varð afi veikur á sunnudaginn og honum var ekki batnað í gær. Ég varð líka veik á sunnudaginn, ældi smá og fékk drullu en nú er ég að lagast. Á laugardaginn héldum við upp á afmælið mitt. Það var svaka stuð og fullt af krökkum þám 2 aðrir ofnæmisgemsar eins og ég þannig að mömmurnar mínar og amma gerðu fullt af eggja-, mjólkur og hnetufríum afmælismat. Ég fékk rosa marga pakka en mér þóttu kortin á pökkunum meira spennandi en innihaldið. Ég fékk kjól, dupló, trommusnigill, svínabelju sem syngur, bækur, skó, geisladisk, fingraliti, kubba, bol og pening.

Á mánudaginn saumuðu amma og Auja mamma gardínur í herbergið mitt. Þær eru algjört æði, með ljónum, öpum, sebrahestum og gíröffum á. Ég hermi eftir apanum og ljóninu þegar ég kem inn í herbergið mitt. Nú er líka rosa dimmt í herberginu mínu þegar ég legg mig þar á daginn.

Auja mamma ætlar að setja inn nokkrar myndir á eftir.


þriðjudagur, febrúar 20, 2007
 
Um helgina fórum við í afmæli til Arnars Smára í uppsala. Hann var 2ja ára, rosa stór strákur. Hann fékk fullt af pökkum og dóti sem var ægilega spennandi. Auðvita var fullt af krökkum í afmælinu sem mér fannst rosa skemmtilegt að fylgjast með og leika við. Ég er dálítið ákveðin stundum svo hinir krakkarnir voru ekki alltaf jafnglaðir með að ég væri að leika við þau en það var svo sjaldan. Ég setti nýtt göngumet í afmælinu, fyrra metið var 8 skref en nú voru það eitthvað yfir tíu. Þau voru amk svo mörg að ég gat ekki talið þau. Arna og Karvel, mamma og pabbi Arnars Smára höfðu bakað vatnsdeigsbollur sem Emelía mamma át yfir sig af, þær voru svo góðar.

Áðan fórum við svo í öppna förskolan þar sem voru bakaðar Semlor, sem eru svona sænskar bolludagsbollur. Ég gat ekki hjálpað til að baka eða fengið að smakka því það er mjólk í Semlum svo ég var bara að leika mér við strák sem líka er með mjólkurofnæmi. Hann er svo slæmur að hann getur ekki andað ef hann fær í sig mjólk, en það hefur sem betur fer ekki komið fyrir mig enn, enda eru mömmurnar mínar voða duglegar að passa að ég fái ekki í mig mjólk.

Á fimmtudaginn koma amma og afi á brekkulæki í heimsókn til mín. Ég hlakka ægilega mikið til. Mér finnst nefninlega ofsa gaman að tala við þau á skype og þekki þau alveg. Á eftir ætla ég að fara á skansen með Auju mömmu, Måns og Pål pabba hans.


fimmtudagur, febrúar 15, 2007

 
Í gær fór ég í öppna förskolan og í fyrsta skipti sat ég ekki eins og steinrunninn þegar verið var að syngja heldur veifaði höndinni einu sinni og klappaði tvisvar! Reyndar byrjaði ég morguninn á að sitja og stara á einn pabban í hálftíma, honum fannst það smá vandræðalegt. Í morgun var ég svo enn duglegri, klappaði oft og gerði hreyfingarnar með sumum lögunum. Ég er líka farin að leika mér meira með hinum krökkunum í staðin fyrir að hanga bara í mömmu eins og áður. Svo kann ég orðið að herma eftir apa og ljóni, sem eru bæði dýr sem sungið er um. Á eftir ætlar Måns að koma í heimsókn til mín og við ætlum að renna okkur á snjóþotu. Mamma ætlar að setja inn myndir fyrir mig á eftir, ekki missa af því.


þriðjudagur, febrúar 13, 2007
 
Helgin hjá mér var rosa skemmtileg. Ég fór í partý til nágranna okkar, þeirra Ling og Yang en Yang vinnur með Emó mömmu. Emó mamma hjálpaði til við að gera dumplings sem er svona kínveskur matur en Auja mamma hljóp á eftir mér um alla íbúðina þeirra, ég veit ekki af hverju, mest var hún fyrir mér þegar ég var að skoða dótið sem Ling og Yang eiga. Mér fannst Ling rosalega spennandi en hún var því miður upptekin við að stjórna dumplingsgerðinni. Hún lofaði að koma í heimsókn bráðum og leika við mig.

Á sunnudaginn talaði ég við öll ömmu- og- afa-pörin mín (ég á sko þrjú, ég er svo heppin) á skype og ég sýndi þeim hvað ég er orðin dugleg að labba. Ég tók margoft minnst 7 skref og ég þori stundum að labba frá einhverjum stað þar sem ég held mér í til mömmu en ekki bara á milli mammanna minna eins og áður. Þegar ég var búin með hverja strollu leit ég á tölvuna til að gá hvort ömmur og afar væru ekki örugglega að klappa fyrir mér.

Í gærmorgun fór ég með Auju mömmu í öppna förskolan og þegar við komum heim eldaði hún mat handa mér, enn einu sinni. Hún hefur oft reynt þetta en hún bara gerir ekki nógu góðan mat! Á endanum gaf hún mér krukkumat sem betur fer. Mér finnst matur úr krukku langbestur og borða bara mömmumat þegar búið er að þynna hann út með krukkumat. Ég borða líka stundum fiskbita eða kjúklingabita ef ég fæ að tína upp í mig sjálf. Mamma var svo lengi að skilja í morgun að ég vildi ekki matinn hennar að ég var næstum sofnuð við matarborðið.

Annars fór mamma í jólasokkum í öppna förskolan! ekki spyrja mig af hverju.

Annars er það helst að frétta að síðan á aðfaranótt föstudags hef ég samtals vaknað tvisvar um miðja nótt og alltaf sofið til amk 7. Mömmur mínar eru þvílikt ánægðar með mig. Ég er ekki eins ánægð því þær láta mig sofna sjálfa í rúminu mínu en það er ekki eins slæmt og ég hélt fyrst.


fimmtudagur, febrúar 08, 2007
 
Nú ætla ég að koma með smá uppdeit þar sem ég er alveg að verða eins árs og ég hef ekki bloggað svo lengi. Ég er farin að labba, mest svona 4-5 skref í einu, oftast bara 3 eða færri. Mér gengur sæmilega að halda jafnvægi en þarf að æfa mig meira. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að labba með gönguvagninn frá ömmu og afa á brekkulæk og með bílinn frá Ömma, Kötu og Ara. Þá hleyp ég um stofuna og skríki því ég er svo dugleg.
Svo er ég farin að herma eftir hundi og mér finnst rosa skemmtilegt að skoða myndir af hundum á netinu og að horfa á dýrin á Animal planet þegar mömmur mínar leyfa mér það. Ég þekki sko alveg munin á hundi og öðrum dýrum.
Mér finnst tónlist æði, bendi á græjurnar og dilla mér þegar ég vil heyra tónlist. Ég dansa við nánast hvað sem er, meira að segja nýja (og leiðinlega skv. Auju mömmu) fréttastefið á Rúv. Þegar ég dansa minni ég smá á Elvis, ég kikna í hnjánum og geri alskyns mjaðmahnykki ef ég stend. Ef ég sit þá dingla ég yfirleitt hægri löppinni eða veifa með báðum höndum (kann btw alveg að vinka þegar einhver fer). Því miður þá fíla ég ekki pönk ennþá, þegar Auja mamma setti stórgott pönk á fóninn um daginn hélt ég áfram að benda á græjurnar og heimta tónlist! Auja mamma ætlar samt að kenna mér að fíla pönk seinna. Í morgun spilaði Lísa Páls prumpulagið með doktor Gunna og mér fannst það ýkt fyndið.
Við Auja mamma syngjum oft, uppáhaldslagið mitt er Nú er úti norðanvindur, ég dilla mér þvílíkt þegar kemur að úmbarassa en við syngjum líka rokkútgáfuna af kalli litli könguló, fyrst á réttunni og 10 litlir indjánar sem er sænskt. Ég kann hreyfingarnar í öllum lögunum og geri þær oft með, kannski ekki alveg á réttum tíma eða á réttan hátt en það er allt í áttina.
Ég er eiginlega farin að skilja að ömmur mínar og afar eiga heima í tölvunni, ég spjalla stundum við þau á netinu og sýni þeim hvað ég kann. Mér finnst þetta dálítið skrýtið en eins og margt annað þá sætti ég mig við það í bili.
Fleira sem mér finnst skemmtilegt (svona fyrir utan allt sem ég ekki má) eru hálsmen og rennilásar. Allir sem eru með hálsmen eru vinir mínir. Mér finnst líka gaman að borða sjálf þó það sé smá sóðalegt en ég þarf ekki að taka til. Mér finnst líka rosa gaman að vera úti, sérstaklega á róló. Mömmur mínar fara stundum með mig að róla eða renna og ég er ekkert hrædd.
Nú verð eg að fara að borða og sofa. meira síðar.


miðvikudagur, febrúar 07, 2007

 
Jæja, þá er loksinsk komið að því að blogga. Ég er búin að vera svo upptekin að ég hef ekkert getað bloggað. Fyrir tveimur vikum var ég veik, með ælupest og átti voða bágt. Mamma þurfti að halda á mér allan daginn og ég vildi ekki borða neitt. Ég var veik frá þriðjudegi fram á laugardag en nú er mér batað af ælunni og ég er komin með kvef. Við mamma erum því bara inni í dag, enda eru -8°C úti, voru -15°C í morgun þegar Emó Mamma fór í vinnunna.
Í síðustu viku var svo fullt að gera hjá mér. Måns sem er orðin eins árs og Pål pabbi hans komu í heimsókn til mín á miðvikudaginn og við lékum okkur fullt. Á fimmtudag fórum við með hrönn að sækja Eirík á leikskólann og fórum síðan heim til þeirra að leika og á föstudaginn fórum við í eins árs afmælisveislu í vinnuna til mömmu en hann Albert IV og Heidi sem vinna með mömmu og eiga Albert V héldu upp á afmælið hans þar. brjálað stuð hjá mér en nú er ég sumsagt veik og við mamma erum bara heima. Ég ætla að setja inn einhverjar myndir fljótlega.


laugardagur, janúar 27, 2007
 
Heimski blogger er búin að breyta einhverju þannig að ég hef ekki getað bloggað í marga daga. Drasl. vona að þetta virki er búin að setja inn myndir fyrir löngu, kíkið á þær hér.


föstudagur, janúar 19, 2007
 
Hér er svar við gátunni frá í gær. Mjög góðar ágiskanir bárust, en enginn þeirra var rétt, nema þá það sem Kata sagði; konan var ég. Konan ætlaði auðvita að nota þetta dót til að róa barnið sitt í barnavagninum. Btw þá fattaði Emelía þetta um leið.


fimmtudagur, janúar 18, 2007
 
Hér er gáta:

Hvað ætlar kona að gera sem stingur pískara, flösku af munnskoli, yfirstrikunarpenna, töflutúss og eldspýtum í kápuvasann áður hún fer út ?

Svar birtist síðar, þið megið giska.


 
Í gær ætlaði ég að fara í öppna förskolan með Auju mömmu því hún hefur aldrei farið þangað. Öppna förskolan er svona leikskóli fyrir litla krakka eins og mig þar sem mömmurnar og pabbarnir þurfa ekki að fara í vinnuna heldur mega vera eftir og leika allan daginn! Því miður var lokað í gær og ég fór því bara með mömmu á róló í staðinn. Síðan sungum við "fyrst á réttunni svo á röngunni" svona 15 sinnum þegar við komum heim og ég var fljót að læra að maður á að klappa í restina af laginu, svona er ég klár! Svo er ég líka farin að gera Bö með því að halda fyrir andlitið en stundum þarf ég að loka augunum líka því ég er með svo litlar hendur. Mamma fattar það ekkert, heldur samt að ég sé týnd, hehe.


þriðjudagur, janúar 16, 2007
 
Í dag fór ég að hitta lækninn minn. Hann vildi kanna hvort ég gæti staðið upp og hvort ég væri í lið á mjöðmunum og þvílíkt rugl sem þarf auðvita ekkert að kanna. Ég grenjaði á hann þegar hann lét mig standa upp bara til að hafa það á hreinu að hann mátti ekki halda á mér. Áður en við fórum til læknisins hittum við hina ofursænsku hjúkrunarkonu syster Karin. Hún kannaði hversu þung og löng ég er orðin. Nú er ég loks búin að ná 9 kg og er 74cm að lengd. Syster Karin sagði að það liti allt vel út hjá mér og ég væri alveg í meðalþyngd, hefði aðeins hoppað upp fyir meðallag af allri brjóstamjólkinni þegar ég var lítil en svo þegar ég fór að hreyfa mig rann allt af mér. Ég var smá rugluð því síðast þegar við hittumst var syster Karin smá fúl út í mig og Emó mömmu, sagði að ég væri of mjó, Emó mamma yrði að gefa mér meira að borða og setja enn meiri fitu í matinn. Þegar syster Karin var svona ánægð með mig sagði Auja mamma sem fór með mér, eitthvað lágt á íslensku sem ég held að ég skilji en megi ekki alveg birta á netinu.


sunnudagur, janúar 14, 2007
 
Ég get labbað næstum alveg sjálf! Ég er farin að nota nýja vagnin sem ég fékk í jólagjöf frá ömmu og afa á Brekkulæk til að styðja mig. Ég get gengið alein ALEIN frá öðrum endanum á stofunni yfir í hinn!!!! Þá eru húsgögn fyrir og svoleiðis og mömmur mínar hjálpa mér að snúa við, ég kann það ekki alveg enn. Það er dálítið erfitt að bakka með vagninn. Kíkið á myndir af því og öðru hér og síðan fleiri myndir frá Íslandi hér.


föstudagur, janúar 12, 2007
 
Jæja, þá eru komnar nýjar myndir frá Íslandi á myndasíðuna, frá desember og janúar. Hér er annars það að frétta að Eiríkur var hér á fundi og fór heim í morgun. Ég er annars byrjuð í barneignarleyfi, rosa gaman. Það var þó enginn dans á rósum í gær þegar ég fór í Willys (ek. bónus) að versla í gær. Ég keypti auðvita allt of mikið og hlóð þvílíkt á barnavagninn þannig að dekkinn flöttust út að neðan (það var lint í þeim fyrir). Anna Eir grenjaði eins og stunginn grís í vagninum drekkhlöðnum á leiðinni í strætó og ég hélt að við myndum báðar drepast við að fara upp ísilagða snarbratta brekku. En við komumst heim, Emelía pumpaði í dekkin og við Anna ætlum kannski í Willys í næstu viku.


sunnudagur, janúar 07, 2007
 
Núna er ég búin að vera aaaaaaalein heima í 5 daga. Ég þarf náttúrulega ekki að taka það fram að ég sakna stelpnanna minna ofsalega mikið. Ég sá reyndar Önnu Eir, Auði og mömmu og pabba á Skype í dag en það minnkaði samt lítið söknuðinn. Mér til mikillar gleði er von á þeim heim á morgun og mun ég að sjálfsögðu vera mætt á rútustoppið til að ná í þær.
Ég hef ekki setið auðum höndum, hef reynt að mæta í vinnuna og hef svo líka verið heima að vinna. Það er alltaf gaman að byrja í vinnunni. Ég var þó frekar óheppin þessa vikuna, tvö þeirra tækja sem ég sé um biluðu og var hvorugt mér að kenna.
Það er skítakuldi í íbúðinni. Þessir fjandans Svíar eru svo miklir nirflar en ég ætla nú að tala við húsvörðinn okkar svo aumingja litla stelpan okkar þurfi ekki að vera í útigallanum inni.

Hlín á afmæli í dag, er orðin 31 ára og hringdi ég af því tilefni í hana í morgun. Hlín er alveg að vera búin að læra að taka aldur sinn í sátt og býst ég við því að fertugsaldurinn muni vera algjört blómatímabil fyrir hana. Enn og aftur, til hamingju með daginn, elsku vinkona.

Kíkið endilega á myndir frá Íslandsferðinni um jólin: 18.-31. des og 1.-8. jan. Mun setja inn fleiri myndir af nýja árinu eftir að Auður kemur.


þriðjudagur, janúar 02, 2007
 
Sælir lesendur góðir!

Ég er komin aftur til Svíþjóðar, lenti í dag, en Auður og Anna Eir koma mánudaginn 8. janúar. Það var afar notarlegt að koma heim því Auður tók alveg hreint glymrandi vel til áður en hún fór til Íslands.
Þar sem ég hafði ekki mikið að gera eftir að hafa tekið upp úr töskunum þá setti ég inn nokkrar myndir af Önnu Eir úr desember. Kíkið á þær hérna.

Ég er sem sagt að byrja í vinnunni á morgun eftir 11 mánaða fjarveru og Auður byrjaði formlega í mæðraorlofi í dag og verður í hálft ár. Þetta verður að öllum líkindum spennandi tími fyrir Auði og Önnu Eir enda Anna Eir eins og fló á skinni núna.

Ég reyni að setja inn myndir frá Íslandsferðinni bráðlega.