Svíþjóðarferð |
|
Auður og Emelía leggja haf og land undir fót og flytja til lands öryggisins.
Ýmislegt
Linkar
|
þriðjudagur, desember 23, 2003
Nú er vika síðan við komum til Íslands. Við lentum í sniffhundi (hann þefaði nú frekar lengi á Auði) og þurftum að renna töskunum í gegnum skannann. Auðvitað brunuðum við strax í Keflavík og fengum okkur pylsur (og ég kókómjólk með) og svo stoppuðum við í Bónus í Hafnarfirði til að kaupa fullt af íslensku nammi. Daginn eftir fórum við austur í 7 heimsóknir til ættingja. Ég er svo ánægð með að við Auður skulum eiga ættingja á sama stað; á Selfossi og nágrenni. Síðan erum við búnar að slæpast og hitta fólk. Fórum í árlega efnafræðipartýið í fyrsta árs efnafræðistofunni upp í háskóla á laugardaginn, það var hrikalega gaman. Ætluðum nú bara aðeins að kíkja en enduðum auðvitað niðrí bæ með hinum gömlu nemendunum. Sunnudagurinn var hrikalegur, þvílíkan hausverk er ég ekki viss um að ég hafi nokkurntímann áður upplifað en Íbúfen er undralyf :) Um kvöldið komu mamma mín og pabbi í mat til Önnu og Þorvarðar, ofsalega góður og ofurfínn matur; hvítlauksristaður humar í forrétt, nautakjöt í aðalrétt og jólaísinn frá Kjörís í eftirrétt (hann er mjög góður á bragðið og með súkkulaðistjörnum í, jibbí). Í gær vöknuðum við fyrir hádegi því það var sammælst um það í efnafræðipartýinu að hittast í hádeginu, auðvitað varð Stællinn fyrir valinu. Eftir það tókum við út labið hjá Baldri en hann vinnur hjá prófessori Jóni Karli Friðriki Geirssyni sem er gamli meistarinn okkar Auðar, Mumma og Líneyjar. Það höfðu orðið þvílíkar breytingar á, heldur betur til batnaðar (prófessor Jón er greinilega heldur betur að fara yfirum í kaupgleði eftir að hann varð fimmtugur!) og Baldur á hrós skilið fyrir að halda labinu eins og við skildum við það; merkin fram :) Við Auður og Hrönn gátum nú ekki setið á okkur og skruppum aðeins í pool. Við vorum alveg látnar afskiptalausar, enda fórum við á gæðastaðinn í Lágmúla. Við Auður fórum nefnilega með Mumma í seinustu viku á Hverfisgötuna og vorum ekki búin að spila lengi þegar strákur á næsta borði bauðst til að hjálpa Auði við að raða upp kúlunum. Auður hváði bara og aftur segir hann "á ég að sýna þér hvernig á að raða upp kúlunum", "á ég að sýna þér hvernig á að raða þeim rétt upp". Við vorum nú ekkert yfir okkur hrifnar af þessari truflun sem við báðum alls ekkert um og þóttumst nú vel kunna að raða upp kúlunum í 14-1 (sem við vorum að spila þá) og sögðum soldið efins "raða upp kúlunum í 14-1?". "Ha", segir strákurinn. Við endurtökum bara það sem við sögðum og aftur hváir strákurinn og segist ekki skilja hvað við segjum. Við segjum "14-1" og aftur segir hann "ég skil ekkert hvað þið eruð að segja" og hröklast yfir á sitt borð. Ég þóttist vita að Auði fannst þetta alveg jafn fyndið og mér að einhver strákur ætlaði að reyna að heilla aumingja stelpurnar (einu stelpurnar í salnum, btw!) en neyddist til að fara til að gera sig ekki að meira fífli en við vorum afar kurteisar að halda andlitinu og springa ekki úr hlátri, bara svo honum liði ekki of illa. En þetta er soldið dæmigert þegar stelpur eru að spila pool hvað strákunum finnst þeir oft nauðbeygðir að hjálpa, meina eflaust hið besta með þessu öllu saman, greyin. Í gær fór Auður austur í pakkaferð með mömmu sinni en ég fór í stórgóðan kjúlla hjá mömmu og í heimsókn til mömmu og pabba Siggu high ásamt Þóri. Í dag fór Auður aftur austur, núna með pabba sínum (þvílík vandræði að eiga tvær fjölskyldur!). Ég fór hins vegar í heimsókn til Byddíar, Nonna og Árna Jökuls (varð nú var við það að móðir hans kallar hann nú oftast bara Árna!), sem er orðinn hrikalega stór strákur og mikið duglegur að rífa og tæta. Svo fór ég í skötu til mömmu. Já, ég get vel borðað skötu og finnst hún barasta allt í lagi, gaman að vera með. En það var samt farið í árlegu átveisluna á Pizza Hut, fór með Auði, pabba, Hauki, Össa, Gilla og Bellu. Ég varð alls ekki hissa þegar við Auður fengum pizzuna okkar, hún var sem sagt ekki rétt, við fengum litla pizzu í stað miðstærðar og svo vantaði svörtu ólífurnar á helminginn (en það skipti reyndar ekki miklu). Við fengum því að borða litlu pizzuna og fengum svo miðstærðina síðar (sem er að mestu leyti í morgunmat) og þurftum bara að borga fyrir litla pizzu, þvílíkt heppnar, aldrei höfum við grætt á mistökum Pizza Hut í Stokkhólmi!!!!! mánudagur, desember 15, 2003
Á laugardaginn opnuðum við jólapakkann hans Valtýrs (sonur Bigga og Hlínar) með honum, þetta var fyrsti jólapakkinn hans í lífinu! Og hann hágrét, eigum helv... góða mynd af því. Ég er nú frekar skeptísk á að hann hafi verið að lýsa yfir óánægju sinni með gjöfina því hann er búinn að leika sér fullt með þetta síðan. Við gáfum honum sem sagt eitthvað hrikalegt þroskaleikfang, fullt af mjúkum kubbum með mismunandi áferð og hljóði sem var meira að segja ætlað 12 mánaða og eldri (skil nú ekki af hverju það var) en hann er bara tæplega 8 mánaða. Auðvitað versluðum við fleiri jólagjafir í gær, núna eru bara tvær eftir, þvílíkur léttir. Hittum kall á lestarstöðinni, frekar svona óheppinn útlitslega, með sæmilega sítt hár og úfið en samt farið að þynnast, með bumbu og tvær sjáanlegar tennur. Hann byrjaði bara að spjalla við okkur uppúr þurru, spurði okkur (eins og vanalega) hvort við værum Finnar. Hann sagði okkur að hann hefði verið sjómaður (og sýndi okkur tattú því til sönnunar), hann hefði siglt um allan heim og m.a. til Íslands. Auðvitað fylgdi það sögunni að það væri ofsalega auðvelt að fá að sofa hjá íslenskum stelpum, og sænskum, og dönskum og svo sagði hann eitthvað fleira sem ég skildi ekki. Og af því að við vorum með Valtý með okkur þá minnti það hann greinilega á að hann ætti fullt af börnum en hann hefði sko alltaf hætt með kellingunum þegar það kom barn!! Hann var svo ofsalega ánægður með Hlín að hann gaf henni tvisvar svona strákahögg í handlegginn en það sem bjargaði Hlín var að hún hélt í vagninn sem Týri var í (strákurinn vegur tæp 10 kíló). Hrikalega skondin týpa þessi kall. Í dag löbbuðum við Strikið í skítakulda, sá strax eftir því að hafa gleymt að fara í gammósíurnar. Löbbuðum svo í Tívolíinu þegar það var farið að dimma, mælum hiklaust með því, sérstaklega um jólaleytið en helst ef maður er vel klæddur. Þetta er ofsalega stór garður með fullt af fallegum ljósum út um allt, ekki bara fyrir krakkana :) Það verður vonandi aðeins spilaður Kani, enn einu sinni, alltaf jafn gaman. En líklega skiptum við út Bigga fyrir Söru á móti því Bigginn okkar er svo duglegur að læra fyrir eðlisfærðipróf sem verður á fimmtudaginn. Í hádeginu á morgun fljúgum við svo til ÍSLANDS, veeei. laugardagur, desember 13, 2003
Vííí, á fimmtudagskvöldið fékk ég jólagjöfina frá Auði, rosalega flottan poolkjuða með bláu og svörtu handfangi. Ég vissi reyndar hvað ég átti að fá, fórum saman að velja en það er samt svo gaman að fá gripinn í hendurnar. Og þar sem kjuðarnir okkar eru svo hrikalega verðmætir þá tímdum við ekki að burðast með þá til Íslands, við verðum því að spila með almenningskjuða á Íslandi, þvílíkur bömmer :) Við komum seint og um síðir til Köben í gærkveldi, töfðumst aðeins vegna dauðaslyss á lestarteinunum (ekki okkar lest þó) og svo var eitthvert verkfall í Malmö (þar sem við skiptum um lest) en þessi leiðindarferð var gleymd og grafin þegar Hlín tók á móti okkur á brautarstöðinni í Vedbæk veifandi íslenska fánanum (og brjóstunum). Að sjálfsögðu var ekkert farið strax í bólið því Sara og Gummi á móti (búa sem sagt í húsinu á móti) voru í heimsókn. Við héldum litlu jólin í gær, opnuðum jólagjafirnar til hvers annars. Við Auður fengum báðar rafmagnstannbursta, sem kom sér afar vel því við gleymdum að kaupa bursta fyrir ferðina. Biggi fékk geisladisk og Hlín klósettsetu. Enga venjulega klósettsetu því þessi var úr mahogny, Auður mundi nefnilega eftir því að þau keyptu sér rándýra og flotta trésetu þegar þau bjuggu á Íslandi. Í dag var smá verslunarleiðangur á Strikinu, náðum að kaupa eina jólagjöf í viðbót (handa Kötu mágkonu) og svo keypti ég jólagjöf handa Auði. Þar sem ég var búin að fá mína jólagjöf þá gaf ég Auði hennar í dag, hún var líka svo stór að það væri bara til vandræða að drösla henni til Íslands. Gjöfin var sem sagt einhver rosa fín kaffivél sem er tvískipt fyrir venjulegt kaffi og svo expresso. föstudagur, desember 12, 2003
Þá eru bara fáeinir tímar þar til við förum með lestinni til Köben (förum 17:40, mætum 22:39 í Köben, Hlín). Við Auður erum rosalega sætar í dag, báðar með jólasveinahúfurnar okkar og það vekur merkilega mikla lukku í minni vinnu. En áður en við förum ætla ég aðeins að koma með sögu af Svíunum. Det är så här (Svíar segja þetta oft áður en þeir byrja á sögunum sínum). Við Auður keyptum lestarmiða til og frá Köben, svona förköpsbiljetter (hægt að kaupa allt að þremur mánuðum fyrir brottför, sem við gerðum að sjálfsögðu) því þeir eru hvað ódýrastir og svo fær maður enn meiri afslátt ef maður er stúdent. Það var hins vegar ekki fyrr en fyrir einum mánuði (þegar ég fór með hópnum mínum á ráðstefnu nálægt Gautaborg) sem ég komst að því að maður þarf að kaupa sérstakan miða til að líma á stúdentakortið sitt til þess að maður geti nýtt þennan lestarstúdentaafslátt. Auðvitað var ég ekkert ofsalega sátt við þetta allt saman því okkur var sko ekki sagt frá þessu þegar við fengum þetta stúdentakort, ekkert verið að veita of miklar upplýsingar og þá helst ekki gagnlegar. Og sem týpískir Íslendingar þá steingleymdum við að kaupa bláa miðann, föttuðum það í fyrradag. Við vorum þó ekki alveg vissar að við þyrftum að borga extra, við borguðum meira en venjulegt verð sem stúdent fyrir miðana en samt stendur á miðunum að við séum stúdentar. Við héldum að þarna hefðu orðið einhver mistök og spurðum því út í þetta á aðallestrastöðinni í morgun. Jú, jú, við þurfum þennan bláa miða og verðið fer eftir því hvenær maður ferðast, það er nefnilega föstudagur í dag. Við ákváðum því að redda þessu í dag, eins og sannir Íslendingar. Ég hringdi á viðkomandi stað en fékk þvert nei. Auður hringdi og vældi og vældi og fékk það loksins í gegn að hún gæti faxað til þeirra viðkomandi blöðum (sönnun fyrir því að hún sé stúdent) og þau myndu síðan faxa allar upplýsingar til lestarfyrirtækisins og Auður gæti síðan einfaldlega náð í bláa miðann á aðallestarstöðinni í dag. Afar einfalt og fljótlegt. Ég veit ekki hvert manneskjan ætlaði þegar ég hrindi síðan og bað um það sama og Auður. Fyrst sagðist ég þó bara þurfa þennan miða í dag og auðvitað kom sko Nei. Ég sá ekki fram á að konan gæfi sig og sagði að þau hefðu gert þetta fyrir vinkonu mína. Þá fór kellingin smá yfirum, sagði að þetta væri sko ekki venjan hjá þeim, þetta væri bara undantekning sem þau hefðu gert því annars myndu allir vilja gera þetta svona, og meira bla bla. Ég lofaði auðvitað bót og betrun, var auðmjúk og þakkaði henni þessi ósköp, ég er viss um að henni líður sem dýrlingi og því held ég að við Auður höfum gert mikið góðverk í dag. Það sem þið getið lært af þessu, börnin góð, er að allt er hægt fyrst okkur tókst þetta í Svíþjóð!!!! Ef þið þurfið að ná í okkur þá erum við með gsm símann okkar. Eins og er er símanúmerið +46-762350150 (sænska númerið okkar) og verðum við með það til hádegis á þriðjudaginn. Eftir 14 á þriðjudaginn skiptum við yfir í íslenska númerið okkar 6638632. fimmtudagur, desember 11, 2003
Vid erum bunar ad kaupa svo mikid af oskynsamlegum jolagjofum ad eg veit ekki hvort vid getum tekid med okkur meira en naerbuxur til skiptanna. Næstu jól fá allir geisladiska án hulsturs. Ég fór áðan og keypti jólagjöf handa Emelíu sem ég ætla að gefa henni í kvöld. Þetta er ekkert spennandi jólagjöf því Emelía fór með mér að velja hana. Finnst það ekki eins skemmtilegt. það var rosa gaman í fyrra þegar ég pukraðist til að kaupa gítar handa henni (rándýran btw). Þá laumaðist ég nokkrum sinnum í skjóli myrkurs í gítarbúðina og plataði stelpuna þar til að spila aðeins á gítarinn sem ég hafði augastað á; Dökkbrúnan kanadískan gæðing. Nokkrum dögum fyrir jól fór ég svo og keypti gítarinn og faldi hann í geymslunni okkar. Geymslan er í svona geymslukjallara og samanstendur bara af nokkrum þunnum spítuveggjum og rimlahurð með hengilás þannig að ég varð að fela gítarinn ofan í gömlum bakpoka og skipta um lás. Síðan pakkaði ég inn ljótustu buxunum hennar Emelíu inn í fínan jólapappír ásamt miða sem stóð á "Hoppaðu upp og lokaðu augunum..." og lagði undir jólatréð. Á aðfangadagskvöld þegar Emelía litla opnaði jólapakkann sinn varð hún smávonsvikin fyrst yfir að fá gamlar buxur sem hún hafði sjálf keypt en svo varð hún voða glöð þegar ég dró fína gítarinn undan rúminu, en þangað hafði ég laumað honum fyrr um daginn þegar Emelía rakaði biggann okkar. a, þetta var svo gaman....... en nú er það bara fyrirframákveðinn pakki sem hún veit nákvæmlega hvernig lítur út og hvað kostar :( þriðjudagur, desember 09, 2003
Bara þrír dagar. Jeieieieieieieiei! Í gær fór ég veik heim einu sinni enn. Er að verða brjáluð á þessu heimskukvefi sem ég er stöðugt að fá. Mætti samt í vinnuna í morgun því fegurðarblundurinn minn í gær gerði mig næstum fullfríska á ný. Í kvöld ætlum við að byrja að pakka og taka til hjá okkur og svona, sumsé undirbúa ferðalagið okkar. jibíiíííí. Annars vorum við bara að tsjilla í gærkvöldi en nú tekur alvara lifisins vid. mánudagur, desember 08, 2003
Á laugardaginn og í gær fórum við Auður í verslunarferð. Gærdagurinn var mun "effektívari", keyptum fjórar jólagjafir. Við erum nú búnar að kaupa fleiri gjafir en ég held að við séum þó bara hálfnaðar, það er líka nógur tími til stefnu. Mér finnst gjafirnar okkar svo fínar að mig langar helst að segja hvað við keyptum en það skemmir ábyggilega soldið stemninguna og svipinn á öllum þegar þeir opna. Á laugardaginn vorum við Auður, Hrönn og Georg líka með jólaglögg ásamt átta úr Uppsölum. Það vara rosalega fínt, elduðum fullt af pizzum og borðuðum kökur (ekki samt afganga!!). Ég vildi helst að ég hefði ekki verið svona syfjuð, byrjaði ábyggilega að geispa um níu leytið en við fórum auðvitað samt ekki fyrr en með seinustu lestinni, rúmlega þrjú. Kynntumst 3 nýjum félögum í Íslendingafélaginu okkar: Hákoni (kærasti Þóru) og Bryndísi (lífefnafræðingur) & Guðmundi. Tengingin í Íslendingafélaginu er því ennþá raunvísindi úr Háskóla Íslands. Þarna var samt önnur tenging, Guðmundur vann nefnilega með Ingimundi á Símanum. Ótrúlega tilviljun. Þau vissu nú af minni tilveru en ég ekki af þeirra, ha Ingimundur :) Nýju meðlimirnir gistu hjá okkur Auði um nóttina, afar prúðir gestir, brutu sængurnar eftir sig og meira að segja sængurverin og lökin sem voru á leiðinni í þvottavélina :) Þið getið séð myndir úr jólaglögginu sem Þóra tók. föstudagur, desember 05, 2003
Mig langaði bara að þakka stelpunum (Auði og Hrönn) fyrir kökurnar í gær, þær voru rosalega góðar og því þykir mér leiðinlegt að hafa ekki átt neinn þátt í þessu :) En djöfull eru Tolkien aðdáendur geðveikir, allavega hérna í Stokkhólmi. Það er mánuður síðan að einhverjir unglingar tjölduðu fyrir utan bíóhúsið/in til að vera fyrstir til að kaupa miða á þriðju myndina. Mér þykir svo sem ekkert að því að vera í svona röð í einn dag, fræðilega séð. Ein helgi er allt of langt og hvað þá einn mánuður. Og biðinni er ekki lokið því miðarnir koma ekki út fyrr en næsta mánudag. Mér finnst nú að þessir krakkar ættu frekar að nýta tímann sinn í að fara á Nóbelsfyrirlestrana sem eru einnig á mánudaginn. fimmtudagur, desember 04, 2003
Í gær stóð ég sveitt í eldhúsinu frá sex til hálfellefu. Ég var nú aðalega sveitt af því að hlaupa fram og til baka í búðina því ég gleymdi alltaf einhverju. Í kvöld er semsagt saumó hjá Íslenskum kerlingum í stokkhólmi og við Emelía og Hrönn bjóðum í kvöld. Ég var svo rosalega dugleg, bakaði baileys-ostaköku, heitt brauð með sólþurkuðum tómötum (btw af hverju heita þeir sólþurkaðir? skiptir það einhverju máli? Af hverju ekki bara skorpinir tómatar í olíu?), fetaosti og sveppum og síðan drullukökuna hennar Emelíu. Emelía sveikst undan merkjum, var í vinnunni til hálftólf að skrifa þessa fíflagrein sem þessi hálfvitaprófessor er að neyða hana í að klára. Svo keyptum við piparkökur og hrönn ætlar að baka eitthvað líka þannig að greyin ættu að hafa eitthvað að snæða. Ef það verða afgangar getum við svo reynt að neyða þeim oní gestina í jólaglöggi íslendingafélagsins "uppsala-stokkhólmur/lífefnafræði-efnafræði: tveir heimar mætast" en það er einmitt á laugardaginn. vúhú. bara 1 dagur og 1 vika þar til við leggjum af stað heim. vúhú miðvikudagur, desember 03, 2003
Þakka hlý orð í garð nefsins míns. Legg samt áherslu á að það ER skakkt og eins og það sé brotið en svona er bara ég og það verður að hafa það. Nú eru bara 2 dagar og vika þar til við fljúgum til Köben. við hlökkum ægilega til að hitta Hlín, Bigga og Týra litla. Kanaklúbburinn hefur ekki komið saman í marga mánuði og er ekki laust við að alvarlegra fráhvarfseinkenna sé farið að gæta. Svo eru tæpar tvær vikur í að við komum til íslands og við hlökkum líka rosalega mikið til þess, að hitta alla og jólast og svona. Við hlökkum líka til að losna við helv. svíana í mánuð því þeir eru farnir að fara enn meira í skapið á okkur, þó sérstaklega mér. Helv. skríar mánudagur, desember 01, 2003
Finnbogi á afmæli í dag. Hann byrjaði afmælisdaginn í svefnsófanum okkar Emelíu og fór síðan í lúxusflug Flugleiða til Íslands. Hann var nebbla á ráðstefnu í Uppsala á fimmtudag og föstudag og var síðan í stokkhólmi um helgina. Á föstudaginn fékk hann tæpt kíló af rosagóðum bamba í mallann sinn hjá Hrönn og Georg. Aumingja Finnbogi þurfti að fara með okkur emelíu í jólaverslunarleiðangur á laugardeginum en um kvöldið horfðum við á special extended version af Two Towers. Verð að segja að ég skil ekki af hverju Peter vinur okkar Jackson valdi að klippa úr þessa kafla því þeir voru margir hverjir frekar afgerandi fyrir söguþráðinn og það hvernig maður skildi persónurnar. Eftir metnætursvefn hjá gestinum að hans sögn hittum við Hrönn og Georg á Vín og sprítsafninu í stokkhólmi og skoðuðum þar ýmislegt áhugavert. Finnbogi fylgdi svo hrönn og Georg heim til þeirra en ég fór í vinnuna :( Gesturinn skilaði sér ekki fyrr en um miðja nótt eftir strætóhremmingar. Til hamingju með afmælið, Finnbogi og takk fyrir heimsóknina. föstudagur, nóvember 28, 2003
Meira um veruleikaþætti Núna á þriðjudaginn byrjaði stöð 5 að sýna Extreme makeover þar sem 3 manneskjur sem eru óheppnar útlitslega áttu að fá ókeypis lýtaaðgerðir, "styling" og þess háttar þannig að þær yrðu mönnum bjóðandi. Ég var frekar spennt yfir þessu, og bjóst við óhamingjusömum fílamönnum og frankenstænum sem yrði síðan breytt í Brynjur X (hvar er hún annars í dag) og Ben Afflekka og fengju þá alla sína drauma uppfyllta. Í staðin var þetta bara ósköp venjulegt fólk, sem leit bara ágætlega út. Það var í raun ekkert að því og enginn ástæða til að breyta þeim neitt, kannski fyrir utan strákinn sem hafði misst 50 kg og var með lafandi húð útum allt sem hann vildi skiljanlega losna við. En allavega þau fóru í lýtaaðgerðir og eróbikk og meiri lýtaaðgerðir og hárgreiðslu og fengu tískuráðgjöf og bla bla. Á endanum litu þau öll út eins og persónur úr sápuóperu síðan 1989, fullkomin, einvíð og leiðinleg. Fy fan! eins og þeir segja hér í svíþjóð. Ein af þessum þremur fannst hún eiga ægilega bágt því hún var ekki með beint nef og þegar hún var lítil var hún oft spurð hvenær og hvernig hún hefði brotið á sér nefið, en ekki hvort. Þetta fannst henni hafa eyðilagt líf hennar og hún gat ekki verið hún sjálf vegna þess hvað hún var með skakkt nef. Það er ekki langt síðan ég fékk þessa sömu spurningu síðast og mér er alveg sama núorðið. Það fær sko enginn að segja mér að nefið á mér sé ekki nógu gott af því að það er ekki fullkomlega beint. Þetta er mitt nef og ég ætla að hafa það svona. Og frekjuskörð eru falleg. miðvikudagur, nóvember 26, 2003
Heimskulegu veruleikaþættir. Við Auður (aðallega Auður þó!) höfum aðeins verið að fylgjast með “For love or money” sem er eins og “Bachelor” þættirnir nema að í lokin verður stelpan að velja strákinn (sem var nú eiginlega kall, rúmlega þrítugur) eða eina milljón dollara. Það er meira að segja varnagli á. Þessi milljón er borguð út á 40 árum og mega keppendurnir ekki vera í sambandi. Við vorum að sjálfsögðu algjörlega vissar allan tímann að sú sem yrði fyrir valinu myndi vera svo heimsk að velja strákinn. Ég meina, það er augljóslega hin ranga ákvörðun, fólkið er búið að vera að kynnast í tvær vikur og oft innan um aðra keppinauta. Svo eru aðstæðurnar fáránlegar, æðislegar ferðir og matur sem þau munu ekkert hafa efni á að gera þegar þau reyna síðan fyrir alvöru að kynnast eftir þáttinn. Það voru samt margar stúlkur sem sögðust myndu velja peningana því þær þekktu strákinn ekkert mikið eða voru ekkert almennilega hrifnar af honum. Svo var þarna ein ung og afar heimsk sem var svo yfir sig ástfanginn. Ég verð hrikalega pirruð bara af því að hugsa um þessa stelpu, hún var svo vitlaus. Allavega, hún var sko búin að ákveða að velja strákinn. Sem betur fer valdi hann aðra stelpu í blálokin sem gerði hið rétt, valdi peningana. Við þessa einu ákvörðun styrktist trú mín á konum og fólki yfir höfuð. En sú missti svo aldeilis niðrum sig buxurnar. Þremur vikum síðar mætti hún aftur til að taka þátt í “Bachelorette” þáttum til að reyna að finna hinn rétta. Málið er að ef seinast strákurinn velur hana ekki þá tapar hún þessari einu milljón dollara sem hún vann í hinni seríunni, en ef strákurinn velur hana þá fá þau hvor sína milljónina og geta haldið áfram í sambandi. Sem betur fer þurfum við Auður ekki að eyða tímanum í að horfa á þetta, skapið verður þá líklega líka betra, því niðurstöðuna er víst hægt að finna á netinu. Strákurinn valdi sem sagt hana. Undarleg niðurstaða í þessum tveimur þáttum, akkúrat öfug miðað við það sem ég hefði giskað á. þriðjudagur, nóvember 25, 2003
Ha! Í gær fórum við hrönn á poolnámskeiðið okkar. Emelía var að lesa því hun er enn svo stressuð fyrir þessa grein sem hún er að skrifa. Það var útsláttarkeppni í 14-1 sem ég vann!!!! jei! Ég var reyndar svo heppin að ég þurfti ekki að keppa í fyrstu umferð (fjöldi keppenda var oddatala og ég gekk af) en svo átti ég að keppa við stelpu sem er laaaangbest í kúrsinum. Hún spilaði hins vegar svo hræðilega illa að ég vann hana með þó nokkrum mun og hún varð öskureið. Ég var hálfhrædd við hana og þorði eiginlega ekki að keppa í úrslitaleiknum við stelpu sem er skv. nýjustu heimildum, kærasta þeirrar laaangbestu. En ég ákvað að taka afleiðingunum, keppti og vann. Úff! Ég var hrædd um að þær myndu króa mig af í húsasundi á leiðinni heim og berja mig í klessu en í staðin skipti þessi langbesta um leður á kjuðanum mínum og kvaddi með því að segja:" sjáumst í næstu viku!" Ég er samt ekki alveg örugg um mig ennþá.... mánudagur, nóvember 24, 2003
Á föstudaginn fór ég á fyrstu doktoktorsvörnina mína og í fyrstu doktorsútskriftarveisluna. Það var rosalega gaman, bæði, en þó meira veislan. Svíar eru mjög hefðbundnir og í öllum veislum og vitaskuld var það þannig að það var raðað í sæti þannig að enginn sat hjá neinum sem hann þekkti (er þetta tvöföld neitun btw) og auðvita skiptast alltaf á strákur-stelpa-strákur-stelpa, sem er afar heimskulegt og gamaldags fyrirkomulag, sérstaklega fyrir íslenska ribbaldakonu sem hefur engan áhuga á að láta lítt gæfulegan borðsherra draga út stólinn eða hella í glasið fyrir sig. En veislan fór vel fram, með ekkert of mikið af ræðum, þó mamma doktorsins nýja sé fyrsta og eina hingað til, konan sem var yfir sænsku vísindarannsóknargeimakademíunni (man ekkert hvað það heitir) og þó að doktorinn sé af þriðju kynslóð raunvísindamanna í bæði móður- og föðurætt. Foreldrar hans voru bara hissa á hvað það hafði orðið úr stráknum með þessa stórklikkuðu foreldra og þurftu ekkert að tjá sig um hvað hann væri vel ættaður. Eftir eftirréttinn var auðvita dansað, dj-arnir voru ágætir, spiluðu ekkert of mikið af leiðinlegri sænskri evróvísjóntónlist og þeir spiluðu Justin sæta! Áttu samt ekki "Can´t get you out of my head" sem er skylduspilun á öllum diskóum. Ég var með þeim síðustu að fara eins og venjulega og var komin heim um hálf sex. miðvikudagur, nóvember 19, 2003
Nú ætla ég að segja ykkur sögur úr vinnunni. Í dag er það sagan af stúdentnum sem er að gera sérverkefni hér (6 mán). Hann þurfti að hreinsa cDNA af geli því að hann gat ekki hreinsað það öðruvísi. Það svínvirkaði svona hjá honum að hann ákvað að gera það við 24 cDNA. Þeir sem hafa unnið með hreinsun á DNA vita að það að gelhreinsa er svona síðasti opsjón og það þarf að gera það á ljósaborði sem sendir frá sér UV-geisla til að hægt sé að sjá DNA-ið. Aumingja stúdentinn stóð við UV borðið og skar og skar út DNA úr gelinu sínu. Það tók hann 20 mín til hálftíma. Hann var svo sniðugur að vera með hlífðargleraugu en á þessu labi þykir það merki um tilgerð að vera í slopp eða með hlífðargleraugu. Stuttu eftir að hann stóð þarna byrjaði hann að klæja í andlitið og um nóttina fór hann inn á slysó með 2°bruna í öllu andlitinu, nema bara rétt þar sem hlífðargleraugun voru. Hann var með blöðrur um allt sem lak úr oní augun á honum, skorpin og skældur og gat ekki brosað í marga daga. Maður átti erfitt með að hlægja ekki að honum þó maður vorkenndi honum ægilega þegar hann kom í vinnuna, skjannahvítur í kringum augun og eldrauður á enninu og fyrir neðan nef. Nú er þetta orðið sæmilegasta brúnka hjá greyjinu. hehe þriðjudagur, nóvember 18, 2003
Jólapakkar og jólakort Þau ykkar sem ætla að senda okkur jólakort (endilega sem flestir), ég var að pæla hvort það væri ekki skemmtilegast að senda jólakortin til foreldra minna í staðinn fyrir til Svíþjóðar því þá getur við skoðað jólakortin á aðfangadag. Annars ráðið þið þessu alveg sjálf, við verðum himinlifandi að fá jólakort hvert sem er. Heimilisfangið er allavega: Álfhólsvegur 10A 200 Kópavogur Ísland og það skiptir engu máli hvort þið stílið þetta á Emelíu Eiríksdóttur eða Auði Magnúsdóttur eða hvoru tveggja, þetta kemst örugglega til skila. Aðeins meira jóla. Aldrei þessu vant hefur mér nefnilega dottið nokkrar jólagjafir í hug, þ.e. handa mér (er ennþá með fáar hugmyndir handa öðrum). Ég veit nefnilega hvað fólk á oft í miklum vandræðum með að finna jólagjafir svo ég ætla að láta litla listann minn fylgja: Steikarpottur (vorum í smá vandræðum með lambalærið um daginn, en það reddaðist nú) Steikargaffal (ekki nauðsynlegt áhald svo sem en vissulega traustara en venjulegur gaffall) Steikarfat ostabox (geri nú bara eina kröfu að þetta sé loftþétt, þ.e. að lokið sitji fast) pönnukökupanna (eins og fæst á Íslandi, Svíar eiga skrítnar pönnur!) bók (alltaf vel þegið) Ég er sko ekkert að djóka með eldhúsvörurnar, ég elska að eiga eitthvað í eldhúsið. mánudagur, nóvember 17, 2003
Við erum búnar að nöldra mjög mikið yfir svíunum, það er alveg merkilegt hvað þeir geta verið óþolandi. En í síðustu viku uxu þeir heilmikið í áliti hjá mér. Rússnesk stelpa sem er að gera post-doc i hópnum mínum kynntist manni fyrir tæpu ári sem hún varð svona yfir sig ástfangin af og hann af henni. Hann var 20 árum eldri en hún, kom fram við hana eins og prinsessu og hún hafði aldrei verið ánægðari. Þau giftu sig fyrir 1 1/2 mánuði og fóru í brúðkaupsferð til ættingja hans á ítalíu (hann var Ítalskur egypti með sænskan ríkisborgararétt). Í síðustu viku fékk hann heilablóðfall og dó. Svíarnir hér í vinnunni hafa brugðist við allt öðru vísi en ég hélt. Þeir tala um dauðan sem eðlilegan hlut, hafa farið að heimsækja hana í mörgum hollum og eru leiðir yfir þessu en ekki vandræðalegir. Eru ekki að hafa áhyggjur af öllu þessu hvað er viðeigandi dæmi eins og við íslendingar heldur reyna bara að hjálpa til. Þeir eru greinilega ekki alsæmir, greyin. miðvikudagur, nóvember 12, 2003
Hrönn sendi mér þrjá athyglisverða linka inn á "íþrótta"keppnissíður: movie2, movie1, movie3. Ég vona að þetta hneyxli engan :) Annars fer ég til Gautaborgar í fyrramálið, á litla ráðstefnu með nánast öllum hópnum mínum, 18 manns, og kem aftur á laugardaginn. Ég á því von á tveimur afar köldum nóttum. þriðjudagur, nóvember 11, 2003
þá að mikilvægari hlutum. Emelía er búin að vera rosa dugleg að lesa greinar alla síðustu viku og nú um helgina en hún gaf sér samt tíma til að fara í partý á laugardagskvöldið og á MATRIX revolutions á föstudagskvöldið. Þarf ekki að taka það fram að mér fannst matrix ógeðslega spennandi og skemmtileg en Emelíu fannst reloaded skemmtilegri. Bannað að segja ljott um matrix Partýið á laugardaginn var hjá vinnufélaga Emelíu sem var 30.25 ára gamall. Partýið var ágætt, við fengum smá á tilfinninguna að við værum í Norrlands Guld auglýsingu (úti á landi s.s.) en það lagaðist þegar gestgjafinn dró fram Kalua flöskuna og Henrik, annar vinnufélagi Emelíu lét af hendi smá vodka.....mmmm....black russian... vakti upp gamlar minningar. Eða óminni... Í gær var poolkúrs þar sem ég vann stoppskotskeppni. Vúhú! fyrsta keppnin sem ég vinn, ekki bara í pool. Annars er rosa mikið að gera í vinnunni hjá okkur báðum en við reynum að halda áfram að blogga. Svo fer að styttast í að við komum heim, þannig að byrjiði að plana teitin Örlítið meira nöldur um femínista Ætla að þakka strákunum fyrir skemmtilegar umræður og Ósk fyrir hrósið (takk sæta :). Vissi vel að þeir væru ósammála mér, þeir eru það yfirleitt. Merkilegt hvað ég kann samt vel við þá...... Ég endurtek að ég er ekki alveg inn í umræðunni heima af því að ég er í útlegð hér í Stokkhólmi en af því að dæma sem stendur á batman.is um feminist free og á vef femínistafélags Íslands get ég bara ekki séð að það sem þær eru að gera sé svo brjálæðislega hættulegt. Aðför þeirra að tjáningarfrelsinu felst í að reyna að fá fjölmiðla (útvarpsstöðvar, vefsíður) til að draga upp sannari og réttari mynd af konum (og plís, strákar, ekki segja mér að þögn um allar konur nema þær sem eru berrassaðar sé það sem þið teljið vera rétta mynd). Að mínu mati er þetta í eitt af þeim fáu skiptum sem félagið er í raun að berjast fyrir því sem bætir stöðu kvenna og ímynd þeirra, í staðin fyrir að einbeita sér að málum sem hafa ekkert með jafnrétti að gera eins og að loka strippstöðum, minka kröfur um stærðfræði í verkfræðideild HÍ, kvenkenna orð eins og ráðherra, forseti og Guð og þaðan af fáránlegri atriði. Það er því miður þannig að okkur finnst öllum að konur geti ekki eins mikið eða vel og karlmenn af því að okkur hefur verið kennt það frá því við fæddumst. Rannsókn eftir rannsókn hefur sýnt að ef fólk (karlar og konur) telur að manneskjan bak við eitthvert verk sé karlmaður, líkar því betur við verkið og tekur meira mark á því en ef því er sagt að höfundurinn sé kona (dæmi eru málverk og greinar um uppeldismál). Við breytum þessu viðhorfi okkar, sem ég held að flestir séu sammála um að er ekki rétt, ekki með því að kenna ungum karlmönnum að konur séu þeim óæðri og helst nothæfar í kynlíf. Og þess vegna er ég ekki hlynnt þessu svokallaða feminis free. laugardagur, nóvember 08, 2003
Enn einu sinni um feminísta Klám er gott. Eða erótík ef fólki líður betur með það orð. Sögur, myndir eða myndbönd af öðru fólki að stunda kynlíf geta gert sömu gömlu rútínurnar spennandi á ný, hvort sem maður stundar kynlíf einn eða með öðrum. Ætli það megi ekki líkja klámi svolítið við skyndibitastað; fljótt, einfalt og svalar þeim þörfum sem maður hefur án dýptarinnar,°blæbrigðanna og fjölbreytileikans. Því miður eru karlmenn nánast einu neytendur kláms og því mótast margt klámefni af því sem karlmenn geta fellt sig við og það fer ekki alltaf saman við það sem konum líkar. Og jú, klámefni hlutgerir konur en það hlutgerir líka karlmenn. Hugmyndin er ekki að kynnast því hvaða áhugamál Sílíkon Cherry hefur fyrir utan að málmsjóða nakin í gönguskóm og með svuntu og alls ekki að vita neitt um yfirskeggjaða Taktfasta Tomma annað en að hann þekkir Sílikon Cherry. Af hverju femínistar eru svona mikið á móti þeim skötuhjúum í kláminu skil ég ekki. En Taktfasti Tommi og Sílikon Cherry hafa verið að færa út kvíarnar. Eða að minnsta kosti Cherry. Hún er farin að birtast í flestum popptónlistarmyndböndum, auglýsingum, skemmtiþáttum, umræðuþáttum o.fl. Þar strýkur hún nautnafullt um mjaðmirnar, eins og hún kann best og tilkynnir að varan x sé best í heimi spurningamerki, segir skoðun einhvers annars eða flissar og les eitthvað upp úr handriti sem hæfir greind hennar. Freknótta Fía, feita vinkona Cherry með gleraugun og háskólaprófið er heilinn á bak við auglýsinguna/þáttinn/textann en af því að markaðsdeildinni finnst hún ekki höfða nóg til markhópsins er hún geymd baksviðs og markhópurinn fær aldrei að vita að feitar konur eru líka áhugaverðar. Markaðsdeildin breytir handritinu hennar Fíu aðeins þannig að hnittnu og gáfulegu setningarnar sem Fía ætlaði Sílikon Cherry eru færðar yfir á Taktfasta Tomma eða Freknótta Fúsa. Markhópnum líkar nefnilega betur við heimskar fallegar konur en ljótar gáfaðar konur. Og allir vita að gáfaðar og fallegar konur eru ekki til. Femínistar eru á móti Sílikon Cherry í þessu hlutverki líka og það er vel skiljanlegt. Hún styrkir þá hugmynd sem fólk, konur og karlar, hefur fyrir af konum; þær gleðja augað en eru voða vitlaus grey og geta ekki bjargað sér án aðstoðar. Femínistar hafa það að markmiði að koma á jafnrétti milli kynjana og því verður ekki náð með stöðugum skilaboðum um að konur séu ekki nógu klárar/duglegar/flinkar/merkilegar, nema í einhverskonar kynferðislegu sambandi. Til að breyta steríótýpunni verður að breyta skilaboðunum sem markhópurinn/samfélagið fær um hana. Það að femínistar gagnrýni fyrirtæki fyrir að beyta Sílikon Cherry í sínum auglýsingaherferðum eða fyrir að styðja miðla sem nota hana sem hina dæmigerðu konu hefur ekkert með málfrelsi að gera. Femínstar eiga að benda á hvað við getum gert til að rétta ímynd kvenna og hvenær við erum að styrkja Sílíkon Cherry sem táknmynd þeirra. Þeir eiga ekki að standa hljóðir hjá þegar miðlar sem eru mest notaðir af ungum karlmönnum hamra á því að hlutverk kvenna sé að veita kynsvölun, annars séu þær ósköp gagnlitlar, eiginlega bara til trafala. Svona skilaboð hafa áhrif og það er nákvæmlega ekkert athugavert við að gagnrýna þá sem standa fyrir því að koma þeim áfram. Skerðing á mál/rit/tjáningarfrelsi væri að banna þessum miðlum að koma þessari skoðun sinni á framfæri. Gagnrýni á þá fyrir að gera það af því að rýnandanum finnst skoðunin röng og skilaboðin skaðleg eru heilbrigð skoðanaskipti. Ég vona að þið hugsið ykkur vel um áður en þið setjið feminist free merkið á síðuna hjá ykkur, sem mér skilst að eigi að lýsa frati á femínista fyrir áðurnefnda gagnrýni. Finnst ykkur virkilega í lagi að Sílikon Cherry sé táknmynd kvenna sem eitthvað vægi hafa? Finnst ykkur virkilega að skilaboðin um að konur séu brúklegar til kynlífs en lítlisgildar annars séu rétt? Finnst ykkur virkilega að þeir sem mótmæla því séu í raun á móti málfrelsi? Annars eru sögulok þau að Taktfasti Tommi varð þreyttur á flissinu í Sílikon Cherry og gerðist vitavörður á e-ju annnesi. Freknótti Fúsi hjálpaði Sílikon Cherry að finna sjláfa sig og nú er hún fóstra í Árbænum. Freknótta Fía skrifar enn handrit fyrir sjónvarp, fær enn minna borgað en karlkynsstarfsfélagar hennar, er enn í skugganum af stjörnu þáttarins, Lauslátu Láru, er enn á lausu og er enn sú af fjórmenningunum sem er nýtur lífsins best. föstudagur, nóvember 07, 2003
Commentakerfið okkar á soldið bágt núna. Geimverur átu nokkra broskallana og hinir flýðu af hræðslu. Ingimundur er að reyna að lokka þá til baka með kartöflum (það besta sem þeir vita um, taktu þá þér til fyrirmyndar Auður) en óvíst er að þeir sýni mismunandi svipbrigði fyrr en eftir nokkra daga, þegar þeir eru búnir að jafna sig. Þangað til verðið þið að láta ykkur nægja þessa gamaldags: :) :Þ :D :O o.s.frv. Við erum líka að fara á nýjustu Matrix á eftir! Þetta er svo tæknó hérna í Stokkhólmi að maður pantar bara bíómiðana í gegnum netið, auðvitað er enn betra að borga þá líka svo maður þurfi ekki að sækja þá klukkutíma fyrr. Allavega, það gerði ég áðan, kannaði vel og vandlega hvort ég hefði pantað fyrir tvo og bara borgað fyrir tvo og hvort þetta væru rétt sæti, svo ýtti ég á "borga". Að sjálfsögðu klikkaði ég á að kíkja á sýningartímann. Við Auður erum sem sagt á leiðinni rúmlega 18 en ætluðum rúmlega 21 eftir pool og svoleiðis. Þetta er náttúrulega ekkert verra :) Seinasta laugardag horfðum við á fótbolta, þriðja fótboltaleikinn okkar í kvennadeildinni hérna. Þó að þetta væri stórleikur, bikarleikur, þá var nú ástæðan sú að við héldum með öðru liðinu (Malmö) því Ásthildur Helgadóttir landsliðsfyrirliði Íslands var að spila með Malmö. Íþróttaþularnir héldu hreinlega ekki vatni né vindi yfir henni, auðvitað. Sögðu oft "hin íslenska...." og "Helgadóttir" (alltaf jafn skrítið að heyra bara eftirnafn Íslendinga) en sem betur fer létu þeir vera að segja Ásthildur og sögðu bara Ásta. Í þessum þremur leikjum náðum við að sjá þrjú lið spila gegn hverju öðru og erum því ekki einu sinni vissar um að það séu fleiri lið. Fyrir utan það að ég veit að þessi lið eru þrjú bestu þá er ég nokkuð viss um að hin geta ekki mikið því nánast, ef ekki, allar landsliðskonur Svía eru í þessum þremur. Og það skemmtilega við þetta allt saman (þó að Ásthildur hafi tapað báðum leikjunum) var að leikirnir voru hraðir og spennandi, meira að segja Auði minni (sem er ekki fótboltafan) hafði orð á leikni stúlknanna. fimmtudagur, nóvember 06, 2003
Í seinustu viku gerðist tvennt nýtt; ég eldaði hangikjöt og við fengum hótun. Ég eldaði sem sagt mitt fyrsta hangikjöt, hangikjötið sem ömmur Auðar og mamma komu með, 1.4 kíló. Þetta var létt verk þar sem allar upplýsingar voru utaná, eins gott fyrir nýtímamanninn. Þyngdin hefði svo sem getað sagt okkur hálfa söguna því það tók okkur 6 daga að klára kjötið þó að við borðuðum það tvisvar í kvöldmat og færum þrisvar með það í vinnuna. Kjötið var samt rosalega gott, söknuðum smá Orabaunanna, en erum soldið fegnar að fá ekki hangikjöt næst fyrr en um jólin. Svo fengum við hótun frá rafmagnsveitunni, eða einhverri rafmagnsveitu; ef við myndum ekki borga þá myndu þeir taka rafmagnið af íbúðinni innan fimm daga og til að setja það aftur á þyrftum við að borga 7500 ÍSL. Okkur skilst að það séu fleiri en ein rafmagnsveita og að maður eigi að skrá sig hjá einhverri þegar maður flytur í nýtt húsnæði. Að sjálfsögðu var enginn svo hjálpsamur í byrjun að benda okkur á það (ekki einu sinni þeir sem við leigðum frá) og höfum við því ekki borgað neinn rafmagnsreikning í rúmt ár!!! Það stendur í leigusamningnum að rafmagn sé ekki innifalið en þegar leið og beið og aldrei kom reikningur vorum við nú á þeirri skoðun að það væri kannski bara rangt. Ég meina, hvers konar fyrirkomulag er þetta eiginlega hérna, af hverju í ósköpunum er ekki gert neitt í neinu fyrr en ári síðar þegar fólk notar einhverja þjónustu. Auður mín reddaði þessu, hringdi í fíflin og fáum við reikning bráðlega, við erum smá smeykar að hann verði 50 þús ÍSL því Svíarnir væla þessir ósköp yfir háu verði á rafmagni. Og svo ein ammæliskveðja til Gilla boy sem varð 28 ára seinasta þriðjudag, hlökkum mikið til að hitta þig :) þriðjudagur, nóvember 04, 2003
Nú er ég búin að vera að kenna í tvo daga, það gengur ágætlega þó ég hafi verið stressuð fyrir. Það er alveg rétt það sem einn doktorsneminn hér segir: Það er sama hversu vitlaus manni finnst maður sjálfur vera, það er á hreinu að nemendurnir eru enn vitlausari." Á sunnudaginn elduðum við lambalæri frá íslandi og Hrönn og Georg komu í mat. Lærið var bara mjög fínt þó það hefði þurft næstum því tvöfalt meiri tíma en ég hafði ætlað því. Við horfðum líka á hina ofurlélegu Color of Money með Tom Cruse og Paul Newton. Það gerðist eiginlega ekkert í henni og okkur fannst ekki nóg af skemmtilegum billjardatriðum í henni, en þau voru náttúrulega ástæðan fyrir því að við tókum myndina. Það var eiginlega bara skemmtilegra að horfa á heimsmeistarakeppnina í nineball um daginn. Annars hefur lítið gerst hjá okkur, ég fór með vinnunni minni að borða á föstudaginn. Strákur í hópnum sem er að fara að verja doktorsritgerðina sína e. 3 vikur var með svokallað "Spika" sem er kannski hægt að þýða sem negling. Þá dreifir hann doktorsritgerðinni út um allar trissur svo fólk geti lesið hana gaumgæfilega áður en það kemur á vörnina hjá honum. Í gamla daga var það þannig að þú gerðir auðvita bara örfá eintök af ritgerðinni þinni og eitt þeirra var neglt (sænska; spikat) á hliðarstólpa e.þ.u.l. við háskólann og þar gat fólk lesið ritgerðina. Það var sumsé verið að fagna því og því að stelpa í hópnum er búin að leysa strúktúr á nokkrum próteinum. jei. Á laugardaginn fórum við emelía svo í pool og tókum Matrix reloaded um kvöldið (mér er sama hvað þið segið, hún er víst góð) á DVD í tölvunni okkar. Sunnudagurinn fór svo í tiltekt og matarundirbúining. æja, er farin í pool Nú hefur Týri litli opnað síðu á barnalandi. Þið getið smellt hérna eða á linkinn sem er undir "Grýslingar" í dálknum hérna til vinstri fimmtudagur, október 30, 2003
miðvikudagur, október 29, 2003
Georg Stokkhólmsbúi á afmæli í dag. Við óskum honum innilega til hamingju og þökkum fyrir ammlimatinn á sunnudaginn. Undur og stórmerki gerðust seinasta föstudag. Herbergisfélagar mínir eru þrír eistar (einn tímabundinn herbergisfélagi en varanlega kvenmaður) og einn kínverji. Annar eistanna er örlítið mislyndur (að mínu mati allavega) en var í svona líka hörkuskapi á föstudaginn að honum datt í hug að við færum nokkur úr vinnunni á bíó. Hann meira að segja ávarpaði okkur stelpurnar sem "fallegar", svo mikið var honum í mun að fá okkur með. Ég hafði nú engan áhuga á þeirra mynd og sagðist koma með ef þau færu á nýju myndina með Catharine Zeta og George Clooney. Sú varð raunin, ég fékk að ráða og varð þá auðvitað að fara, fékk meira að segja Auði með mér. Myndin var allt í lagi, mjög góðir punktar inn á milli. Eftirá var síðan rölt á krá til að fá sér öl. Við þurftum að rölta heilmikið því flestar krárnar voru stútfullar og við allt of mörg en því fjær sem maður fór frá miðbænum því meiri voru líkurnar. Ég lærði fullt af sænsku, var alltaf að spyrja um eitthvað, greinilega of mikið því Auður var farin að segja mér að hætta :) Á laugardeginum var heldur betur þvottadagur, við þvoðum 6 vélar enda áttum við enga flotta sokka orðið eftir. Svo var vinnupartý; ein (eistnesk, kemur ekki svo mikið á óvart) sem var að hætta í einum hóp í deildinni okkar og byrja í okkar hóp og það góða við þetta allt saman er að hún býr í Fruängen, skammt frá okkur. Við Auður ákváðum að vera heldur betur gáfaðar og drekkar svokallað mellanöl sem er einungis 3.5 % og fæst í venjulegum búðum, tókum meira að segja bara fjóra bjóra á mann. Það skiptir greinilega engu máli hversu háar hugmyndir maður hefur áður en maður fer í partý því þarna var skálað í eistneskum líkjör (Vana Tallin, 40%) í kampavíni sem var btw helvíti gott saman en frekar vont í sitthvoru lagi. Partýhaldarar í Stokkhólmi láta fólk vanalega hafa kort og leiðbeiningar sem eru idiotproof. Við Auður þorðum náttúrulega ekki að fara útaf leiðinni sem var búið að teikna inn á kortið (því við höfum ekki labbað í þessa átt!) og fórum þá í raun löngu leiðina sem var út okkar götu og inn næstu götu. Um nóttina á leiðinni heim datt mér því í hug að fara stuttu leiðina, sem var nokkurn veginn bara bein, og enduðum við á að þurfa að klöngrast upp bratta grasbrekku með köku í hendinni. Úlpan mín varð öll út í köku (fengum nefnilega nesti) og Auður datt í brekkunni :) Daginn eftir þegar ég fer inn í eldhús þá sé ég að það er harðfiskur út um allt borð og spyr Auði hvort það var ég eða hún sem fékk sér harðfisk. "Þú" svarar hún og þegar ég fer aftur upp í rúm finn ég krukku með harðfiskbitum í sem er einmitt týpískt fyrir mig að gera. Eftir smá stund dregur Auður svo lok undan bakinu, lokið af harðfiskdollunni og hafði hún sofið á því alla nóttina, enda var farið (hringur) sjáanlegt enn kl. 17 um kvöldið. Mynd af farinu legg ég til á myndasíðuna okkar þegar við framköllum filmuna. Versta við þennan dag var að til þess að komast til Hrannar og Georgs þá þurftum við að taka tunnelbana. Tunnelbana getur einfaldlega aldrei látið mér líða betur en áður en ég stíg í hana og skiptir þá engu máli hvernig mér leið áður. Georg bauð okkur sem sagt í afmælismat ásamt Gauta (frænda Mumma) og Kjartans vinar Gauta. Við Auður gáfum honum voða flotta skyrtu til daglegra nota og svartan stuttermabol. Auður valdi skyrtuna en það var ekki fyrr en Georg var kominn í hana sem ég varð fullkomlega sátt við hana, það er bara einfalt, Georg prýðir skyrtuna! Við fengum rosalega góðar steikur, bæði hjört og dádýr en hvorugt hafði ég smakkað fyrr. Einu villtu dýrin af þessu taki sem ég (við, leyfi ég mér að fullyrða) hef borðað eru þá þessi tvö og elgur og allt hefur Georg kynnt okkur fyrir. mánudagur, október 27, 2003
Byddí brjál átti afmæli í gær, vííííííí, og er því 27 núna. Til hamingju gamla! Á mánudaginn seinasta mölluðum við Hrönn poolbolta, þ.e. bjuggum til polymeruna sem boltinn samanstendur af. Þetta varð ekkert sérstaklega líkt poolbolta, bleikt og laust í sér en hart var það. Við ákváðum að ánafna þessu TRIQ, sem er félag sem kennararnir okkar eiga, í næsta tíma (í kvöld), vera algjörar kennarasleikjur. Við fengum reyndar það verkefni að kanna úr hverju billjardboltar væru því við mótmæltum eitthvað þegar þeir sögðu að þetta væri úr phenól, við sögðum að það hlyti að vera eitthvað meira. Fyrir þau ykkar sem viljið búa til billjardbolta þá er uppskriftin hér. Svíar eru voðalega jólalegir. Í byrjun október komu fyrstu auglýsingarnar um jólahlaðborðin og í seinustu viku kom julmust (sumir segja að það líkist malti en okkur þykir það hundvont) í búðina okkar. miðvikudagur, október 22, 2003
Í gær gleymdi ég kjuðanum mínum í lestinni. Hann sat ægilega stilltur á milli okkar emelíu og lét ekki frá sér bofs þegar ég fór út án hans. Ég var auðvitað niðurbrotin þegar ég fattaði þetta, kjuðinn minn er svo æðilsegur. Hringdi í lestarfyrirtækið og fyllti út eyðublað á netinu hjá tapað-fundið deild fyrirtækisins. Var í öngum mínum allan daginn, skammaði bakteríurnar, sparkaði geðvonskulega í tækin og gaf vinnufélögunum illt auga. Svo um fimmleitið fékk ég bréf frá tapað-fundið: kjuðinn minn var ekki tapaður heldur fundinn!!! Ég flýtti mér auðvita að sækja hann ásamt Emelíu og Hrönn. Kjuðinn var rosa glaður að sjá mig og ég held að hann hafi fyrirgefið mér strax því hann stóð sig ágætlega um kvöldið. En eftir þetta hef ég afsalað mér mínum rétti til sjálfsæðrar hugsunar, ábyrgðar og ákvaraðanatöku yfir til Emelíu. Hún samdi því þetta ljóð fyrir mína hönd um það hvernig mér leið að hafa týnt kjuðanum mínum. Það heitir Stuð býr í Guði, elsku kjuði og er innblásið af tveimur textabrotum Megasar, "....Guð býr í gaddavírnum, amma..." og "....þó að þú gleymir Guði, þá gleymir guð ekki þér.." Stuð býr í Guði, elsku kjuði Í morgun var ég í stuði elsku kjuði svo lentirðu í miklum hremmingum og ég hélt þú værir hjá Guði En svo varstu ekki hjá Guði elsku kjuði og því er ég aftur í stuði Nú er kominn vetur hjá okkur, það snjóaði fullt í nótt og smá í morgun. Ég hef hann reyndar grunaðan um að hafa komið í bæinn fyrir tveimur vikum, það er sko búinn að vera skítakuldi hérna, en það er fyrst núna sem hann er sjánalegur. En það er bara gaman að því, allavega var afar fallegt veður í Stokkhólmi seinasta vetur. þriðjudagur, október 21, 2003
Á sunnudeginum var bara að kveðja gestina. Amma í Sandvík var alveg óð í að kaupa sér hnökrabanann eftir feyknarsýningu hjá mér á föstudaginn, enda ekkert venjulegt tæki. Ég stökk því í búð búðanna (Åliéns) og var gestur númer fjögur, það gerist varla nörralegra en að bíða í röð fyrir utan einhverja svona búð. Fyrir þau ykkar sem eruð spennt fyrir bananum þá er nóg eftir í Åliéns :) Þar sem við vorum komnar í bæinn á hreint ótrúlegum tíma, snemma á sunnudagsmorgni, þá gengum við smá um og náði ég að plata Auði inn í Duka. Henni finnst ekkert mikið skemmtilegra að hanga í Duka en í ótrúlegu búðinni; maður á bara að fara inn í búðir til að kaupa það sem maður hefur í huga, ekki að hanga í þeim að óþörfu bara til að skoða :) Allavega, ég held barasta að ég hafi fundið tilvonandi sparidiskastellið mitt í Duka; hvítur diskur, aðeins stærri en venjulegir matardiskar, frekar grunnur og með svona 8 mm silfurrönd með kantinum, heitir Frederik. Og það góða við þetta allt saman var að Auður var sammála mér, enda ekta diskar til að bera fram fallegan mat því hann nýtur sín svo vel með hvítan bakgrunn. Merkisdagur í dag, allavega fyrir Brynjar Daða sem er 102 ára skv. afmælisdagakerfinu okkar. Til hamingju litli kútur! Á laugardaginn bakaði ég bollur í morgunmat, alltaf verið að reyna að koma sér í mjúkinn :) Við yngri stelpurnar fórum aðeins í “bæinn”, þ.e. í Fruängen centrum. Að sjálfsögðu nýtti ég tækifærið og skoðaði í ótrúlegu búðinni, fann að vanda fullt af skemmtilegu dóti og keypti nokkra snaga (eðlur í mismunandi lit) með sogskálum fyrir handklæði inn á baði (auðvelt að færa þegar við fáum smáfólk í heimsókn) og þessa glæsilegu, grænu regnhlíf því ætlunin var að skila regnhlífinni sem seinustu gestir gleymdu. Svo fórum við í alvöru bæinn því hinar ætluðu að bjóða okkur í mat. Það voru smá dropar og því allir með regnhlífar. Alllir voru svo fínir, sem þýðir að ég var sko ekki með bakpokann minn heldur svörtu handtöskuna mína og geymdi því regnhlífina í skauti mér, undir töskunni. Svo dettur mér það snjallræði í hug að skjótast út og henda tyggjóinu mínu áður en lestin fer, er auðvitað löngu búin að gleyma renghlífinnni sem ég sé allt í einu þjóta á gólfið, renna akkúrat að opinu milli lestarinnar og brautarpallsins (ca 10 cm), nákvæmlega langsum eins og opið, og detta ofaní. Ég var að vonum afar svekkt enda einungis þriggja klukkustunda gömul regnhlíf í minni eigu. Manni dettur auðvitað ekki hug fyrir sitt litla líf að reyna að að ná einhverju sem dettur þarna á milli, nema þá helst þegar lestin er farin en það stóð ekki til boða því við ætluðum með þessari lest. Ég varð því að láta mér nægja að horfa smá stund á hana og setjast svo. Við löbbuðum aðeins um bæinn til að drepa tímann og sáum fullt nýtt, vorum nefnilega með nýju túristabókina okkar með. Maturinn var alveg yndislegur á flottum veitingastað með skemmtilegum konum. Allir drifu sig svo heim til að spila, seinasti sjéns gestanna til að vinna, sem og varð raunina; Anna Kristín sagði þennan líka rosalega kana í næstsíðasta spili sem gerði útaf við þetta. Sé ekkert eftir að tapa fyrir svona leikmanni :) mánudagur, október 20, 2003
Nú hefur ýmislegt hent og reyndar sumt ekki. Á föstudaginn létum við Auður loksins verða að því að reyna að fá mér sænskt ID kort og leysa út ávísunina frá sænska skattinu. Já, ég fékk soltla upphæð til baka frá skattinum fyrir einum og hálfum mánuði því ég borgaði skatt í desember á seinasta ári. Það sem var samt furðulegt við þetta var að ég fékk meira til baka en ég borgaði og fór það eftir því hversu lengi maður hafði búið í Svíþjóð á seinasta ári, hlómar svona eins og persónuafsláttur á Íslandi. Að sjálfsögðu fórum við í næsta banka en þar sem ég var ekki í viðskiptum við þá þá átti að kosta 75 SEK (750 ÍSL) að skipta ávísuninni. Halló!!! Og ekki gat ég heldur fengið ID kort af sömu ástæðu. Ég blótaði sæska kerfinu á íslensku og fór auðvitað út. Eitthvað virtist bankastarfsmaðurinn hafa skilið því hann fór eitthvað að babbla að víst væru þeir vondir! Við drifum okkur þá í banka sem ég var í viðskiptum við og byrjuðum á því að bíða í hálftíma. Svo komst ég að því að ég er ekkert viðskiptavinur bankans, fékk bara einu sinni launin mín borguð inná reikning hjá Háskólanum hjá þessum banka. Ég slapp þó við að borga gjaldið fyrir að skipta ávísuninni, kellingin (sem var hundleiðinleg btw) vorkenndi mér greinilega. Í þessum banka er gjaldið bara 40 SEK!!! Afar einkennilegt að það sé mismunandi gjald. En ID kortið fékk ég heldur ekki þarna. Kellurnar (mömmuna og ömmurnar) fóru í bæinn til að skoða Stadshuset (ráðhúsið) en töfðust svo ógurlega í útifatamarkaðnum hjá Indverjunum í Fruängen centrum að þær misstu af lóðsuðum ferðum um ráðhúsið. Á einni lestarstöðinni voru þær stoppaðar af konu með blindrastaf sem spurði þær til vegar en ekki tókst betur upp hjá þeim en svo að á endanum þurftu þær að fylgja konunni eftir til að þær sjálfar kæmust rétta leið :) Þær voru dauðþreyttar þegar við hittum þær og notuðu seinustu orkuna til að leita að sallatskál og tveimur minni og sallatáhöldum til að gefa okkur, alveg hrikalega flott. Eftir það fórum við beint heim og elduðum bixímat úr afgangnum frá deginum áður og var aftur afgangur. Að sjálfsögðu var aftur tekinn kani og vann Auður húsfreyja í þetta sinn, með miklum yfirburðum. föstudagur, október 17, 2003
Ég held að samband kóngulóa og Emelíu sé ávallt að skána. Dr. Phil (ekki sálinn minn heldur sjónvarpskall) segir að þetta komi allt saman með tímanum og maður verði að byrja á því kannski að horfa á það sem maður er hræddur við í sjónvarpinu og svo í raunveruleikanum og svo að prófa það. Ég hef aldrei verið hrædd við að horfa á kóngulær í sjónvarpinu og hef yfirleitt getað virt þær fyrir mér en að hafa þær of nálægt mér hefur bara verið mér um megn en það er einmitt sá partur sem er að skána hjá mér. Þrátt fyrir það þá er ég alls ekki sátt við að þær laumi sér í handklæðið mitt og hangi neðan úr því þegar ég ætla að þurrka mér um hendurnar. Ég skil ekki einu sinni hvernig kvikindið komst alla þessa leið. Verst var auðvitað að þetta hefði getað leitt til að ég missti af nokkrum sekúndum af CSI og þá hefði ég sko ekki veigrað mér við að aflífa hana en eins og vanalega kallaði ég á Auði og bað hana að fjarlægja villidýrið. Gestirnir okkar komu í gær: Anna Kristín (mamma Auðar), Hrefna (amma Auðar í föðurætt) og Auður (já, rétt getið hjá ykkur, amma Auðar í móðurætt). Auður labbaði með þær smá hring um miðbæinn áður en hún hleypti þeim heim og á meðan við elduðum lognuðust þær allar útaf. Auður var heldur betur rausnarleg í eldamennskunni, ég er viss um að við hefðum meira að segja getað boðið þremur karlmönnum í mat til viðbótar og það hefði hugsanlega verið örlítill afgangur. Það er því steik í morgunmat hjá mér og hádegismat :) Sméagol lækí ðís gestí því þeir voru til í að spila kana við okkur og voru heldur betur kaldir í sögnunum. En svo fór sem ekki á horfðist að ég vann, tók þær á seinustu tveimur spilunum. Ég vona samt að þær vilji hefna ófaranna í kvöld. fimmtudagur, október 16, 2003
Ávaxtakarfan Hér í vinnunni hjá mér hefur mikið gengið á sl. tvo mánuði þar sem hópuinn stækkaði tvöfalt á mjög stuttum tíma. Auðvita fór allt í kaos í smátíma, allar vörur kláruðust, öll tæki voru upptekin, glervaran var alltaf skítug og engir pípettuoddar voru átóklaveraðir. Eitt af stóru áhyggjuefnunum var þó að ávaxtakarfan sem yfirmaðurinn kaupir einu sinni í viku handa starfsmönnum var búin eftir 2 daga og við þurftum að þrauka 3 heila vinnudaga án c-vítamíns. Það var mikið rætt um þetta vandamál í kaffi- og matartímum þar sem allir þurftu að segja sína skoðun á málinu og hvernig þeim liði vegna þessa vandamáls, allt á sænska vísu. Verst fór þetta í tvær konur á fimmtugsaldri sem eru fastir starfsmenn hópsins og vinna við að mata róbóta og svoleiðis. Eftir miklar umræður komust þær að niðurstöðu: það verður að panta 2 ávaxtakörfur á viku og hver má bara fá 2 ávexti á dag. Nú hefur ástandið skánað, glervörunni hefur fjölgað, hópurinn er farin að panta meira af vörum og bókunarlistar frá helvíti eru við allan sameiginlegan útbúnað, nema klósettin, kannski. Ávaxtakörfurnar eru tvær og duga alla vikuna, guði sé lof! Svíarnir eru samt órólegir yfir ávaxtakörfunni og fimtugu konurnar tvær fylgjast með því haukfráum augum hvað hver fær sér marga ávexti. Um daginn var Sue-Li sem byrjaði sem doktorsnemi um leið og ég skömmuð því hún fékk sér þrjá ávexti fyrir hádegi. Svona er þetta í svíþjóð og eins gott að passa sig. þriðjudagur, október 14, 2003
mánudagur, október 13, 2003
Á föstudaginn vorum við bara rólegar og leigðum okkur spólu eftir smá pool. Við tókum "Catch me if you can" og fattaði ég ekki fyrr en við vorum komnar út að hann þarna sem ég þoli hreinlega ekki, Leonardo DiCaprio, var í aðalhlutverki. Ég ákvað samt að reyna að horfa á myndina fyrst ég borgaði fyrir hana og varð bæði og fyrir vonbrigðum. Ég varð hissa á því að strákskrattinn var bara drullugóður í myndinni og var það frekar erfiður biti að kyngja, sem sagt mikil vonbrigði að hann var ekki ömurlegur eins og ég hélt. Við mælum báðar eindregið með myndinni. Að sjálfsögðu fórum við í pool á laugardaginn, ásamt Hrönn. Við gerum nú fátt annað en að spila pool :) Svo hittum við djammvinkonur okkar, Eweline og Mia, á nýjum gaybar. Ég var staðráðin í að fara heim um hálfellefu, m.a. af því að við vorum með videospoluna á okkur (gleymdum að skila henni), en það endaði sko á allt annan veg, bjórinn var bara svo kaldur! Ég held að við höfum ekki sofið eins mikið í margar vikur eins og í gær. Vöknuðum samt nógu snemma til að dröslast út í búð og kaupa okkur mars og mjólk, og snakk fyrir fótboltaleikinn. Leikurinn var hörkuspennandi. Eru ekki allir með á nótunum annars að Svíþjóð og Þýskaland kepptu í gær um heimsmeistaratitilinn í fótbolta kvenna!!!! Ég hélt alveg einlægt með Svíum og Auður fagnaði líka þeirra marki en átti það svo til að skipta yfir á aðrar stöðvar, hvað stöð sem var að mér virtist. Þjóðverjar jöfnuðu og unnu svo með gullmarki í framlengunni. Ég fæ ennþá smá í magann þegar ég hugsa um þennan leik, við vorum alveg að fara yfirum af spenningi og því miður töpuðu Svíar, að sjálfsögðu með dómaraskandal :) fimmtudagur, október 09, 2003
Setti inn allar þrjár myndirnar, sem mér hafa borist (Hlín sendi mér), úr gæsuninni hennar Siggu. Sigga, þú manst að þú ætlaðir að senda mér fullt af myndum :) Á þriðjudaginn dissuðum við Unni Maríu (rétt rúmlega eins árs) fyrir að skrá sig ekki í afmælisdagaáminnarann okkar. Það sem við vissum ekki þá en erum núna orðnar öllu vitrari um, er að það er aldurstakmark eins og Byddí benti okkur góðfúslega á. Maður þarf sem sagt að vera orðinn 13 ára til að geta skráð sig í þessu drasli, annars fær maður meldinguna: "Sorry, you must be at least 13 years old to use this service. The US Children's Online Privacy Protection Act requires prior Verifiable Parental Consent before collection of personal information from children.". Þetta er smá snúið mál fyrir okkur Auði þar sem við þekkjum orðið svo marga sem eru undir þessum lögaldri svo við hvetjum alla foreldrana til að senda inn sitt samþykki til þessarar stofnunar í Bandaríkjunum því guð forði okkur frá því að falsa upplýsingar um þessi saklausu fórnarlömb til þess eins að geta verið með í afmælisdagabókinni okkar :) miðvikudagur, október 08, 2003
Við Auður erum búnar að fatta leyndardóma kvenna sem ganga með blæjur. Við höldum sem sagt að þær séu allar svo skeggjaðar að það sé engin leið að koma þeim út nema að hylja vanskapnaðinn. Að öllum líkindum liggur sama ástæða að baki því að þær hylja nánast alla restina af líkamanum. (Úff, eins gott að við þekkjum enga sem bera blæju). Pabbi minn á afmæli í dag, hann er alveg fimmtíu ára. Til hamingju elsku pabbi, við vonum að gjöfin nái að ylja þér að innan sem utan. Það er alveg heillangt síðan (3 vikur ábyggilega) að Auður fékk miða inn um lúguna sem sagði að hún ætti pakka í matvörubúðinni okkar (sem sér um póstinn!!!). Ég fattaði ekkert og var soldið hissa en Auður vissi strax að þetta væri afmælispakki frá pabba hennar og Heiðrúnu. Ég varð síðan steinhissa þegar við opnuðum kassann því þar var ekki bara ammælisgjöf handa Auði heldur líka handa mér. Við fengum báðar bækur og sokka. Auður er byrjuð á sinni en ég get bara lesið eina bók í einu og tækla þessa þegar ég er búin með Harry Potter 3 á sænsku. Takk ofsalega mikið tilvonandi tengdapabbi (eins og skrifað var í ammæliskortið :) ) og Heiðrún. þriðjudagur, október 07, 2003
Jamm. Og reply adressan í nýja pósthólfinu mínu var vitlaus. Er búin að laga það. Adressan mín er audur@dbb.su.se Svona fer fyrir þeim sem gleyma að setja nafnið sitt í afmælisáminnarann okkar. Hún Unnur María átti afmæli 4. okt og fékk enga kveðju á blogginu. Ussussuss. en við óskum henni innilega til hamingju með að vera 1 árs og 3ja daga í dag og hlökkum til að hitta hana um Jólin. Gagnkynhneigðar konur Við höfum fengið að sjá nokkra Bachelorþætti hér, sænska, norska og bandaríska. Eftir það gláp var ég orðin mjög áhyggjufull yfir vestrænum gagnkynhneigðum konum því í þessum þáttum féllu þær allar með tölu kylliflatar fyrir einvíðum piparsveininum og ef hann veitti þeim ekki næga athygli grétu þær næstum úr sér augun, þrátt fyrir örstutt kynni. Maður fékk á tilfinninguna að þær væru alvarlega greindarskertar eða að minnsta kosti á hröðum flótta frá veruleikanum. En nú hefur trú mín á heterópakkinu aukist aftur. Nú er verið að sýna þætti hér sem heita “For Love or Money”, svona týpískan Batchelorþátt þar sem piparsveinninn er fyrst og fremst ríkur og stelpurnar fyrst og fremst mjóar og málaðar. Eða það héldu allir þáttakendur þegar tökur byrjuðu. Þá var stelpunum tillkynnt að sú sem ynni hylli piparsveinsins fengi jafnframt eina milljón dollara en strákgreyinu var ekkert sagt. Á sunnudaginn var nokkrum stelpum sagt að pilla sér og eins og venjulega urðu þær fyrir miklum vonbrigðum en allar hvísluðu til myndavélarinnar: “Það er ekki Rob, ég þekki hann ekki. En ég tapaði milljónkalli” í staðin fyrir “Hann er sálufélagi minn/sá eini rétti fyrir mig/guð, ég lifi þetta ekki af”. Kaldur veruleiki; maður verður ekki ástfangin af Rob eftir nokkra tíma en ein milljón er alltaf ein milljón. Mér var mjög létt, þeim er greinilega viðbjargandi. Önnur tíðindi úr sænsku sjónvarpi eru að í gær var umræðuþáttur þar sem sænskir dragkóngar sátu fyrir svörum. Tvær sætar og svolítið saklausar töffarastelpur með skeggbrodda og reyrð brjóst útskýrðu aðeins hvernig þær gerðu þetta, hversvegna og hvenær. Svo voru þrír “spyrjendur” sem komu með gáfulegar spuningar eins og “Hefurðu ekkert gáfulegra að gera?” “Veistu að þú ert að hæða lífið?” og “Til hvers ertu að þessu? Ég meina dragdrottningar eru fyndnar en þið eruð bara fáránlegar”. Það sem mér fannst merkilegast, fyrir utan það að enginn hafði í raun séð þessi fáránlega leiðinilegu dragkóngashow, er að einn af þessum þremur spyrjendum var dragdrottning sem fannst þetta bara ´ótrolea´ heimskulegt. Hann sagði að hann og dragdrottningavinir hans væru flottir og skemmtilegir og með show sem fólk vill sjá en dragkóngar væru bara stelpur í strákafötum sem enginn hefur áhuga á. Þær útskýrðu að þær væru nú reyndar með show (hef séð slík, mjög skemmtileg) og þá fræddi hann dragkóngana um að streit hommahækjurnar hans myndu sko aldrei vilja sofa hjá þeim, sem þær voru auðvita yfir sig leiðar yfir. Talandi um að standa saman og skilja um hvað málið snýst. djísös. Og hvað er þetta með fólk sem klæðir sig í föt hins kynsins? Af hverju eru allir að æsa sig svona yfir því? Hvaða helvítis máli skiptir það þó að kona setji maskara á efri vörina en ekki augnhárin? Hverjum er ekki sama þó að karlmaður sé í neðripart með einni skálm en ekki tveimur? Hvað er svona hættulegt við dragkónga/drottningar og klæðskiptinga? Bara svona spyr.... mánudagur, október 06, 2003
Það er svo gaman að búa í Svíþjóð ef maður fílar íþróttir. Einhver Svíi sem ég hef aldrei heyrt minnst á áður varð heimsmeistari í einhverjum flokki í glímu og stelpurnar eru komnar í úrslit á heimsmeistaramótinu í fótbolta. Ég hefði nú horft á leikinn ef hann hefði ekki verið klukkan fjögur í nótt. Úrslitaleikurinn er á mannsæmandi tíma, næsta sunnudag og er alveg öruggt að ég verð fyrir framan sjónvarpið. Þrátt fyrir að Auður sé ekki mikil áhugamanneskja um fótbolta þá held ég að ég nái samt að plata hana til að sitja með mér. sunnudagur, október 05, 2003
Í gær var kanelsnúðadagurinn hérna í Svíþjóð. Við höfum hvorki hugmynd um uppruna dagsins né tilgang nema þá helst að búðareigendur græði meira. Að sjálfsögðu studdum við málstaðinn með að kaupa einn snúð saman sem við kláruðum meira að segja ekki því hann var svo stór, en ágætur var hann. Við erum greinilega orðnar algjörir Svíar, gerum bara nákvæmlega það sem er ætlast til af okkur :) Við gerðum meira nýtt í gær; í fyrsta skiptið síðan við komum hingað keyptum við fisk og elduðum. Við fórum sem sagt í fiskbúðina í Fruängen centrum, bentum á flök sem okkur leist ágætlega á og sögðum að við héldum að við vildum þetta. Afgreiðslumaðurinn sagði að þetta væri þorskur og eftir smá ráðfæringar ákváðum við að kýla á þorskinn. Hann spurði okkur hvort við værum Íslendingar, sem við játtum afar stoltar eins og vanalega, og við sögðum honum að Íslendingar borðuðu yfir höfuð ekki þorsk. Svo reyndum við að útskýra fyrir honum að við borðuðum aðallega ýsu nema að vandamálið var að við vissum ekki hvað ýsa var á sænsku og sögðum að hún hefði svarta rönd á síðunni. Kallinn nefni nokkur nöfn og alltaf sögðum við nei þrátt fyrir í raun að vita ekki hvað ýsa þýddi, ég þóttist samt vera viss um að ég þekkti orðið þegar ég heyrði það. Eftir smá stund missti kallinn allan áhuga á leiknum “Hver er fiskurinn” og hættum við þá. Þar sem ég bjóst ekki við að við kæmum í bráð skellti ég með tveimur flökum af rauðsprettu og spurði að sjálfsögðu síðan hvernig maður ætti eiginlega að elda þessa fiska. Ekki fannst mér svarið merkilegt: Salta og pipra og steikja upp úr raspi, báðar tegundirnar. Þar sem Auði finnst fiskur ekki góður en ég er afar hrifin af honum og þykist nú hafa fylgst með mömmu í gegnum árin þá féll það í minn hlut að elda. Mér fannst hann hins ekkert sérstakur, hvorki vondur né góður, aðallega bara ekkert bragð af honum. Það sem kom hins vegar á óvart var að Auði fannst hann bara ágætur (hún segir þetta ekki bara af því að ég eldaði, við erum afar heiðarlegar hvor við aðra!), einmitt v.þ.a. það var ekkert bragð af honum. Um þrjú leytið um nóttina vöknuðum við við einhverja hringingu. Ég fattaði ekkert hvað þetta var og þar sem hringingin hætti ekki þá stökk ég á fætur. Hringingin virtist eiga uppruna sinn á stofuborðinu okkar og þar sem ég var svo svefndrukkin var engin tenging í hausnum á mér; hvað gæti eiginlega verið að gefa frá sér hringingu á stofuborðinu okkar. Það var ekki fyrr en Auður stökk líka á fætur og kveikti ljósið sem ég sá að það var síminn okkar. Síminn okkar sem hringdi klukkan þrjú um nóttu. Að sjálfsögðu voru einhverjir djammarar þar á ferð, mamma og Inga frænka að hringja úr afmælisveislunni hans pabba og segja mér að það vantaði okkur Auði. Mér þótti afar vænt að fá þessa óvæntu hringingu, ávallt ánægjulegt að fólk sé að hugsa til okkar og vilji njóta nærveru okkar og líka gaman að vera örlítið með í veislunni. Samtalið entist í 53 mínútur og til að halda ekki vöku fyrir Auði fór ég inn á baðherbergi og sat allar mínúturnar á klósettinu, allsnakin. föstudagur, október 03, 2003
Þegar við tókum til um seinustu helgi, fyrir pinkulitla partýið okkar, þá fundum við köngulóarvef og ábúanda bak við gítarinn minn. Það er alveg satt að ég hef ekki spilað mikið undanfarið svo þetta var kærkomin áminning, enda æfði ég mig smá í gær. Og í gær fengum við frekar óvænt símtal, gsm síminn okkar hringdi. Það var ekki eins óvænt eins og að það var síðan faðir minn sem var hinu megin á línunni (sem var í raun ekki óvænt fyrir hann þar sem hann var meðvitaður um gjörðir sínar), og ég sem hafði hálftíma áður hringt heim og talað við mömmu (um soldið sem hann má ekki ennþá vita, sem sagt um afmælsgjöfina hans). Hann vildi greinlega heyra aðeins í einkadóttur sinni og dulbjó það sem að hann hefði verið að kanna hvort að hann hefði rétt símanúmer í höndunum. Ég komst allavega að því hjá honum að ef þið ætlið að hringja í okkur frá útlöndum (þ.e. utan Svíþjóðar) þá stimplið þið inn 0046-76-6466308 en ef þið eruð í Svíþjóð þá stimplið þið 076-6466308. Pabbi mun sem sagt vera með mega afmælisveislu á laugardaginn en við Auður komumst ekki sökum fátæktar en lofum að mæta í sextugsteitið :) fimmtudagur, október 02, 2003
Gvuð, ég held að ég hafi verið að fatta soldið, að Árni Jökull hennar Byddíar hafi orðið eins árs 26. sept. Allavega minnir mig að hann hafi verið fæddur mánuði á undan Byddí, eða þannig, þið skiljið. Ég óska Árna auðvitað til hamingju hvort sem þetta er rétt eður ei, hann hlýtur allavega að eiga afmæli einhvern tímann á árinu :) Já, og Þórir átti afmæli svona tuttugastaogþriðja til fimmta sept (hvenær var það aftur Þórir?). Allavega stórar kveðjur frá okkur :) Og núna í október á fullt af fólki, sem ég þekki, afmæli. Ég man ekki nákvæma dagsetningu allra en veit að pabbi er 8., afi á Vorsó er 20., Byddí er 26 en að auki eiga margir úr fjölskyldu Ingu frænku og Kötu frænku afmæli. Til hamingju fyrirfram allir. Ég hvet alla að skrá afmælisdaginn sinn hjá okkur, klikkið á linkinn hérna til vinstri. Fékk sendar myndir fyrir stuttu úr brúðkaupinu hjá Byddí og Nonna. Það munu bætast við fleiri myndir síðar, þegar ég fæ þær í hendurnar. Var sakar sin tid, eins og Svíarnir segja það. Og svo fleiri myndir, frá heimsókn Hlínar, Bigga og Týra í ágúst. I gær var ósköp tómlegt í kotinu okkar, engir gestir, bara við og köngulærnar. Við horfðum á NÝJAN friends þátt í sjónvarpinu þannig að við höfðum eitthvað til að dreifa huganum. Annars hef ég ekkert heyrt frá Mumma, hann átti langa og stranga ferð fyrir höndum (fruängen- Tcentralen-skavsta-frankfurt-stuttgart) og ég hef ekki hugmynd um hvort hann komst lífs af. Bið hann hér með að láta frá sér heyra sem fyrst. Næstu gestir eru væntanlegir eftir 2 vikur, og hlökkum við mikið til. Þangað til er bara billjarð og nýjir friends. Júhú! þriðjudagur, september 30, 2003
Ögmundur frændi minn á afmæli í dag. gjöfin mín til hans er að kalla hann ögmund en ekki dálítið annað sem ég á mjög erfitt með að venja mig af. Allir að hugsa fallega til hans og senda honum afmæliskveðju ef þið þekkið hann. Í öðrum fréttum er það helst að ég hef verið að hreinsa gömlu rannsóknarstofu hópsins míns í dag og í gær ásamt öllum hópnum. það var frekar leiðinlegt en sem betur fer stóð ég fyrir framan eiturefnaskápinn hálfan daginn í gær að þrífa og flokka og gufurnar þaðan léttu mér lífið (og styttu líklega). Önnur frétt sem kannski ekki kemur á óvart er að pósthólfið mitt nýja er fullt af pósti sem ég á eftir að svara og ég er þess vegna næstum fallin á loforðinu sem ég gaf fyrir viku :( Í kvöld ætlum við svo að kveðja gestinn okkar en hann fer í nótt áleiðis til Stuttgart. mánudagur, september 29, 2003
Auður hefur ákveðið að nú sé tími til að þið skoðið nokkrar myndir úr brúðkaupinu hjá Möggu Steinu og Hadda. Svo er hægt að kíkja inn á heimsókn Önnu Kristínar og Þorvarðar í ágúst. Við erum komnar með sænskt gsm símanúmer, 076 235 0150. Við keyptum okkur sem sagt loksins svona frelsi og á að vera hægt að nota þetta í Evrópu sem er mun betra en það sem hægt er að fá hjá Símanum á Íslandi; allavega virkaði síminn hjá Hauki bróður hvorki í Danmörku né Svíþjóð. Hins vegar er ég ekkert ofurbjartsýn að símakortið okkar virki á Íslandi þó það eigi að virka í Evrópu, það er stundum eins og Ísland sé einfaldlega ekki talið með, það er svo langt í burtu :) Þessi rokkbar, sem við fórum á á föstudaginn, var allt í lagi. Þar spilaði amerísk hlómsveit, skipuð þremur strákum sem voru ábyggilega ekki með leyfi til að drekka allan þennan bjór og hvað þá reykja ýmislegt. Við litum aldrei þessu vant út fyrir að vera prúðasta fólkið á staðnum. Með okkur í för var Gauti, frændi hans Mumma, sem vinnur hérna í Stokkhólmi í nokkra mánuði. Ætluðum að gera stóra hluti á laugardeginum, þ.e. fara í bæinn og versla eitthvað, en þar sem það var rigning þá datt niður allur áhugi. Í staðinn skruppum við bara í Fruängen centrum; auðvitað m.a. í ríkið en á meðan fór ég í ótrúlegu búðina (því Auður vill helst ekki fara einu sinni inn í búðina, svo leiðinlegt finnst henni þar) og keypti eitthvað bráðnauðsynlegt eins og þrítugasta glasið okkar (keypti kisuglas handa Auði) og tvær langar skeiðar fyrir sultur og svoleiðis. Mér finnst bara svo ógeðslega gaman að rölta í ótrúlegu búðinni og kaupi yfirleitt eitthvað, helst þó þegar Auður er ekki með í för :) Eitt af því sem var líka skemmtilegt við daginn var einmitt rigningin, það gerist nefnilega sjaldan að við munum eftir regnhlífunum okkar (og svo rignir kannski á leiðinni heim!!!) enda rignir nú ekki mjög oft hérna, allavega ekki á okkur, en núna mundum við eftir hlífunum sem gerði laugardaginn afar sérstakan. Ekki bara til að koma okkur í "múdið" heldur bara til að skemmta okkur almennt, þá horfðum við á teiknimyndina með fisknum Nemo og pabba hans (sem er kannski algjör óþarfi að benda á að er líka fiskur), alveg hreint bráðfyndin mynd, mælum öll með henni. Um kvöldið kom Gauti, frændi Mumma, í mat og eftir matinn kom Hrönn í pinkulítla Íslendingateitið okkar. Við buðum reyndar líka djammvinkonum okkar en við enduðum á að hitta þær á nýjum Gay stað. Hrönn fór heim en við hin fórum á staðinn og skemmtum okkur held ég flest ágætlega. Þetta var þó jafnvel aðeins of ný upplifun fyrir Gauta litla og erum við hræddar um að hann sé enn smá skelkaður, þó var ekkert sérstakt sem gerðist, bara venjulegur gay staður :) Djammvinkonur okkar komu heim með okkur og gistu á vindsænginni. Við reyndum að kenna þeim kana og þurftum auðvitað að útskýra allt á sænsku, sem einfaldaði ábyggilega ekkert spilið. Við tókum nú bara eitt spil og gáfumst svo upp því önnur þeirra (sú finnska) náði ekki neinu, varla einu sinni því að hjartadrottning drepur hjarta fimmu :) Þetta þýddi sem sagt að á sunnudagsmorgninum (ehh, eftir 12) skellti ég í bollur fyrir alla næturgestina. Hrönn var búin að bjóða okkur í pönnukökur, svo strax eftir bollurnar héldum við til hennar ásamt Gauta og reyndum að fylla upp í það litla pláss sem eftir var. Auðvitað fórum við svo í smá pool, sem ég held að strákarnir hafi nú ekki fílað eins vel og við. Við teljum nefnilega að strákar hafi sæmilega gaman af að keppa við stelpurnar meðan þeir vinni, en svo verði þetta frekar leiðinlegt þegar þetta snýst við :) Við horfðum á sænsku píurnar mala Nígeríu 3:0 á heimsmeistaramótinu í fótbolta og fögnuðum hverju marki. Auðvitað höldum við með Svíþjóð í öllu, nema þegar þeir keppa á móti Íslandi. föstudagur, september 26, 2003
Í gær kom nýi gesturinn okkar, hann Mummi. Hann er að koma til okkar í annað sinn og við hvetjum alla til að taka sér hann til fyrirmyndar. Mummi fór rosa krókaleiðir til okkar, fyrst til london, þaðan til fredrikshavn (eða eitthvað) og þaðan til basel og frá basel til frankfurt og frá frankfurt til stokkhólms. Mummi er svo vanur gestur að við þurftum ekki einu sinni að sækja hann á T-centralen, hann gat bara rölt sér sjálfur í tunnelbanan og tekið lestina til Fruängen. Við hittum hann svo rétt fyrir utan lestarstöðina í fruängen en hann var lagður af stað úr lestinni áður en við komum, alveg sjálfur, rosa duglegur. Við fórum heim og spjölluðum aðeins og fórum svo bara að sofa. Ég bíð enn eftir símtali frá gestinum en hann ætlaði að hringja þegar hann vaknaði. Í kvöld ætlum við á life rokk á einhverri búllu sem vinnufélagi minn mælti með. miðvikudagur, september 24, 2003
Þið eruð þvílíkt heppin í dag!!! Þið getið nefnilega núna séð myndir úr vinnupartýi í sumar. Til að bæta ykkur upp leiðinlegu myndirnar af fólki sem þið hafið aldrei séð þá eru líka myndir af okkur síðan í maí-júní og júní og júlí. Nú er ég loksins komin með ímeil hér í háskólanum. Það er audur@dbb.su.se. Endilega sendið mér skemmtilegan póst um hvað þið eruð að gera í lífinu og hvað ykkur finnst um málefni líðandi stundar og hvernig ykkur líður. Ég er með sjálfvirka stillingu á innboxinu þannig að öllum pósti um lítil börn sem fæddust hálfu ári fyrir tímann og eru þess vegna með krabbamein í nefi og þriðju höndina sem hverfur ef ég forwarda á 30 manns, verður svarað með vírus sem lætur windowsið og dosið og linux og unix og öll stýrikerfi verða að spagettíi. Sama gildir um allan forwardaðan póst sem endar á hótun um að ég muni lenda fyrir þremur vörubílum, hverjum á eftir öðrum e.þ.u.l. ef ég forwarda ekki þessum ákveðna pósti til 30 vina minna. Ég endurtek audur@dbb.su.se. Ég lofa meira að segja að reyna mitt besta til að svara innan viku (sem er mjög metnaðarfullt af mér). Batnandi konu er best að lifa. mánudagur, september 22, 2003
Í dag lít ég soldið út eins og fangi. Auður klippti mig nefnilega í gær og tók nánast allt hárið af mér. Ég er samt þrælánægð með klippinguna, fyrir utan að vera afar þægileg þá er þetta hrikalega vel gert hjá Auði og er ég líklega best klippti fangi í heimi :) Skemmtileg tilviljun að ég opnaði fyrir brúðkaupsmyndamöppu Hlínar og Bigga áðan því þau áttu pappírsbrúðkaup í gær, en enginn mundi víst eftir því að sögn frúarinnar :) Vona að eiginmaðurinn hafi þó ekki klikkað! Dagurinn í dag er all rosalegur. Ekki nóg með að Auður hafi slegið persónulegt met, vaknaði 6:50, nánast ótilneydd til að setja í nokkrar þvottavélar (þessir Svíar eru orðnir það ósvífnir að bóka þvottavélarnar um helgar þegar við ætlum að nota þær), heldur byrjar ný sería af CSI í kvöld. Við stelpurnar vorum búnar að sammælast um að hittast á poolstaðnum okkar eftir vinnu og æfa okkur smá. Þau plön munu haldast en það er pottþétt að við munum ekki koma mínútu of seint heim því við erum allar heilmiklir aðdáendur CSI og munum vera límdar við skjáinn. sunnudagur, september 21, 2003
Loksins drattaðist ég til að setja nokkrar myndir inn á myndasíðuna okkar, en það er fullt eftir. 3 myndir af Týra, afgangurinn af myndunum úr Íslandsferðinni okkar í júní, gömul mynd frá því að ég rakaði á mér hárið, og snjóbrettaferðin okkar með Einari. Á föstudagskvöldið þegar við komum heim úr pool, sáum við tvo héra skjótast yfir gangstéttina rétt við húsið okkar. Eða það héldum við því við höfum oft séð héra í nágrenninu. Þessir hérar voru samt ábyggilega þeir stærstu í heimi og þegar við staðnæmdust og rýndum á dýrin þá komumst við að því að þetta voru líka furðulegustu hérar í laginu; þetta voru nefnilega tvö dádýr. Við stóðum þarna hreyfingarlausar í tvær mínútur og störðum á dýrin, sem störðu á okkur til baka. Að lokum urðu þau leið á að virða þessar mannverur fyrir sér og hoppuðu í burtu. Það er rosalega furðulegt en skemmtilegt að verða var við hin dýrin í skóginum :) föstudagur, september 19, 2003
Til viðbótar við þrjá ósamstæða sokka (sem hanga ennþá inni á baði) þá fundum við flíspeysu og jakka af fyrrverandi gestunum okkar í morgun. Kæru fyrrverandi gestir, það eru allar líkur á að við hendum þessum sokkum (þar eð við erum búnar að gera of mikið af sokkabrúður) en reynum að koma peysunni og jakkanum til Íslands með næstu gestum. Við Auður erum ennþá að ná okkur eftir keyrsluna í seinustu viku. Drösluðumst þó í pool í gær og í fyrradag. Við vorum alveg búnar í gær, gátum ekkert og fórum að sofa fyrir 23. Þegar vinnufélagar Auðar náðu í fiskinn sinn fyrir nokkrum vikum, þá fengum við einhvers konar Singaporískt ljós í þakklætisgjöf (ekki tilviljun því þau voru í Singapor), þau reyndu meira að segja að gefa okkur fiskinn en Auður afþakkaði pent. Ljósið var heillengi í umbúðunum og færðist um stað í íbúðinni ef það var fyrir okkur. Þegar ég var farin að skammast mín fyrir letina í okkur tók ég það upp og reyndi að setja saman. Í fyrstu leit ekki út fyrir að mér tækist það, það voru fjórar hliðar og tveir þverbitar og engar svona IKEA leiðbeiningar og ég var í vandræðum. Ljósið leit alls ekki út eins og ég hafði ímyndað mér, ég hélt að þetta væri veggljós þegar það var í umbúðunum en þetta er í raun lampi, ofsalega flottur, svona dæmigerður asískur með pappírsveggjum. Mér tókst loksins að sjá útúr þessari roknarbyggingu en geymdi að setja hana saman því við þurftum að taka klóna og perustæðið með út í búð til að kaupa millistykki og peru. Þessi kló var nefnilega afar furðuleg, tveir flatir pinnar, og minnsta peran sem við fundum í Fruängen var of stór fyrir stæðið. Við fórum í sjálfan miðbæinn í búðina sem vinnufélagarnir bentu á en þar var okkur sagt að við gætum ekki fengið þetta millistykki í allri Svíþjóð, það væri einfaldlega bannað að selja það. Hins vegar gætum við fengið millistykki fyrir venjulegar klær svo maður gæti notað þær í Singapor (auk þess vildi kallinn eiginlega ekki selja mér peru því það væri tilgangslaust ef ég hefði ekki millistykki). Þessu neitaði ég sko að trúa, Svíar gætu bara ekki verið svona vitlausir. Að sjálfsögðu fórum við í Åliéns, þar sem allt fæst, og fengum í einum og sama pakkanum þrjár tegundir af millistykkjum sem maður ætti þá að geta farið með um allan heim!!! Við fengum þó ekki peru í Åliéns og fórum því aftur í heimsku búðina. Leitin (við þriðju konu meira að segja því Hrönn hjálpaði okkur) bar ekki árangur og varð úr að við keyptum nýtt perustæði. Þessi ferð var því þegar allt kom til alls afar gagnleg, við lærðum meira að segja stærðarkerfið á perustæðum!!! Hvern langar ekki til að vita það :) Jæja, þegar heim var komið setti ég nýja perustæðið í og millistykkið fyrir klóna en ekki kveiknaði á perunni. Að sjálfsögðu reyndi ég að skrúfa perustæðið í sundur til að sjá hvort vírarnir væru ekki örugglega tengdir en þá var allt pikkfast. Nú var ég að því komin að fella eitt lítið tár. Lokatilraunin mín bar óvæntan árangur, ég skrúfaði slökkvarann í sundur og var þá annar víranna ótengdur. Þessi lampi var nú meiri bjarnargreiðinn en hann er svo flott að við erum hæstánægðar með að hafa haft smá fyrir honum. ENDIR miðvikudagur, september 17, 2003
Laugardagurinn Drösluðumst út um hádegi, að sjálfsögðu var stefnan sett á að versla. Það merkilega við þennan dag var að mér tókst að fá Hauk til að máta nokkrar flíkur og meira að segja kaupa líka; hann setti persónulegt met. Við fórum heim og grilluðum kjúklingabringur og buðum Hrönn og Georg því þetta var hálfgerð afmælisveisla hjá Auði. Auður fékk fullt af pökkum: koníak frá krökkunum (fyrsta flaskan hennar), heklaðan dúk frá ömmu sinni í Sandvík, náttföt frá mömmu sinni og Þorvarði og öllum hinum og líka Kötu, og geislaspilara sem hún getur gengið með frá mér. Við sáum það að við getum í raun ekki boðið neitt fleiri en 6 manns í mat því fleiri komast ekki við matarborðið. Hrönn og Georg fóru heim en við hin drukkum aðeins og ætluðum síðan inn á einhvern stað í bænum, sýna krökkunum svona smá næturlífið í Stokkhólmi. Þau urðu soldið vonsvikin því okkur var vísað frá fyrsta staðnum því ég var með bjór í röðinni, sem stóð btw ekkert um að maður mætti ekki hafa. Auk þess setti ég bjórinn strax frá mér þegar dyravörðurinn gerði athugasemd. Ég held að mér líki afar illa við dyraverði, þeir eru upp til hópa algjör valdafífl og greinilega ekkert í gangi í hausnum á þeim nema það að þeir ráði. Fórum inn á einhvern bar til að tjilla en týndum Hauki. Þegar drengurinn var ekki búinn að skila sér eftir heilan bjór þá ákváðum við bara að fara heim aftur og freista þess að hann hefði gert hið sama. Okkur létti afskaplega þegar við hittum hann svo á lestarstöðinni. Enn og aftur var haldið heim og spilaður kani. Sunnudagurinn Núna náðum við sædýrasafninu og sjáum sko ekki eftir því, það er rosalega flott og með glæsilegum dýrum. Við Auður nýttum okkur lestarkort krakkanna til að kíkja inn á tívolísvæðið því það er ókeypis fyrir þá sem eiga eins dags eða þriggja daga lestarkort (sem sagt túrista) en ekki mánaðarkort eins og við Auður eigum. Við Auður og Haukur röltum um bæinn og keyptum brúðkaupsgjöf handa Byddí og Nonna og fylgdum svo Hauki í lestina til Köben. Ég held barasta að við hljótum að hafa tekið kana líka þetta kvöld :) Mánudagurinn Vorum í vinnunni allan daginn og fórum svo í poolkennslu. Auður fékk pakka frá Hrönn og Georg: brýni (Hrönn heyrði þegar Sigmar kvartaði eitthvað yfir bitinu á kjöthnífnum okkar á laugardaginn) og bók (sem ég man ekkert hvað heitir) sem Auður og Hrönn ræddu ábyggilega um í heilar 2 mínútur á laugardaginn og ég var svo heppin að sitja á milli þeirra :) Þar sem Auður mín átti afmæli þá fórum við á Pizza Hut. Tókum síðan síðasta kanakvöldið með Sigmari og Hlín. Sigmar fer til baka með fullt af kanareynslu því aldrei á ævi sinni hefur hann séð fólk segja eins oft kana og í þessari ferð. Gærdagurinn fór svo bara í að taka til þegar heim var komið. Það safnast ótrúleg ló á gólfið á einungis einni viku þegar 5 eru saman komnir. Við tiltektina tók ég eftir því að okkur hafði fjölgað soldið því í tveimur hornum voru samtals 4 köngulær og síðar fann ég eina á rölti yfir stofugólfið. Setti inn glænýja mynd af Týra. Gestirnir okkar eru allir farnir. Til þess að við fengjum ekki áfall yfir því að verða aleinar aftur þá fóru þau í hollum; Haukur á sunnudagskvöldið og Sigmar og Hlín þriðjudagsnóttina. Og til að deyfa sársaukann skildu þau eftir pela af vodka og flösku af líkjör sem ætti að duga okkur þar til næsti gestur kemur. Við erum þreyttar eftir allt þrammið en afar glaðar yfir skemmtilegri heimsókn. Ég ætlaði að vera löngu búin að segja smá frá dögunum með gestunum, en allavega, hérna kemur það. Við fengum fullt af dóti með gestunum. Að sjálfsögðu níðumst við á öllum sem koma til okkar, látum þá ferja dótið okkar frá Íslandi :) Haukur kom með úttroðna ferðatösku af tómum myndaalbúmum, bókum, nammi, geisladisk með Herði Torfa frá mömmu og pabba og inní var fullt af pening í afmælisgjöf handa okkur Auði; það var náttúrulega aðallega peningarnir sem tóku allt plássið :) Takk æðislega, mamma og pabbi! Föstudagurinn Unnum bara hálfan dag og gæduðum síðan ferðalangana aðeins. Auðvitað fór ég með Hauk í Naturhistoriska safnið og sýndi honum steingervinga, hann hélt varla vatni yfir fegurðinni (mín útgáfa af sögunni!). Ég sýndi Hauki vinnuaðstöðuna mína og svo var hann svo heppinn að berja Auðar líka augum. Við tókum ferjuna á nærliggjandi hólma til að fara í Tívolíið og Aquaria Water Museum (sædýrasafnið). Það var soldið skondið að við vorum of snemma fyrir Tívolíið og of sein fyrir sædýrasafnið. Við Auður skildum krakkana eftir hjá Tívolíinu og fórum í bæinn til að leita að brúðkaupsgjöf handa Byddí og Nonna. Við sameinuðumst öll um matarleytið og fengum okkur bita á einhverjum stað sem krakkarnir fundu, staður sem við Auður höfum aldrei prófað fyrr og ekki einu sinni tekið eftir. Maturinn var stórgóður en þjónninn var frekar skrítinn. Hann skrifaði ekkert niður sem við sögðum og þó vorum við 5. Síðan kom hann stuttu síðar og spurði okkur hvað Haukur og Sigmar hefðu pantað sér að drekka. Svo kom hann og spurði mig hvað ég hefði pantað að borða. Þegar maturinn kom, vantaði einn skammtur af hvítlauksbrauði og á hamborgaranum hans Hauks var laukur en hann hafði pantað án. Haukur sendi hamborgarann rakleiðis til baka og fékk nýjan stuttu síðar sem hann fann reyndar örlítinn lauk í!!! Héldum heim á leið og spiluðum kana. mánudagur, september 15, 2003
Auður mín á afmæli í dag og er 26 ára, til hamingju yndið mitt :) Í gær kusu Svíar nei við evrunni, 56 % á móti og 42 % með. Spekúlantar vorum með hugmyndir um að margir myndu kjósa já af meðaumkun yfir dauða utanríkisráðherrans (Anna Lindh) sem var einn helsti já-maðurinn. Hins vegar er nú líka sá möguleiki að eftir þetta morð hafi Svíar verið dauðhræddir við breytingar og bara viljað halda landinu áfram fullkomnu og fallegu og þar af leiðandi kosið nei. föstudagur, september 12, 2003
Í gær var ég bara heima allan daginn. Lá uppi í rúmi með tærnar upp í loft og glápti á imbann, tvær bíómyndir og svo kíkti ég af og til á fréttirnar af leitinni að morðingja Önnu Lindh. Eldaði lasagna fyrir gestina sem fékk misjafnar móttökur og síðan tjillaði ég bara heima á meðan þau fóru í pool. fimmtudagur, september 11, 2003
Svíar eru að alveg miður sín þessa stundina þar sem utanríkisráðherrann þeirra, Anna Lindh, dó í morgun eftir að hafa verið stungin í verslunarmiðstöð í miðbænum í gær. Lögreglan hefur enn ekki handsamað gjörningsmanninn. Það er ekki bara vegna þess að Anna Lindh var mjög vinsæll stjórnmálamaður sem Svíar eru leiðir heldur líka vegna sjálfsins. Svíar eru nefnilega afar líkir Íslendingum að því leiti að þeir eru afar stolltir af landi og þjóð og trúa því innilega að hér sé best að lifa (þó þeir geti nú kvartað nógu andskoti mikið!) og þar af leiðandi skilja þeir einfaldlega ekki hvernig þetta gat gerst. Ég er jafnvel viss um að nokkrir Íslendingar yrðu leiðir og hissa ef okkar utanríkisráðherra yrði drepinn. En að öllu léttara hjali. Ég er enn ekki búin að nefna það einu orði að Brynís Rut (aka. Byddí brjál) gifti sig seinasta laugardag prýðispiltinum Jóni Brynjari (aka. Nonni). Byddí, sem framvegis verður auðvitað ekki kölluð neitt annað en frú Byddí brjál, var hrikalega ánægð með daginn. Svo ég vitni í frúnna: “Við fengum fínt veður og kirkjan var falleg, brúðarvöndurinn líka og múnderingin hennar Bryndísar var fullkomin. Ekki skemmdi fornbíllinn sem við fengum í aksturinn milli staða fyrir heldur!!”. Við sendum ykkur hjartanlegar hamingjuóskir frá Stokkhólmi. Í gær tók ég mér frí í vinnunni til að lóðsa gestina aðeins um Stokkhólm. Við gengum heilmikið um miðbæinn til að þau gætu séð um sig sjálf í dag, ég get nefnilega ekki tekið allt of marga daga frí. Greyin voru ávallt afar þreytt og þurfti oft að taka pásur. Veðrið var nú ekki alveg eins og ég hafði beðið um fyrir gestina, það var nánast stormur hérna á sænskum skala, en meðan hann helst þurr þá er ég sátt. Fórum á uppáhaldsveitingastaðinn minn, Pizza Hut. Auður var heima þar sem hún varð meira veik í gær og er meira að segja heima í dag. Eftirá spiluðum við smá pool og fórum síðan heim í kana, nammiát og bjórdrykkju. Ótrúlegt nokk þá vann Haukur, og ég sem var til í að veðja 1000 SEK fyrirfram að hann kynni ekki einu sinni kana, sem betur fer tók enginn veðmálinu :) miðvikudagur, september 10, 2003
Í gær komu gestirnir okkar. Við vorum voða glaðar að fá þau og ekki minna glaðar þegar þeir sýndu allt íslenska nammið sem þau komu með. Emelía er í fríi í dag og þau ætluðu víst að skoða sig um hér. Ég hefði átt að vera heima, ég er gangandi vírusframleiðsluvél og ætla að vera heima á morgun í rúminu. Á næstu dögum fáið þið að vita hvað við gerum skemmtilegt með nýju fínu gestunum okkar þriðjudagur, september 09, 2003
Jamm, nú er ég loksins komin til baka eftir kennslu og sumarbústaðaferð. Ég var bara að fylgjast með labi sem ég á að kenna í nóvember. Var satt að segja smá hneyksluð á því hvað nemendur hér eru dekraðir; verklegt virðist snúast um það að kennarinn réttir nemendunum nokkrar lausnir og segir blandiði þessu saman og hitið og búið. Ussususs Sumarbústaðurinn var svona vinnuferð sem er árleg í hópnum mínum. 25 af 28 mættu og allir áttu að halda fyrirlestur um verkefnin sín, eftir hádegi á fimmtudegi. Það fór náttúrulega langt fram úr áætlun þar sem allir héldu að þeir gætu fengið nokkrar aukamínútur. Ég talaði næstsíðust og allir voru í brjáluðu stuði til að hlusta. En það var allt í lagi. Um kvöldið var svo Kräftskiva eða ferskvatnsrækjuveisla. Nokkur úr hópnum höfðu farið daginn áður upp í sumarbústaðin og lagt búr í vatnið rétt hjá til að veiða rækjuna. Veiðin var alls 16 rækjur en sem betur fer voru svíarnir við öllu búnir og höfðu keypt fullt af rækjum (tyrkneskar party rækjur, til að vera nákvæm) í bænum áður en haldið var af stað. Auðvita var svo partý á eftir þar sem gamla fólkið týndist inn að sofa smátt og smátt og ég var auðvitað með þeim síðustu í rúmið. Eftir 3ja tíma svefn var yfirmaðurinn með 2 klst. fyrirlestur sem ég skildi svona minnihlutann af og svo var það bara skúraskrúbbabóna og heim til stokkhólms. Það sem ég lærði á ferðinni: ekki drekka folköl til hálf sex, vakna klukkan 9 og fara síðan á fyrirlestur og þregslast loks í aftursætinu á gömlum sítróen með bilaða dempara í 2 tíma á holóttri sænskri hraðbraut. föstudagur, september 05, 2003
Það var eins gott að ég setti eitthvað á síðuna í gær því einn af okkar dyggustu lesendum varð áhyggjufullur og hringdi í okkur til að kanna allt væri ekki í lagi. Þetta var mamma hennar Auðar og tilkynnti hún í leiðinni að þær stelpurnar (hún og ömmur hennar Auðar) væru búnar að kaupa sér miða til okkar 16. október. Ég veit að þið hin höfðuð líka gríðarlegar áhyggjur af okkur en hringduð ekki því þið hafið ekki símanúmerið okkar, en það amar sem sagt ekkert að okkur. Ég fór í gær og keypti afmælisgjöfina handa Auði; hún á afmæli 15. sept. Ég þurfti að labba heilmikið því þetta var alveg nýtt svæði fyrir mig en algjörlega þess virði því dæmið er hrikalega flott (ég er að passa mig að gefa engar vísbendingar því Auður mun lesa þetta). Fyrir tveimur vikum fengum við Auður senda kosningaseðla heim; við erum sem sagt gjaldgengar í kosningunum um evruna 14. sept. Okkur finnst það soldið fyndið, bara búnar að búa hérna í ár, en höfum nú hvorugar áhuga á að kjósa því við höfum nú ekki fylgst mikið með þessu og hentum því seðlunum. Það þýðir þó ekki að hún Auður mín hafi ekki margar og miklar skoðanir á þessu evrumáli, síður en svo og langt frá því, og auðvitað er ég með sömu skoðun því sannfæringarkraftur hennar er mikill (og reyndar afar auðvelt að sannfæra mig um eitthvað sem mér er sama um). Við teljum báðar að Svíar muni segja nei en það verði frekar tæpt. Ég eftirlæt Auði að tjá sig dýpra um málið. fimmtudagur, september 04, 2003
Hvernig í ósköpunum gat ég gleymt því að tala um Madonnu og Britney. Atriðið þeirra á MTV var rosalega flott!!! Ég hef reyndar bara séð þennan pinkulitla part en hann er mjög flottur. Það á líka að vera hægt að sjá lengri útgáfu hérna en ég gat ekki opnað það. Og fyrir þá sem vilja sjá fryst gæðaaugnablik þá eru þau hér. Að sjálfsögðu er ég með fyrri myndina á desktopnum í vinnunni. Þessi hérna fær ennþá að prýða desktoppinn í tölvunni okkar heima. Núna er Auður úti á landi með vinnufélögum sínum. Árlega fara þau í sumarhús og halda fyrirlestra um verkefnin sín og skemmta sér saman. Ég man nú ekki hvort þau fóru norður eða niður en ég náði því að ég þarf að elda sjálf í kvöld og svo reyna að sofna ein í myrkrinu. Við erum byrjaðar aftur á pool stelpuæfingunum. Verðum einu sinni aðra hverja viku, 2 klst í senn og er þetta ókeypis, allt eins og seinasta vetur. Við erum náttúrulega ekki í byrjandahópnum lengur. Fyrir þau ykkar sem hafið áhuga á pool þá er þessi síða mjög góð og afar skemmtileg, ekki er verra að kunna sænsku. Þar er fullt um tækni og heitum á öllu draslinu og einnig trikkskot. Það vill svo til að einn af kennurunum okkar setti hana upp, það er hann sem mundar kjuðann á síðunni. Næstu gestir eru væntanlegir. Haukur bróðir, Sigmar frændi og Hlín kærastan hans ætla að koma til okkar í næstu viku, líklega verða þau í Stokkhólmi aðfararnótt miðvikudagsins. Ég hlakka óskaplega til. Þessir gestir ætla að stoppa almennilega lengi, í heila viku. Ég er náttúrulega búin að vera að hugsa í tvo mánuði hvað ég get eiginlega sýnt þessum ungmennum og gert með þeim í Stokkhólmi, ég helt því nefnilega fram að það væri fullt að gera hérna. Það sem er líka svo skemmtilegt við að litli bróðir sé að koma í heimsókn (þetta er bara 2. utanlandsferðin hans) er að ég veit að hann er virkilega að koma í heimsókn til mín því hann þekkir engan annan í Svíþjóð og hefur hingað til ekki sýnt minnsta áhuga á landi né þjóð (þvert á móti), þetta er því ekkert í leiðinni. Næsti gestur verður Mummi, hann kemur 25. sept og verður í 5 daga. Svo ætla mamma hennar Auðar og ömmu að koma í október og vera 4 daga. Jibbí. Við elskum að fá gesti. Ég ætla að drífa mig úr vinnunni og gera soldið leyndó, þ.e. kaupa soldið leyndó. Segi á morgun handa hverjum ég keypti en ekki hvað ég keypti. fimmtudagur, ágúst 28, 2003
Fékk sendar þrjár myndir frá pabba áðan, af guðsyni okkar með nýja fótboltann sinn sem hann fékk í afmælisgjöf frá pabba. Nýbúin með fyrirlesturinn. Þetta gekk nokkuð vel, reyndar alveg eins og ég var búin að vona. Lykillinn að velgengninni var meðvituð afstressun. Vanalega þegar ég held fyrirlestra þá verð ég svo hrikalega stressuð að ég byrja að svitna og kólna og verð gjörsamlega skrjáfþurr í munninum. Núna var ég því í peysu til að halda á mér hita og líka til þess að það sæist nú ekki ef líkami minn tæki upp á því að svitna og svo var ég með vatnsglas á borðinu. Það sem skipti líklega mestu máli var að ég vissi hvað ég ætlaði að segja og var búin að gera mjög fínar síður í Power Point, auk þess sem ég virkjaði öndunartækni fyrir viku. Það er þá vonandi að ég fari að sofa betur :) Fyrir ykkur áhugasömu þá talaði ég um grein þar sem notuð var Fluorescence Correlation Spectroscopy aðferð. Ástæðan fyrir því er að ég er að byrja að vinna með kalli sem mun mæla nokkur efnanna minna með þessari aðferð. Ég verð að sjálfsögðu að segja nokkur orð um seinasta laugardag á Íslandi, Sigga og Gilli giftu sig nefnilega. Við vorum ekki á staðnum, vorum búnar að afboða okkur fyrir mörgum mánuðum þar sem við vissum að við færum til Íslands í júní og desember og hefðum ekki efni á fleiri ferðum. Við vorum samt með fulltrúa í veislunni; Hlín og Bigga. Það sem ég veit um brúðkaupið er bara það sem brúðurin fyrrverandi hefur sagt mér á msn-inu en ég vonast til að fá ýtarlegri upplýsingar bráðlega :) Þau virðast hafa játast hvoru öðru, allavega skunduðu þau og allir gestirni í veislu á eftir. Þetta var víst alveg frábær dagur að mati Siggu. Í veislunni voru engir leikir en nokkrar ræður, aðallega kjaftaglaðir ættingjar nýju eiginkonunnar. Einnig voru slides sýningar og systir Gísla samdi lag handa þeim sem hún söng og spilaði. Um miðnætti fóru hjónin í brúðarsvítu á hótel Esju og vöknuðu timbruð daginn eftir. Ég hef ekki hugmynd um brúðkaupsgjafirnar nema þá sem við Auður, Hlín og Biggi gáfu þeim; sósuskál með litlum píski og lítilli ausu og nýstárlega kaffikönnu (eitthvað rosaleg flott danskt merki). |